16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

1. mál, fjárlög 1955

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 297 ásamt nokkrum öðrum hv. þm. nokkrar brtt., sem ég skal örstutt gera grein fyrir.

Það er fyrst brtt. II, sem ég flyt ásamt hv. 1. landsk. og hv. 8. þm. Reykv. Það er um, að liðurinn „íslenzkir námsmenn erlendis“ hækki úr 875 þús. upp í 1 millj. kr. Það komu frá okkur allmörgum úr stjórnarandstöðuflokkunum tillögur um nokkru meiri hækkun við 2. umr. málsins, en voru felldar. Við vildum nú freista þess, hvort ekki mundi vera hægt að fá þessa upphæð fram, þó að hærri upphæð hafi ekki fengizt. Hefur áður verið gerð svo rækileg grein fyrir því, að flestum þm. er það vel kunnugt, hver þörf íslenzkum námsmönnum er á að fá þetta fé, og ég vonast til þess, að þeir geti nú orðið við því að samþykkja þessa upphæð. — Sömuleiðis flytjum við till. um að hækka framlagið til námslánanna um 75 þús. kr.

Þá flyt ég enn fremur ásamt sömu hv. þm., 8. þm. Reykv. og 1. landsk., brtt. á sama þskj., VI, viðvíkjandi þjóðminjasafninu, að hækka það, sem fer þar til hljómplötusafns, úr 5 þús. upp í 50 þús. Það var nokkuð rætt um þetta mál við 2. umr., og var þá lögð fram till. um nokkru hærri fjárhæð, en ég vil nú mega vona, að þessi upphæð a.m.k. finni náð fyrir augum hv. þingmanna.

Þá er enn fremur till. á sama þskj., XVII, þar sem ég ásamt hv. þm. Sósfl. flyt brtt. viðvíkjandi liðnum „sumardvalarheimili“. Við fluttum þar saman till. um nokkru hærri upphæð við 2. umr. fjárlaganna, en það var ekki samþ. En ég vil vona, að þessi upphæð, 200 þús. kr., í staðinn fyrir 100 þús., geti hlotið samþykki þm., því að flestum mun vera ljóst, hver þörf er á því að geta gert börnunum mögulegt að dvelja að sumrinu í sveit og þeim þeirra á sumardvalarheimilum, sem geta ekki komið sér öðruvísi fyrir.

Enn fremur endurtökum við till. um sumardvöl fyrir húsmæður, að gera mæðrafélögum, mæðrastyrksnefndum og öðrum slíkum samtökum mögulegt að fá þar nokkra upphæð. Það hefur verið felld líka varatill. um 100 þús. kr. við 2. umr. málsins, og nú leggjum við til, að veittar séu 75 þús. Ég vil vísa til rökstuðningsins, sem ég flutti fyrir því við 2. umr., en vona, að þar sem þessi upphæð er lægri, þá geti hún nú orðið samþykkt.

Svo vildi ég segja nokkur orð viðvíkjandi till. hæstv. ríkisstj. út af launauppbótum til starfsmanna ríkisins og reyna að forma þar nokkrar brtt. Ég verð að segja það, að ég er eins og aðrir þm. sammála um, að það sé nauðsynlegt að hækka þessi laun hjá starfsmönnum ríkisins. Er það í samræmi við þá nauðsyn, sem nú er yfirleitt hjá öllum starfsmönnum og launþegum, ekki sízt þeim lágt launuðu, að fá laun sín hækkuð. Allar þessar till ríkisstjórnarinnar eru ekkert annað en viðurkenning á því, að launahækkun er óhjákvæmileg. Við höfum hvað eftir annað sagt það hér, og verkamenn og þeirra samtök hafa hvað eftir annað bent á það og búa sig undir launahækkun, og það er engum efa bundið, að það er ekkert afl til í þjóðfélaginu, sem stöðvar þá launahækkun. Það er mjög ánægjulegt, að hæstv. ríkisstj. skuli sjá, að hjá þessari launahækkun er ekki hægt að koma sér. Vonandi verður hún það viti borin, þegar kemur að einhverju leyti til hennar kasta að segja eitthvert orð um þær launahækkanir, sem verkamenn almennt koma til með að fara fram á, að hún þvælist þar ekki neitt fyrir. — En það er ekki til neins fyrir hæstv. fjmrh. að vera með neinar afsakanir, eins og hann var hérna áðan, að þetta væri ekki neitt til þess að ýta undir launahækkanir. Auðvitað er það til þess, hvort sem hann vill viðurkenna þann tilgang í því eða ekki. En hitt get ég um leið sagt, að verkalýðurinn mun auðvitað hækka sín laun, hvort sem Alþ. hækkar laun sinna starfsmanna eða ekki. Það er hins vegar alltaf ánægjulegt að sjá, að Alþ. drattast ekki aftur úr öllum öðrum.

