31.03.1955
Neðri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (3251)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 3. landsk. sagði hér áðan, að það lægju fyrir tugir af undanþágubeiðnum. Ég trúi því, að hann segi þetta satt, en ég trúi því ekki, að undanþágubeiðni Loftleiða sé ekki alveg sérstæð og að henni sé allt öðruvísi varið en öðrum beiðnum, sem fyrir liggja hjá verkfallsstjórninni. Hv. þm. nefndi hér t. d. eina beiðni áðan, þar sem farið var fram á, að flugvél væri send vestur í Reykjanesskóla til þess að sækja nemendur. Er hægt að bera þetta saman við undanþágubeiðni Loftleiða, sem fer einungis fram á að fá undanþágu til þess að fljúga með útlendinga og aðeins að lenda hér á Reykjavíkurflugvelli í því skyni? Annars verð ég að segja það, að málafærsla hv. 3. landsk., hv. 2. þm. Reykv. (EOl) og að nokkru leyti hv. 7. landsk. (EggÞ) er harla einkennileg og þeir horfa ekki nema í aðra áttina. Það er enginn vandi að leysa þetta mál, segja þeir, aðeins með því að semja, ganga að öllum kröfum, sem lagðar eru fram af hendi verkalýðsfélaganna, þá munu verkalýðsfélögin þola það, þótt Loftleiðir fari þegar af stað.

Í fyrri ræðu minni áðan varaðist ég að leggja nokkurn dóm á þessa deilu, sem er milli launþeganna og atvinnurekendanna. Ég lagði hins vegar áherzlu á, að þetta mál væri leyst með undanþágu vegna þess, að það hefði sérstöðu, þetta væri að mestu leyti utanríkismál og að það væru ekki aðeins hagsmunir Íslands, sem væru hér að veði, heldur einnig þjóðarsómi, og ég held, að það sé hyggilegast fyrir okkur að viðurkenna staðreyndir og að hér eru tveir aðilar, sem deila. Annars vegar eru verkalýðssamtökin, Alþýðusambandið. Hins vegar eru atvinnurekendur, sem einnig hafa með sér samtök, og Loftleiðir eru í þessum samtökum, og vitanlega mundi það verða mjög illa séð hjá atvinnurekendum, ef þeir skæru sig úr og gerðu sérsamninga, — eða hvað mundi hv. 3. landsk. segja, ef nokkrir verkamenn tækju sig til og byrjuðu að vinna upp á óbreytt kaup, meðan á vinnudeilunni stendur? Mundi hann ekki líta óhýru auga til þessara manna og segja, að þeir væru verkfallsbrjótar? Mundi hann ekki segja, að þeir verðskulduðu refsingu í staðinn fyrir samúð og hjálpsemi? Ég býst við því. Þetta eru staðreyndirnar, að hér eru tvenns konar hagsmunasamtök að deila. Það eru verkalýðsfélögin, það eru atvinnurekendurnir. Og ég ætla aftur að segja: Loftleiðir hafa sérstöðu. Þess vegna eiga Loftleiðir að fá undanþágu og vinna upp á væntanlega samninga. Það hefur verið sagt hér, að félög vélvirkja og flugmanna hafi ekki samþykkt það formlega á fundum að óska eftir undanþágunni. Hitt er eigi að síður vitað, að þeir óska eftir því að fá undanþágu og vinna upp á væntanlega samninga og að það stendur ekki á þeim í þessu efni.

Hv. 7. landsk. var hér að tala áðan um, að það væri aðeins farið hér fram á, að verkamenn færðu fórnir. Það er ekki farið fram á, að verkamenn færi neinar fórnir í þessu efni, vegna þess að það vita allir, að þótt undanþága verði veitt, þá veikir það ekkert aðstöðu verkamanna í þeirri baráttu, sem þeir eiga í.

