31.03.1955
Neðri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2038 í B-deild Alþingistíðinda. (3248)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Út af þeim umræðum, sem hér hafa orðið viðvíkjandi Loftleiðum, vil ég taka það fram, að það félag er vissulega allrar samúðar maklegt og á fyllilega skilið þau fallegu ummæli, sem um það hafa verið sögð hér. En ég vil um leið minna menn á, að það er ekki vegna skorts á samúð og skilningi verkamanna, að bæði Loftleiðir, Flugfélagið, Eimskipafélag Íslands og önnur þjóðþrifafyrirtæki liggja stöðvuð núna. Það er vegna þess, að þetta er eina leiðin t. d. fyrir Dagsbrúnarmennina, sem hafa 3000 kr. til að lifa af á mánuði, til þess að fá hækkað sitt kaup. Og það er það, sem menn verða að skilja í þessu. Það er ákaflega hart og ákaflega leitt, ef í þeirri baráttu, sem stendur milli verkalýðsins annars vegar og nokkurra einokunarhringa hins vegar, sem hafa ríkisstjórnina í sínum klóm, skuli ýmis góð fyrirtæki vera í stórhættu að malast í sundur. Þetta er sá harði og grimmi veruleiki stéttabaráttunnar. Það er sorgleikur, sem við þurfum að reyna að forðast. En það er ekki til neins, þegar talað er um að reyna að forða einhverjum út úr þessum sorgleik, að ætla að skella skuld á einn aðila og segja, að verkalýðurinn og hans samtök eigi öllu að bjarga. Og það kemur úr hörðustu átt, þegar fulltrúi ríkisstj. leyfir sér að fara að deila á verkamenn og þeirra blöð í því sambandi, því að ég veit ekki til þess, að það hafi verið sýnd í verkföllum meiri tilhliðrunarsemi almennt gagnvart hagsmunum almennings en gert er í þessu verkfalli, sem nú stendur yfir. En hæstv. viðskmrh. kemur hér upp og lýsir einhliða yfir andúð sinni á umsögnum, sem fram hafi komið í blöðum verkalýðsflokkanna, og segir eins og til að fordæma það: Þannig er hin pólitíska barátta á Íslandi í dag. — Síðan talar hann mjög hjartnæm orð um hagsmuni þjóðarinnar. En hvað gerir hæstv. ríkisstj. og þeir, sem hún getur ráðið yfir, ef hún vill, til þess að varðveita hagsmuni þjóðarinnar í þessum efnum?

Verkalýðsfélögin hafa gert samninga við einn stóratvinnurekanda í Hafnarfirði, bæjarútgerðina, og við ýmsa smærri atvinnurekendur, hafa séð til þess, að atvinnulífið í Hafnarfirði geti gengið. Hvernig bregzt ríkisstjórnin og þeir, sem hún stendur í sambandi við og felur framkvæmd á sinni pólitík, eins og olíuhringarnir, við þessari ráðstöfun verkalýðsins og bæjarstjórnarmeirihlutans í Hafnarfirði, að reyna að tryggja gang þjóðlífsins og hagsmuni þjóðarinnar með samningunum þar? Það, sem hefur gerzt, er það, að olíuhringarnir og Vinnuveitendafélag Íslands hafa tilkynnt, að bæjarútgerðin í Hafnarfirði og bátarnir þar fái ekki olíu, að þingmaður íhaldsins fyrir Hafnarfjörð, sem á sæti í Ed., neitar að afhenda beitu. Eru þetta þjóðarhagsmunirnir, og er þetta umhyggja ríkisstj. og Vinnuveitendafélags Íslands fyrir þjóðarhagsmununum? Vill ekki hæstv. ráðh. gá þannig að, þegar hann talar hér um þessi mál, að það verði ekki tóm hræsni, sem hann segir.

Vinnuveitendafélag Íslands hefur gefið út yfirlýsingu, þar sem það tilkynnir, að þeir menn, sem semji við verkamenn, verði settir í bann. Ég veit ekki betur en að þessi tilkynning Vinnuveitendafélags Íslands sé brot á landslögum. Svo framarlega sem litið er á það sem verzlun að selja olíu og beitu, þá er það brot á öllum lögum og viðskiptavenjum viðvíkjandi verzlun að neita að selja mönnum vöru. Svo framarlega sem litið er á afhendingu þessara hluta til bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og annarra aðila, sem semja, sem vinnu, þá er það brot á vinnulöggjöfinni hvað snertir sjö daga fyrirvara. Undir öllum kringumstæðum er þarna um að ræða ólöglegt athæfi ríkrar, voldugrar klíku í landinu, sem stendur í sambandi við ríkisstj., Vinnuveitendafélags Íslands. Og hvað er það þá, sem við þm. getum ætlað að hafi gerzt viðvíkjandi Loftleiðum, þegar við sjáum fyrir okkur, hvað það er, sem þarna er að verki í Hafnarfirði?