En svo er spursmál, hvernig á að framkvæma svona launahækkun, eftir hvaða „prinsipum“ á að fara við þetta. Það er það, sem ég held að við þurfum að rannsaka dálítið nánar. Og ég vil segja það alveg hreinskilnislega, að það er nú það stutt siðan þessar till. komu fram, að ég hef ekki getað formað endanlega till., sem ég væri fyllilega ánægður með í þessum efnum, þó að ég ætli að leggja hana fram hér. Síðast þegar við hækkuðum laun starfsmanna ríkisins, þá ákváðum við á fjárlögunum, eins og menn muna, 23. gr., að laun hæst launuðu mannanna skyldu hækka um 10%, laun lægst launuðu mannanna um 17% og þeirra, sem voru þarna á milli, um 12 og um 15%. Það var ákveðið réttlætissjónarmið í þessari skiptingu. Það var sem sé það sjónarmið, að það væri verið að bæta mönnum á vissan hátt upp dýrtið. Og eins og getur að skilja, þá leggst sú dýrtíð þyngst á þá, sem eru lægst launaðir. Alþingi viðurkenndi þetta „prinsip“, að eftir þessum reglum bæri að fara, með því, hvernig ákvæði 23. gr. voru þá. Nú breytir hæstv. ríkisstj. út af þessari reglu. Hæstv. ríkisstj. leggur til, að sú grunnlaunauppbót, sem hún nú vill framkvæma til að byrja með, — ég veit, að náttúrlega kemur meira á eftir, — verði 20% á öll laun í staðinn fyrir t.d. 10% á hæstu launin. Hvað þýðir þetta? Við skulum taka 1. launaflokkinn, með laununum 15 þús. sinnum 3, þ.e. 45 þús., sem áður bættust 10% á, sem þá gilti 4500. Nú bætast þarna 20% á, þ.e. 9 þús., eða 4500 bætast við, og síðan eykst auðvitað dálítið, þegar vísitalan bætist þarna við. Það þýðir með öðrum orðum, að það er eitthvað í kringum 5 þús. kr. launahækkun, sem þeir hæst launuðu fá. Menn, sem eru í tæpum 70 þús. kr., þurfa að fá, skulum við segja, að áliti ríkisstj. a.m.k. sín 5–6 þús. á ári í viðbót, svona upp undir 500 kr. á mánuði. Þetta er máske út af fyrir sig mjög holl og góð vísbending hjá hæstv. ríkisstjórn. Það er náttúrlega alveg gefið mál, að þegar maður, sem hefur 70 þús. kr. í laun, þarf að fá sínar 500 kr. á mánuði, þá þarf maður, sem hefur 30 þús. kr. í laun, líka að fá sínar 500 kr. á mánuði. Og það mun auðvitað verkalýðurinn muna, þegar hann breytir sínum launum. Það viðurkennir náttúrlega hver einasti maður, að það er ekki orðið lifandi við 30 eða 35 þús. kr. á ári lengur, 3 þús. kr. á mánuði. En ef maðurinn, sem er í 1. launafl., hefur sínar ca. 70 þús. kr. á ári og þarf að fá sínar 5–6 þús. kr. í launauppbót, þá þurfa hinir, sem eru í lægri launaflokkum, áreiðanlega að fá miklu meiri hækkun en ríkisstj. hérna gerir grein fyrir. Ég vil benda á, að barnakennararnir, sem eru t.d. í 6 þús. kr. launum sinnum 3, þ.e. 18 þús. kr. launum, fá á það 17% núna eða 3060 kr., mundu fá eftir till. ríkisstj. 3600 kr., að viðbættu því, sem svo vísitalan eykur þetta, eða m. ö. o.: þeir fá sínar 500–600 kr. á ári til viðbótar. Maðurinn með um 33 þús. kr. árslaun á að fá 500 kr. í uppbætur á ári, þegar maðurinn með 70 þús. kr. laun fær sín 5 þús. á ári. Og ef við tökum 14. launaflokkinn, t.d. símastúlkurnar, sem þar eru í, og fleiri, mundu þær samkv. þessu fá — eftir fljótlegum útreikningi — rúmar 400 kr. á ári eða sínar 35 kr. á mánuði. Þetta er náttúrlega engin hækkun. — Ég skal ekki fullyrða, að þetta sé alveg nákvæmlega reiknað hjá mér, en það skakkar aldrei mjög miklu, og a.m.k. gefur það nokkurn veginn rétta heildarmynd. Ef hæst launuðu mennirnir fá sín 5 þús. á ári, ef t.d. barnakennararnir og slíkir fá sínar 500–600 kr. á ári, ef símastúlkurnar fá 400 kr. á ári, þá sjá allir menn, að þetta er ranglega skipt, og ég álít, að þetta verði að lagfæra. Svona er ekki hægt að fara að.

