02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (3297)

Kosningar

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Það getur vel verið, að þau ummæli hæstv. forseta séu rétt, að umræður um þessi mál breyti engu um niðurstöðu, en engu að síður finnst mér sjálfsagt og skylt að mótmæla þeim úrskurði, sem hæstv. forseti hefur hér kveðið upp. Í úrskurði sínum og röksemd fyrir sínum úrskurði vitnaði hæstv. forseti aðallega til þess, að hér væri um ríkisfyrirtæki að ræða, það væri um það að ræða, að Alþ. kysi mann í stjórn ríkisfyrirtækis. Nú er það í sjálfu sér rangt, að hér sé um ríkisfyrirtæki að ræða, því að í dagskrá Alþ. fyrir þennan fund er svo að orði komizt, með leyfi hæstv. forseta, að það eigi að taka fyrir sem 2. mál kosningu þriggja manna í stjórn Áburðarverksmiðjunnar h/f, sem þýðir það, að þetta er hlutafélag og fer að lögum um hlutafélög. Hvort ríkið á þar hlutabréf eða ekki hlutabréf, skiptir engu máli um eðli fyrirtækisins né það, að hér sé um atvinnufyrirtæki að ræða. En þó að svo væri, að hér hefði verið og væri um ríkisfyrirtæki að ræða, þá væri samt sem áður óheimilt að kjósa bankastjóra Landsbankans í stjórn fyrirtækisins, vegna þess að lög nr. 10 frá 15. apríl 1928 gera engan greinarmun á því, hvort um einkafyrirtæki eða ríkisfyrirtæki, hlutafélag eða samvinnufyrirtæki er að ræða. Og það liggur í hlutarins eðli, að það sé og verði að vera óheimilt að kjósa bankastjóra í stjórn atvinnufyrirtækis. Ég hef líka flett upp núna, á meðan fundarhlé var, umræðuparti þingtíðinda frá því að þessi lög voru til umr. og voru sett á Alþ., og þar bregður svo við, að þar hafa engar umræður, sem ég get fundið, orðið um þessa grein málsins. Það hafa allir orðið sammála um, að það kæmi ekki til mála, að bankastjóri væri í stjórn atvinnufyrirtækis, og það er augljóst, af hverju allir hljóta að vera sammála um þetta atriði. Það er vegna þess, að ef bankastjóri væri í stjórn fyrirtækis og bæri hag þess sérstaklega fyrir brjósti, þá gæti hann í fyrsta lagi mismunað viðskiptavinum bankans; það væri hætta á því. Í öðru lagi væri stórhætta á því, að ef þetta fyrirtæki stæði illa, að hann héldi ekki á fjármálum bankans gagnvart þessu fyrirtæki eins og öðrum fyrirtækjum og eins og honum bæri skylda til að gera.

Ég ætla ekki að misnota þessar fáu mínútur, sem mér hafa verið gefnar, heldur aðeins að minna á það að lokum, að annað atriðið í röksemdafærslum hæstv. forseta fyrir hans úrskurði hér áðan var það, að hann vitnaði til þess, að Jón Árnason bankastjóri hefði verið í stjórn Eimskipafélagsins, Magnús heitinn Sigurðsson hafi verið í stjórn Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda og Jón Maríasson bankastjóri væri í stjórn S. Í. F. einnig. Allt þetta er, miðað við þau lög, sem við höfum hér fyrir höndum, hrein lögbrot, og þó að þetta hafi átt sér stað og þó að lög hafi verið brotin og hvað mörgum sinnum sem þau hafa verið brotin áður fyrr, þá afsaka þau brot ekki nýtt lögbrot, engan veginn, og þess vegna mótmæli ég enn úrskurði hæstv. forseta og krefst þess enn, að nafn Vilhjálms Þórs verði strikað út af A-listanum.