02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (3298)

Kosningar

Einar Olgeirsson:

Mér skilst, að hæstv. forseti vilji víkja þessum kaleik frá sér með því að segja, að það komi undir yfirstjórn Landsbankans að úrskurða um þetta, hvort viðkomandi bankastjóri ætti þá að leggja niður bankastjórn. Ég er hræddur um, að það sé ekki gott, ef við þorum ekki að horfast í augu við að taka ákvarðanir um veigamikið atriði eins og þetta ellegar reynum að víkja því frá á þennan hátt.

Ég tók eftir því, og það sýndi mér, að undir niðri fellst hæstv. forseti á allar forsendurnar, sem settar hafa verið fram fyrir því, að bankastjóri Landsbankans megi ekki eiga þarna sæti, að hæstv. forseti tvítók, að það væri um kosningu að ræða í stjórn áburðarverksmiðju ríkisins, ekki Áburðarverksmiðjunnar h/f. Enn fremur sagði hann, að þetta fyrirtæki, sem verið væri að kjósa í, ætti ekkert skylt við einkaatvinnufyrirtæki. Og enn fremur sagði hann, þegar hann talaði um hlutafélagið: „þetta opinbera fyrirtæki ríkisins“. M. ö. o.: Hvert einasta orð, sem hæstv. forseti hefur viðhaft um áburðarverksmiðjuna, stangast algerlega á við þann skilning, sem ráðherrar Framsfl. hafa verið með yfirlýsingar um hér á Alþ. undanfarið, samrýmist hins vegar algerlega því, sem ég hef undanfarið nokkrum sinnum lagt fram frv. um, og mér þykir mjög vænt um að því leyti, að hæstv. forseti skuli rökstyðja á þennan hátt sína niðurstöðu, þó að hún sé veik.

Þá tók hann enn fremur fram, að þessir þrír menn væru kosnir til að gæta fyrirtækisins af hálfu þess opinbera. Nú er viðkomandi maður að vísu líka einkahluthafi í þessu fyrirtæki. Þetta fyrirtæki er stofnað eftir þeim almennu hlutafélagslögum af ákveðnum einstaklingum, þ. á m. Vilhjálmi Þór, og eitt af því, sem hlýtur að koma til kasta Landsbankans í sambandi við lán til Áburðarverksmiðjunnar h/f, er t. d., hvort það eigi að heimta persónulegar ábyrgðir af hluthöfum eða hlutafélagsstjórnum, eins og ákaflega oft tíðkast með hlutafélög, og það er ekki góð aðstaða fyrir Alþ. þó að það hafi mætur á einum manni og treysti honum sem fjármálamanni, að setja hann í svona aðstöðu. Þess vegna held ég, að úrskurður hæstv. forseta fari hvað skilning snertir í bága við allar yfirlýsingar ríkisstj. um áburðarverksmiðjuna hér á Alþ. og hvað niðurstöðu snertir í bága við lög.

Þetta vildi ég aðeins taka fram.