Þá kemur spurningin: Hvernig eigum við að fara að lagfæra þetta? Nú sýnist mér, að það væri hægt að fara eftir tvenns konar reglum hvað þetta snertir. Ríkisstj. virðist segja við Alþingi: Ja, ég vil leggja til 6 millj. kr. á næsta ári í bráðabirgðauppbætur á starfslaun opinberra starfsmanna, og ég vil enn fremur bæta við af tekjuafganginum í ár 6 millj. til þeirra á launin, sem þeir hafa haft í ár. Ef maður ætlaði að halda sér við þessa upphæð og ríkisstj. færði þau rök, þegar þetta mál væri rætt hér, að hún treysti sér ekki til að hafa upphæðina meiri, þá álit ég, að spurningin, sem fyrir okkur liggi, sé: Hvernig er hægt að skipta þessari upphæð réttlátar? Og þá álit ég, að við eigum að skipta þessari upphæð þannig, þ.e. 6 millj. fyrir árið 11955 og 6 millj. fyrir árið 1954, að við ákvæðum, að 6 millj. kr. væru teknar og þeim væri skipt niður á starfsmenn ríkisins sem sérstakar uppbætur á þeirra laun eftir sömu reglum og 23. gr. mælir fyrir um, það sé haldið sömu hlutföllunum og þar eru, að hlutföllin frá 10% í 1.–3. flokki, sem hækka upp í 17% í 10.–16. flokki, séu látin ráða líka um úthlutun þessara 6 millj.

Nú verð ég að segja, að ég var í dálitlum vandræðum með, hvernig bezt skyldi orða slíka brtt. í þeim anda, sem ég nú hef verið að lýsa, þannig að það væri hægt að koma að báðum þeim „prinsipum“, sem ég get hugsað mér að hér væri farið eftir. Þess vegna datt mér í hug, að það mætti ef til vill orða þetta þannig að gera brtt. við 1. lið brtt. ríkisstj., þ.e. brtt. hennar við 19. gr., þar sem stendur, við skulum segja: Nýr liður: Til uppbóta á grunnlaun og lífeyri, áætlað 6 millj. kr. Þá datt mér í hug að orða þennan lið þannig, með leyfi hæstv. forseta: Við 19. gr. Nýr liður: Til uppbóta á grunnlaun og lífeyri, 6 millj. kr. Ekki áætlað; því er sleppt. Skal þeirri uppbót úthlutað til starfsmanna ríkisins sem uppbót á laun þeirra til viðbótar uppbótum þeim, sem 23. gr. mælir fyrir um, og í sömu hlutföllum. Fyrir árið 1954 skal svo greiða starfsmönnum ríkisins sömu upphæð og eftir sömu reglum, og greiðist hún í einu lagi. M.ö.o.: Með þessari brtt. við 19. gr. á ég við, að sama regla um mismunandi uppbætur eftir launaflokkum og nú er í 23. gr. skuli gilda um úthlutunina á þessum 6 millj. kr. Og svo framarlega sem þessi brtt. mín væri samþ. við 19. gr., þá mundi ég lita þannig á, að brtt. ríkisstj., a.m.k. a og b við 23. gr., væru fallnar; það er forsendan hjá mér. Þetta væri mín hugmynd, svo framarlega sem við ættum að miða við það, að upphæðin, sem kæmi til greina að úthluta meðal starfsmanna ríkisins sem bráðabirgðauppbót á laun þeirra, væri 6 millj. kr. fyrir árið 1955 og 6 millj. kr. fyrir árið 1954.

