18.12.1954
Efri deild: 43. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (3314)

Þingfrestun og setning þings að nýju

forseti (GíslJ):

Þá er lokið dagskrá þessa fundar. Störfum hinnar hv. deildar er nú að verða lokið á þessu ári. Ég vil mega bera fram þá ósk, og ég veit, að ég mæli þar fyrir munn allra hv. deildarmanna, að lög þau, sem samþykkt hafa verið á þessu þingi, megi verða þjóðinni til blessunar og létti henni sporin til betri lífskjara og bjartari framtíðar. Hv. þingmönnum flyt ég þakkir fyrir góða samvinnu, prúðan og drengilegan málflutning í hvívetna og góða og samvizkusamlega fundarsókn og fundarsetu, sem allt hefur auðveldað mér fundarstjórn, svo að unun hefur verið að. Þegar leiðir skiljast nú um stund vegna jólaleyfis, vil ég óska öllum hv. þm., vinum þeirra og vandamönnum svo og starfsliði þingsins og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsæls komandi árs með þakklæti fyrir allt samstarf á því ári, sem nú er að líða. Þeim, sem nú halda heim til vina og vandamanna, óska ég góðrar heimferðar og vona, að við öll mætumst hér aftur heil, þegar þing kemur saman á ný, við áframhaldandi starf á komanda ári. Gleðileg jól.