13.12.1954
Sameinað þing: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2050 í B-deild Alþingistíðinda. (3257)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. hefur minnt hér á það, að till. þeirra Alþýðuflokksmanna um endurskoðun varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna hefur ekki komið á dagskrá nú mjög lengi. Ég vil einnig að gefnu tilefni minna á það, að við þjóðvarnarmenn fluttum í þingbyrjun þáltill. um uppsögn varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna, og er hún á þskj. 29. Hún mun hafa komið á dagskrá aðeins einu sinni, skömmu eftir að hún var lögð fram, og var þá ákveðið, hvernig ræða skyldi. Síðan hygg ég að þessi till. hafi ekki verið á dagskrá. En ég vil nú beina því til hæstv. forseta, hvort hann muni ekki sjá sér fært að taka hana á dagskrá, áður en þingi verður frestað nú fyrir jól.