08.02.1955
Neðri deild: 42. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (3259)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Bæði er það nú, að mér sýnast dagskrárnar hjá okkur fara að gerast nokkuð fátæklegar, og svo hitt, að ég er orðinn nokkuð langeygur eftir afgreiðslu nefnda á sumum þeim frv., sem ég hef átt þátt í að flytja hér í þinginu, og þess vegna vil ég nú beina því til hæstv. forseta, að hann reki nokkuð ýtarlega á eftir þeim nefndum, sem enn þá liggja á frv. án þess að afgreiða þau, og fari ella að taka slík frv. á dagskrá, án þess að nefndirnar afgreiddu þau.

Ég vil þar sérstaklega tilnefna tvö frv., sem ég hef flutt. Annað er 49. mál, á þskj. 55, frv. til l. um breyt. á l. um áburðarverksmiðju. Ég tók eftir, að í gær í sameinuðu þingi var lagt til að fara að kjósa stjórn áburðarverksmiðjunnar, en nú fjallar einmitt þetta frv. mitt um breyt. á lögunum, sem um leið mundi breyta að nokkru leyti stjórn áburðarverksmiðjunnar, færa hana í það upphaflega horf, sem hugsað var, ef það yrði samþykkt, svo að það væri a. m. k. mjög heppilegt, að það kæmi í ljós, hvaða afstöðu menn hefðu viðvíkjandi þessu frv. mínu, áður en kosið væri, án þess ég sé þar með að biðja nokkuð um að fresta því. Ég gæti trúað, að strax við 2. umr. málsins kæmi greinilega í ljós, hvaða afstöðu menn hefðu um það mál. Nú hefur hv. fjhn. þessarar d. haft þetta mál — ég býst við a. m. k. tvo mánuði eða hátt á þriðja, og það er sannarlega tími til kominn, að málið verði afgreitt.

Þá hef ég enn fremur lagt fram 91. mál, á þskj. 153, frv. til l. um byggingar íbúðarhúsa til útrýmingar herbúðunum, ásamt hv. 6. þm. Reykv. Það er frv., sem er líka mjög brýnt að afgreitt fáist, ekki sízt þar sem við sjáum enn þá ekkert votta fyrir tillögum hæstv. ríkisstj. til lausnar á húsbyggingarmálunum. Ég vil þess vegna mjög eindregið óska eftir því, að þetta frv., sem líka var vísað til hv. fjhn., fái að koma til 2. umr. hið allra fyrsta.

Ég hef tekið eftir því, að það hefur verið nokkur áhugi hjá hæstv. forseta að breyta þannig til að tryggja, að frv. fái afgreiðslu og að þau séu ekki svæfð í nefndunum, eins og oft hefur viðgengizt á undanförnum þingum. Og það væri ákaflega æskilegt, að hv. fjhn., sem hefur þessi frv. og fleiri til meðferðar, tæki nú rögg á sig og afgreiddi þau, ekki aðeins vegna málefnanna sjálfra, heldur er ég líka hræddur um, að annars færi fyrir okkur eins og Ed., að við stæðum uppi og hefðum ekkert að gera.