10.02.1955
Efri deild: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (3261)

Afgreiðsla mála úr nefndum

forseti (GíslJ):

Áður en þessum fundi er slitið, þykir mér rétt að geta þess hér, að í Alþýðublaðinu í gær er kvartað yfir seinagangi hjá nefndum í þinginu. Ég lét að sjálfsögðu, strax og ég kom heim frá útlöndum, en þar hafði ég verið í stjórnarerindum, athuga, hvernig málin gengju í nefndum hér í þessari hv. d., og mér þykir rétt að minna hér á, m. a. út af þessari grein, sem ég tel vera mjög óverðuga, a. m. k. hvað snertir efri deild, að það eru í fjhn. aðeins þrjú mál, í heilbrn. tvö, í iðnn. eitt, í landbn. þrjú, menntmn. eitt, samgmn. tvö og sjútvn. eitt.

Ég vil alveg sérstaklega taka það fram, að flest af þessum málum eru í nefnd sumpart með samþykki flm., sumpart vegna þess, að verið er að leita nauðsynlegra upplýsinga, og enginn af flm. hefur gert mér viðvart um að kalla eftir málum, svo að ég hef ekki haft ástæðu til þess sem forseti að reka sérstaklega á eftir málum. Blaðamenn eru velkomnir til þess að fylgjast með þingstörfum, eins og kunnugt er, og ég sem forseti efri deildar er fús til þess að gefa þeim, hvenær sem er, upplýsingar um gang mála. En ég vísa alveg frá þeim ummælum, sem hér koma fram í Alþýðublaðinu, að þau eigi við vinnuafköst hér í hv. efri deild.