Hv. 3. landsk. sagði hér áðan, að vísu nokkuð lævíslega, að á einhvern hátt hafi aðstaða Loftleiða breytzt, eftir að fundurinn var haldinn með flugmrh. Hann gaf í skyn eins og hv. 2. þm. Reykv., að Loftleiðir hafi verið tilbúnar til þess að semja, áður en þessi fundur var haldinn. Ég segi nú: Það þarf töluverða dirfsku til þess að koma hér upp í hv. Alþ. og halda þessu fram, eftir að Loftleiðir hafa margsinnis gefið skýrslu um þetta mál, sem gengur í allt aðra átt. Það er í rauninni óþarft að ræða öllu meira um þetta. Við segjum allir: Loftleiðir eiga samúð skilið. Það vill enginn kippa fótunum undan þessu fyrirtæki, sem hefur hafið brautryðjendastarf. Þetta segjum við allir. En svo erum við hér að deila um það, hverjum það sé að kenna, að félagið fær ekki að hefja starfsemi sína núna í verkfallinu. Enginn hefur fært rök fyrir því, að þótt félagið fengi undanþágu, spillti það fyrir gangi verkfallsins. Hv. 2. þm. Reykv. og hv. 3. landsk. hafa ekki reynt að færa rök fyrir því, að aðstaða verkamanna í verkfallinu versnaði, þótt þessi undanþága væri veitt. Og ég skil þá vel, að þeir reyni þetta ekki, vegna þess að það er ekki hægt að benda á það. Það þýðir þess vegna ekki að vera að tala um það, að það sé verið að fara fram á, að verkamenn færi fórnir, þótt þetta sé gert. Það færir enginn fórnir við það, hvorki atvinnurekendur né verkamenn.

Það er einnig tilgangslaust fyrir hv. 2. þm. Reykv. að vera að tala um, að það standi á olíufélögunum í þessu efni, vegna þess að olíufélögin eru reiðubúin að afgreiða benzín á vélarnar, ef undanþágan er veitt. (EOl: Líka, ef samið er?) Líka ef samið er, segir hann. Þarna rataðist honum það á munn, sem hann alltaf hugsar. Það er þetta einkennilega: Ef þú vilt ganga að öllum mínum kröfum, þá mátt þú vera frjáls á eftir. Það er deila á milli tveggja sterkra aðila í landinu í dag. Það er ósköp fáfengilegt að gleyma því og játa ekki staðreyndir. Það sýnir, hvað málstaður hv. 2. þm. Reykv. er veikur, að hann skuli grípa til slíkrar fjarstæðu, og hv. alþm. og þeir, sem hér hlusta á þessar umr., munu sjá í gegnum þennan blekkingavef. Ég veit, að það er enginn svo heimskur hér inni, að hann sjái ekki, hvað hér er á ferðinni.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég þarf að segja í þessu. Ég vil aðeins biðja hv. þingmenn og aðra, sem heyra mál mitt, að hugleiða þetta mál í ró. Hafa ekki allir kynnt sér skýrslu Loftleiða? Hafa ekki allir gert sér ljóst, hvað það er, sem Loftleiðir hafa farið fram á? Hafa ekki allir gert sér ljóst, að flugmenn og flugvirkjar hjá Loftleiðum eru tilbúnir að fljúga flugvélunum, ef þeir fá að gera það upp á væntanlega samninga? Hafa ekki allir gert sér ljóst, að þótt þessi undanþága sé veitt, þá breytir það engu gangi verkfallsins og spillir ekkert fyrir verkalýðsfélögunum að ná sínu fram? Og hafa þá ekki allir gert sér ljóst, að þeir, sem standa í vegi fyrir því, að þessi undanþága sé gefin, gera það af misskilningi, af stífni, af þrjózku, vegna þess að þeir ímynda sér, að með því að steyta hnefann og játa ekki staðreyndir geri þeir sig eitthvað stóra og sterka í augum alþjóðar? En ef þannig á að halda á málunum, þá er ég hræddur um, að höggið sé reitt of hátt. Ég vil hins vegar segja það, að hv. 3. landsk. virtist hér áðan hafa vilja til þess að vera sanngjarn. Hann minntist hér á fund, sem nefnd verkalýðsfélaganna er um það bil að hefja til umræðu um þetta mál, og ég vil nú vænta þess, að hv. 3. landsk. beiti nú áhrifum sínum við þessa n. sem formaður Alþýðusambandsins til þess að leysa þetta mál, því að það heyrði ég á honum, að hann vill undir niðri, að málið verði leyst.