08.03.1955
Neðri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í D-deild Alþingistíðinda. (3358)

158. mál, aðbúnaður fanga í Reykjavík

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég tel virðingarverðan þann vilja til umbóta, sem kemur fram í þeirri till., sem hér er flutt, og vil þakka hv. flm. fyrir þann góða hug, sem mér virtist lýsa sér í hans ummælum. Hins vegar kom það fram, sem ekki er að furða, að hann er ekki til hlítar kunnugur þessum efnum og hefur ekki gert sér grein fyrir, að þetta vandamál hefur verið til umræðu og ákvörðunar hér á Alþ. áður. En hv. þm. hefur nýlega tekið sæti hér, og er þess vegna ekki við því að búast, að hann sé sérstaklega kunnugur því, sem hér hefur gerzt. En eins og hann sagði, þá er það viðurkennt af öllum, að aðbúnaður fanga hér í Reykjavík er með öllu óviðunandi, og raunar einnig það sem hann og viðurkenndi, að aðbúnaður sjálfrar lögreglunnar í hennar starfi er með öllu óviðunandi.

Af þessum sökum beitti ég mér fyrir því fyrir nokkrum árum, að teknar voru upp fjárveitingar til byggingar lögreglustöðvar hér í bænum. Við vitum, að í mörg horn er að líta um fjárveitingar, og ýmsir þm. hafa talið, að þörf væri á öðru melra en lögreglustöð hér í Reykjavík. En þrátt fyrir það fékkst 1952 í þessu skyni 250 þús., 1953 250 þús., 1954 450 þús. og 1955 850 þús. á fjárl. fyrir hvert þessara ára, þannig að með því, sem greiða á á þessu ári, eru nú fyrir hendi 1800 þús. kr. til að leggja í nýja lögreglustöð, og er það út af fyrir sig töluverð fjárhæð, þó að ekki megi vænta þess, að hún hrökkvi til þess að koma upp þeirri byggingu, sem hér er þörf á, og hvergi nærri.

Samtímis þessu hefur verið unnið að útvegun lóðar, og eftir verulega athugun hafa menn það má segja hvað eftir annað — fest augun á lóðinni fyrir sunnan Sænska frystihúsið, milli þess og Arnarhvols, og hygg ég, að samkomulag sé komið á milli lögreglustjóra og hafnarstjórnar um, að sú lóð verði látin í té undir lögreglustöð á sínum tíma. Fyrir nokkru er farið að gera frumdrætti að lögreglustöð á þessum stað, og er þá hugsað, að sú bygging verði eins konar ferhyrningur umhverfis lóðina, þannig að autt rúm verði í miðju, og í álmunni á móti norðri eða norðaustri, þeirri, sem veit að sænska frystihúsinu, sem ef til vill verður höfð sundurlaus við aðalbygginguna, er hugsað að verði fangaklefar, þannig að þar verði komið upp viðunandi vistarverum fyrir þá fanga, sem verður að koma fyrir í sambandi við sjálfa lögreglustöðina eða til geymslu innan bæjarins. Það er ætlun okkar að byrja fyrst á þessum hluta byggingarinnar, og er að því stefnt, og til viðbótar því fé, sem búið er að safna í sjálfa lögreglustöðina, má geta þess, að til á að vera í sjóði með því fé, sem kemur í ár, milli 700 og 800 þús. kr. til fangahúsa, sem mætti þá einnig verja í þessu skyni, auk þess sem Reykjavíkurbær er skyldugur til þess samkvæmt landslögum að borga helming af byggingarkostnaði við fangahús. Og ég hygg, að það hljóti svo að vera, að nægilegt fé ætti að vera fyrir hendi nú í ár til þess að hefja byggingu á þeim hluta lögreglustöðvar, sem yrði fyrst og fremst fangageymsla. Hins vegar er það ekki alveg öruggt, að fjárfestingarleyfi fáist til slíkrar byggingar; sennilega mundi það þó verða komið undir ákvörðun sjálfrar ríkisstj., áður en yfir lyki, og er það nokkuð háð spurningunni um vinnuafl og möguleika til heildarframkvæmda í landinu og þá sérstaklega hér í Reykjavík. En þess er ekki að dyljast, að uppi er sú skoðun innan ríkisstj., að skynsamlegt sé að geyma byggingu þeirra opinberra bygginga, sem hægt er að geyma, meðan jafnmikil eftirspurn er eftir vinnuafli og nú, til þess tíma, að frekar séu líkur til atvinnuleysis, þannig að hægt sé að jafna með opinberum fjárframlögum þann öldugang í atvinnulífinu, sem við allir þekkjum að á sér stað.

En það er óhætt að segja, að ef ekki verða önnur sjónarmið eða önnur atriði, sem hindra vilja og ætlun dómsmálastjórnarinnar í þessum efnum, þá er fyrirhugað að hefja byggingu á þessum hluta lögreglustöðvarinnar nú í sumar. Ég hef þennan fyrirvara á, vegna þess að ekki er víst, að öll atvik leyfi, að svo verði fram haldið sem okkar vilji stendur til. En bæði vilji og ákvörðun eru um þetta og búið að undirbúa málið allrækilega, þannig að mögulegt ætti að vera að hefjast handa.