En nú er annar möguleiki til. Það er sá möguleiki, sem hæstv. ríkisstj. virðist vera að benda okkur á með sínum till., og til þess möguleika vildi ég þá líka taka tillit. Hæstv. ríkisstj. segir sem sé: Maðurinn, sem hefur 70 þús. kr. laun, verður að fá sínar 5 þús. eða 6 þús. eða hvað sem það nú er þar á milli. Þetta getur verið rétt. Þetta þekkir ríkisstj. Og ef við álítum, að það væri rétt og það væri óhjákvæmilegt, að þeir hæst launuðu fengju þetta, þá álít ég, að það væri a.m.k. óhjákvæmilegt að hækka þá nokkru ríflegar við hina en ríkisstj. leggur til. En þá mundi það náttúrlega lenda fram úr þeirri upphæð, sem ríkisstj. áætlar, sem sé 6 millj. kr., og ég hef nú ekki haft tækifæri til þess að reikna það út. Ef við féllumst á það „prinsip“ ríkisstj., að maðurinn, sem hefur nú 70 þús. kr. laun, verði að fá sín 5–6 þús. í viðbót, þá held ég, að það mætti ekki minna vera en ef við segðum, að þeir, sem væru í 1.–3. fl. launalaga, fengju 20%, eins og ríkisstj. álítur óhjákvæmilegt fyrir þá, þá fengju þeir, sem væru í 4: 9. fl. launalaga, 25% og þeir, sem væru í 10: 16. fl. launalaga, 30%. Ég býst við, að það mundi, t.d. á launum í 10. flokknum, raunverulega þýða, að maður með barnakennaragrunnlaununum mundi fá í staðinn fyrir þær svona 500–600 kr., sem ég býst við að hann fengi með till. ríkisstj., 2300 kr. eða eitthvað þar í kring, þ.e. með 30%. M.ö.o.: Meðan maðurinn, sem hefur 70 þús. kr. í laun, fengi 5000–6000 kr. á ári í uppbót, þá fengi maðurinn með 35–36 þús., skulum við segja, 2300 kr. í uppbót. Og ég held nú satt að segja, að það megi varla minna vera, þegar farið er að hreyfa þarna við á annað borð. Ég vil minna á í því sambandi, að hálaunamennirnir hafa fengið sömu fjölskylduuppbætur og verkamenn urðu að standa í 3 vikna verkfalli til að knýja fram handa verkamönnum. Mér finnst þess vegna, að þegar Alþ. fer nú á annað borð að leggja sitt til um launahækkanir almennt í landinu, þá megi það ekki vera með hliðsjón af því að hækka eingöngu hjá þeim, sem mest hafa, en neita svo að segja þeim, sem minnst hafa, um eiginlega nokkurn skapaðan hlut í viðbót. 400 kr. á ári er ekki stórt fyrir þá, sem hafa fyrir ekki nema milli 20 og 30 þús. kr.

