15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (3357)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég vil aðeins herra forseti, út af ræðu hv. 8. þm. Reykv. upplýsa, að ég hygg, að það sé sannmæli, að Eimskipafélagið hafi lægri fargjöld á nauðsynjavörum en nokkur möguleiki er að fá erlend skip til þess að flytja hingað fyrir. Ég vil enn fremur upplýsa, að það liggur fyrir tiltölulega ný hluthafaskrá, sem sýnir, að hluthafar Eimskipafélagsins eru að heita má jafnmargir og þeir voru í öndverðu. Ég vil í þriðja lagi aðeins upplýsa, að Eimskip er reiðubúið að greiða skatta og hefur í raun og veru viljað taka upp samning um það, en ég hef fyrir mitt leyti talið heppilegra, að það yrði tekið til athugunar í sambandi við heildarlöggjöf um þetta.

Ég vil svo óska þessum tveim þm., sem hér hafa talað, til hamingju með þeirra ræður. Þær eru rétt lýsing á mönnunum. Annað var málefnaræða. Hitt var vaðall og lítið annað. Ég skal svo koma þeim skilaboðum til framkvæmdastjóra Eimskipafélagsins frá formanni kommúnistafl., að hann sé vesalingur, sem sé tuktaður af sér meiri mönnum og hafður eins og leiksoppur. (Gripið fram í.) Já, ég hugsa, að hv. þm. vilji reyna að skafa þetta af sér, en ummælin munu verða flutt fyrir því.