Mér þykir einnig rétt að láta hv. þd. heyra hér skýrslu um þessi efni, sem lögreglustjórinn í Reykjavík hefur gefið mér og er dagsett 1. marz s.l., og leyfi ég mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hana hér upp:

„Fangageymslan í kjallara lögreglustöðvarinnar var byggð árið 1941. Aðstæður hafa verið þar slæmar frá upphafi, bæði hvað snertir stærð og aðbúnað. Á undanförnum árum hefur húsnæðið þó verið endurbætt mikið, og verður naumast betur gert í þeim efnum, miðað við aðstæður. Nýtt loftræstingarkerfi hefur verið sett í fangageymsluna, klefar og gangar málaðir, loftræstingargrindur endursmíðaðar og gluggar með óbrjótanlegu gleri settir í klefahurðir til þess að forða slysum o. s. frv. Hins vegar verður aldrei unnt að bæta úr ýmsum ágöllum fangageymslunnar, meðan hún er í núverandi húsakynnum. Á það sérstaklega við um stærð klefanna. Í fangageymslunni eru 10 klefar, en samkvæmt reynslu undanfarinna ára er það allt of lítið. Oft þarf að sleppa föngum úr haldi fyrr en efni standa til vegna annarra, sem enn nauðsynlegra er að setja í öryggisvörzlu. Auk þess verður lögreglan einatt að sleppa mörgum, sem eðlilegt væri að hafa í haldi um stundarsakir. Torveldar þetta mjög löggæzlu í bænum, einkum að kvöld- og næturlagi. Af framangreindum ástæðum hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að fá leiguhúsnæði fyrir fangageymslu til skjótra úrbóta. Hefur verið leitað til ýmissa aðila um fyrirgreiðslu í þessum efnum, en umráðamenn húsnæðis hafa ávallt synjað um leigu, er upplýst hefur verið, til hvers ætti að nota það.

Nýbygging fangageymslu mun því verða eina leiðin til úrbóta. Húsameistari ríkisins vinnur nú að tillöguuppdráttum að nýrri lögreglustöð hér í bænum. Er henni ætlaður staður á rúmgóðri lóð við Kalkofnsveg og Sölvhólsgötu. Sótt hefur verið um fjárfestingarleyfi til þess að hefja byggingarframkvæmdir á þessu ári. Í sambandi við hina nýju lögreglustöð er fyrirhuguð fangageymsla með því sniði, að fullnægt er til hins ýtrasta nútímakröfum um aðbúnað þeirra, sem þar þurfa að dvelja. Tillöguuppdrættirnir eru miðaðir við, að hægt sé að byggja lögreglustöðina í áföngum. Tel ég rétt að leggja áherzlu á, að sá hluti byggingarinnar, sem fangageymslan er í, gangi fyrir, þannig að unnt sé að hætta notkun núverandi fangageymslu hið fyrsta.

Vænti ég þess, að unnt verði að byrja á byggingu lögreglustöðvarinnar á þessu ári. en áframhaldandi framkvæmdir munu að sjálfsögðu markast af vilja og getu fjárveitingavaldsins til fjárframlaga.

Í sambandi við fangelsismál lögreglunnar er rétt að vekja athygli á vistheimili því fyrir ofdrykkjumenn, sem stofnað var að Gunnarsholti á miðju s.l. ári. Vistheimili þetta hefur gefið góða raun og hýsir nú nokkra menn, er áður voru tíðir gestir í fangageymslu lögreglustöðvarinnar. Vinna þeir þar nytsöm störf. Því miður er enn eigi rúm fyrir alla þá, sem slíkrar hælisvistar þarfnast, en væntanlega verður vistheimilið stækkað, áður en langt um líður.

Heilbrmrh. mun einnig hafa í undirbúningi byggingu sjúkradeildar nú þegar á þessu ári fyrir ölvað fólk til framkvæmda á 1. gr. l. nr. 55 1949, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Með byggingu slíkrar deildar svo og byggingu fangageymslu lögreglunnar verður innan tíðar vel séð fyrir hæfilegum húsakynnum fyrir þá, sem handtaka verður og setja í vörzlu um stundarsakir.“

Þetta er úr skýrslu lögreglustjórans, og tel ég, að með þessu sé sýnt fram á, að málefni þetta er nú komið svo vel á veg til framkvæmda sem efni standa til, miðað við þær fjárveitingar. sem hv. Alþ. hefur látið í té í þessu skyni. Ég tel sjálfsagt, að mál þetta verði athugað í n., og mun þá gefa þar allar frekari upplýsingar, eftir því sem farið verður fram á. Hins vegar tel ég það sýnt af því, sem ég hef sagt, að mun meira er búið að sinna þessu máli en hv. flm. virtist gera ráð fyrir, og eins tel ég ástæðulaust, að meðan ekki eru færð frekari rök fyrir því, að eitthvað, sem rannsóknarþörf sé á, gerist innan veggja lögreglustöðvarinnar, sé skipuð sérstök rannsóknarnefnd af hv. Alþ. í því skyni. Ef hv. þm. bendir annaðhvort hér í umr. eða fyrir n. á sérstakar ástæður, sem geri slíka rannsókn eðlilega, þá finnst mér sjálfsagt, að hún sé tekin upp. en til þess þarf meira en slík almenn ummæli sem hann viðhafði áðan.