Hins vegar er dálítið erfitt að forma brtt. við þessa till. ríkisstj., ef maður um leið vill hafa hliðsjón af hinu, að ríkisstj. í þessum umr. færði kannske fram einhver rök fyrir því, að það væru ekki nema þessar 6 millj., sem raunverulega mætti nú taka þarna. Þess vegna datt mér í raun og veru í hug að hafa þessa till., sem ég hef hér reynt að forma um að breyta nokkuð „skalanum“, sem eins konar varatill., þannig að fyrst væri ríkisstj. gefinn sá möguleiki, ef meiri hl. Alþ. væri sömu skoðunar og ég í þessum efnum, að úthluta þessum 6 millj. kr. hvort árið um sig réttilega. En svo framarlega sem hæstv. ríkisstj. kynni að orka því, að fellt yrði að breyta 19. gr. eins og ég legg til, þá kæmi eins konar varatill. til greina, sem hins vegar mundi þýða raunverulega meiri útgjöld úr ríkissjóði. Og hún mundi þá, þessi varatill., sem ég hef hugsað sem svo, vera líka við till. ríkisstjórnarinnar, 2. lið hennar, að a-liðurinn orðist svo:

Fyrir orðin „Á árinu 1955.... í flokki launalaga 17%“ í 1. málsgr. kemur:. Á árinu 1955 skal greiða á laun starfsmanna ríkisins grunnlaunauppbót sem hér segir:

Á laun samkvæmt I.—III. flokki launalaga 20%. Á laun samkvæmt IV.–IX. flokki launalaga 25%. Á laun samkvæmt X.–XVl. flokki launalaga 30%.

Ég vil vekja athygli á því, að það virðist í þessum tillögum alltaf talað um 15 launaflokka hjá ríkisstj., en í gömlu launalögunum a.m.k. voru þeir 16. En það getur nú verið misskilningur hjá mér, en það er þá hægt að leiðrétta það. M.ö.o.: Höfuðatriðið er þarna, hvort við eigum að halda þeirri reglu áfram að veita mönnum nokkuð mismunandi uppbót eftir því, hve mikil og há laun þeir hafa.

Ég verð að segja, að ég álít þá reglu, sem ríkisstj. leggur til að nú sé viðhöfð, vera mjög rangláta og að Alþ. eigi ekki að samþykkja hana. Hitt skal ég gjarnan viðurkenna, að það mætti finna út betri tillögur en þessar, sem ég hef í skyndi sett saman um þetta, og væri ég reiðubúinn til þess að hafa samstarf við aðra þm., sem hefðu áhuga í þessum efnum, um að gera breytingar þarna á. Enn sem komið er, á meðan þessar umræður standa, vildi ég nú leyfa mér að leggja þó þessa till. fram sem skriflega brtt. á þessu stigi. Ég vil eindregið vonast eftir, að eins og það var ákveðið siðast, þegar hreyft var við launal., að sýna réttlæti þeim, sem verst hafa orðið úti og baggar dýrtíðarinnar, sem hæstv. ríkisstj. sjálf hefur að miklu leyti bundið, hvíla þyngst á, þá verði þeim nú einnig sýnt nokkurt réttlæti, en ekki einvörðungu hugsað um að bæta lífskjör þeirra, sem hæst hafa launin.

Svo vil ég undirstrika hitt um leið, að það er viðkunnanlegt af Alþ. að sýna nokkurt réttlæti gagnvart láglaunamönnum ríkisins og ætlast ekki alltaf til þess, að fátækustu mennirnir í þjóðfélaginu, að ófaglærðu verkamennirnir verði að heyja alla þá baráttu, sem þarf til þess að knýja fram hækkuð laun fyrir láglaunamenn ríkisins. Mér þykir það leiðinleg verkaskipting, ef Alþ. ætlar að fara að líta svo á sem það sé eingöngu þess verk að hækka hálaunamennina, en eftir skilið Alþýðusambandinu og verkalýðssamtökunum einum að sjá um alla þá launahækkun, sem þarf að fara fram hjá öllum þeim, sem verst eru launaðir hjá því opinbera, auk þess að berjast fyrir því, eins og verkalýðssamtökin alltaf verða að gera, að hækka laun verkamannanna sjálfra.

Ég vil þess vegna eindregið vonast til þess, að það geti orðið samkomulag um einhverjar þær till. hér, sem sýni meira réttlæti í garð þeirra, sem eiga um sárast að binda, heldur en hæstv. ríkisstj. hefur sýnt í sínum tillögum.