Það mun vera rétt, — annars er ég ekki svo vel inni í þessu máli, að ég geti treyst mér til að ræða það í einstökum atriðum, — að hjá þessu ágæta félagi hafi verið tilhneigingar til þess að semja. En þetta félag þarf að fá sitt benzín hjá olíuhringunum, ekki máske aðeins afhent, heldur líka máske að einhverju leyti lánað. Ef olíuhringarnir koma eins fram gagnvart Loftleiðum og þeir hafa komið fram gagnvart bæjarútgerð Hafnarfjarðar, þá þurfum við ekki langt að leita til þess að sjá, hvernig stendur á því, að Loftleiðir hafa ekki fengið að semja. Við þurfum ekki að leita lengra en til olíuhringanna, sem ríkisstj. sjálf ræður yfir. Það er ríkisstj., sem kaupir allt flugvélabenzín til landsins, það er ríkisstj., sem sér um allan innflutning á öllum olíum, og það er ríkisstj., sem getur látið þessa olíuhringa beygja sig. En hér kemur hæstv. ráðh. fram og segir: Verkamenn eiga að gera undanþágu. Það er þjóðarmetnaðarmál. Við skulum ekki láta einokunarhringinn Pan American Airways, við skulum ekki láta SAS, og við skulum ekki láta heldur þá aðila innanlands, sem kynnu að hafa samúð með þessum amerísku hringum, brosa.

Hvar stendur næst að höggva þá til þess að bjarga? Er ekki nær að láta olíuhringana láta undan í þessu máli? Liggur það ekki næst, og er það ekki það, sem ætti að gera, og er það ekki það, sem ríkisstj. hefur vald yfir?

Hæstv. viðskmrh. sagði, að honum hefði ekki dottið í hug að steyta hnefann, þegar fulltrúar þeirra verkalýðsfélaga, sem hann átti tal við, hefðu farið út, og ég efast ekki um það. Yfirleitt steyta menn nú ekki gjarnan hnefann nú á tímum í slíku. Menn birta bara ósköp „pena“ auglýsingu í íhaldsblöðunum frá Vinnuveitendafélagi Íslands og tilkynna, að þeir menn, sem vilja hugsa um hagsmuni þjóðarinnar, gera út og annað slíkt, fái ekki olíu- og félög, sem þjóðin á mikið undir að geti haldið áfram sinni starfrækslu, eins og Loftleiðir. Það er máske ekki sagt beint í auglýsingunni, en það er sagt á bak við tjöldin: Þíð fáið ekki olíu, ef þið semjið, þið fáið ekki benzín, ef þið semjið. — Ég vildi aðeins draga þessa hluti fram hér, vegna þess að ósk um undanþágu var af hálfu ráðh. beint hér einhliða til verkalýðsfélaganna. Ég vildi segja við hann: Beittu geiri þínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er. Sjáðu um, að olíuhringarnir bjóði tafarlaust Loftleiðum að fá það benzín, sem þeir þurfa, jafnvel í reikning, þó að þeir semji. Og ég vil enn fremur beina því til ríkisstj., ef hún er ekki búin að því nú þegar, að sjá um, að Loftleiðir fái þau leyfi fyrir flugvélakaupum og innflutningi þeirra, sem þeir þurfa að fá.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekki hægt að gera sérsamninga. Af hverju? Af því að olíuhringarnir vofi með bann þarna yfir? Er óhugsandi að kenna þeim hringum að haga sér? Við þurfum að fá það svar. Hann sagði, að sá aðili, sem ekki léti undan í þessu máli, yrði dæmdur hart. Það fer eftir því, hver menn álita að hafi verið harðvítugastur í þessum efnum. Það sem af er komið þessari deilu, eru það verkalýðsfélögin, sem hafa sýnt tilhliðrunarsemi. Þá eru það verkalýðsfélögin, sem hafa reynt að bjarga hagsmunum þjóðarinnar. En milljónamæringaklíkan í Vinnuveitendafélagi Íslands sýnir slíkan yfirgang í þessari deilu sem hún hefur aldrei sýnt áður á Íslandi. Og framlag hæstv. ríkisstj. til lausnar á deilunni er það eitt að leggja fram kröfur um, að allir hálaunamenn ríkisins fái sömu laun og fátækir Dagsbrúnarmenn geti náð út úr þessari deilu, og stöðva allar samningatilraunir á þeim spursmálum. Ég held, að hæstv. ríkisstj. hefði verið nær að reyna að koma á sáttum í vinnudeilum yfirleitt undanfarna daga og leysa þar með Loftleiðir líka heldur en að ganga í lið með Vinnuveitendafélagi Íslands og olíuhringunum í þeirri harðneskju, sem þau eru nú að beita þjóðina.

