14.04.1955
Sameinað þing: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (3279)

Varamenn taka þingsæti

Forseti (JörB):

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf:

„Reykjavík, 14. apríl 1955.

Magnús Jónsson alþm., f. h. Jóns Sigurðssonar, 2. þm. Skagf., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Jón Sigurðsson, 2. þm. Skagf., hefur óskað þess, að varamaður hans taki sæti hans á Alþingi til loka þessa þings, þar eð hann hefur sjálfur af sérstökum ástæðum ekki aðstöðu til að sitja á Alþingi þennan tíma. Er þess því óskað, að séra Gunnar Gíslason í Glaumbæ taki sæti á Alþingi til loka þessa þings.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að kjörbréf varamanns verði tekið til rannsóknar á fundi í sameinuðu þingi í dag.

Sigurður Bjarnason,

forseti neðri deildar.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Verkefni þessa fundar er, að athugun fari fram á þessu kjörbréfi, og ég vil gefa fundarhlé í fimm mínútur. Ég vona, að það nægi til þess, að athugun á kjörbréfinu og kjörgögnum geti farið fram. — [Fundarhlé.]