Ég segi þetta vegna þess, að hæstv. ráðh. gaf tilefni til þess, að svarað yrði fullum hálsi því, sem hann kom hér fram með. Hins vegar vil ég segja það frá mínu persónulega sjónarmiði, að ég efast ekki um, að það sé líka sjónarmið verkalýðsfélaganna, að þau vilja gjarnan reyna að bjarga Loftleiðum í þessum málum. En það verður ekki bjargað í svo harðvítugri baráttu sem hér stendur nú öðruvísi en hliðrað sé til á báða bóga. Það er ekki til neins að heimta neina einhliða undanþágu, einhliða uppgjör af hálfu verkalýðsfélaganna, en standa með olíuhringunum í þeirra fantaskap gagnvart þjóðinni. Ég veit, að það var kosin nefnd af hálfu þeirra félaga, sem þarna eiga hluta að máli, í gær, tveir menn frá hvoru þeirra félaga, sem þarna hafa með að gera, til þess að reyna samninga um þessi mál. Og ég held, að það hafi verið mjög óhyggilegt, ef hæstv. flugmrh. hefði einhvern áhuga fyrir að leysa þetta mál, að tala eins og hann gerði hér áðan og gera hér á Alþ. kröfur til verkalýðsfélaganna um einhliða undanþágur, á sama tíma sem ríkisstj. lætur það viðgangast, að olíuhringarnir, sem eru skjólstæðingar hennar, traðki á hagsmunum landsmanna, sýni sig að lögbrotum og ósvífni, kúgi félög eins og Loftleiðir og reyni að brjóta bæjarútgerð Hafnarfjarðar og atvinnurekendur Hafnarfjarðar á bak aftur. Þess vegna held ég, að það hefði verið betur farið, ef hæstv. ríkisstj. hefði haft einhvern áhuga á að reyna að bjarga Loftleiðum í þessu máli, að hún hefði setið fund með þeim samninganefndum, sem stjórnir verkalýðsfélaganna eða verkalýðsfélögin, sem með þetta hafa að gera, hafa þegar kosið, að hún legði fram að sinn leyti allan þann þrýsting, sem ég veit ósköp vel að hún getur, ef hún vill beita honum, lagt á, að olíuhringarnir láti undan í þessu máli. Það er ekki til einhliða lausn á svona málefni, og það er ekki til neins að ætla að gera þetta mál að pólitísku æsingamáli á móti verkalýðshreyfingunni. Slík tilraun frá hálfu hæstv. ráðh. mun snúast upp í það, að olíuhringarnir verða dæmdir í þessu máli og þeirra frekja og yfirgangur í skjóli ríkisstj. Þess vegna held ég, að það sé ekki hyggilegt, eins og hæstv. ráðh. hefur gert, að hleypa pólitískri hörku í þetta mál. Þetta er mál, sem við þurfum að sameinast um að reyna að bjarga, án þess að ætla að nota það til ávinnings í stéttabaráttunni fyrir annan aðilann. Verkalýðsfélögin eru búin að sýna það mikla tilhliðrunarsemi í þessum málum, að það er sannarlega tími til kominn, að þeir aðilar, sem alltaf eru að færa sig upp á skaftið, eins og sést hvernig olíuhringarnir nú eru að gera, taki að sýna nokkra tilhliðrunarsemi líka, ekki sízt þegar þjóðarhagsmunir og þjóðarsómi eru í veði. En ég veit hins vegar ekki, hvenær olíuhringarnir hafa hugsað um það tvennt.