31.03.1955
Efri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (3363)

176. mál, vernd barna og ungmenna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Sökum þess, hvernig meðferð þessa máls hefur orðið hér í hv. Alþ., þykir mér rétt að gera hér nokkra grein fyrir afstöðu minni til þess, eins og það er nú.

Þegar ég bar fram frv. á þskj. 14, þá bar ég það fram sem sérstakt mál, en ekki sem breyt. á l. nr. 29 9. apríl 1947, vegna þess að upp í þetta frv. mitt eru tekin atriði, sem voru óskyld þeim málum, sem þau lög fjalla um, m.a., eins og sagt er í 2. gr. frv., að taka skuli sérstaka eign, sem ríkissjóður á hluta í, þ.e. sérstakan skóla á Norðurlandi, til þess að koma þar upp vistheimili, ekki eingöngu fyrir stúlkur, heldur og gamalmenni og öryrkja, og svo enn fremur, að tryggja skuli, að til rekstrarins og við stofnkostnað verði hægt að nota það fé, sem nú er í erfðafjársjóðum og ætlað er alveg sérstaklega til að standa undir starfrækslu slíkra heimila í landinu. Mér þótti því rétt á þeim tíma að setja þetta fram sem sérstakt frv., og alveg sérstaklega með tilliti til þessara ákvæða. En nú tók þetta frv. þeim breytingum hér, eins og skýrt hefur verið frá, að þessi ákvæði voru felld í burtu úr frv. og eftir af því stóð ekki annað en að hefja skyldi þegar undirbúning undir rekstur vistheimilisins, að ríkisstj. skyldi leggja fram nauðsynlegt fé í sambandi við stofnun og rekstur heimilisins og það eins þótt það fé yrði ekki tekið upp á fjárl. þessa árs, eins og hv. frsm. réttilega tók fram, og enn fremur að ríkisstj. skyldi vera heimilt að leita eftir hentugu húsnæði og henni þá gefin sérstök heimild til þess annaðhvort að taka það húsnæði eða semja um það, og þannig afgreiddi þessi hv. d. málið í sérstöku frv., eins og sést á þskj. 259.

Þegar málið svo kemur til hv. Nd., fæst ekki samkomulag um það að hafa í frv. á þskj. 259 síðari málsliðinn, þ.e. að skylda ríkissjóð til þess að leggja fram nauðsynlegt fé í sambandi við stofnun og rekstur, þvert ofan í fyrirmæli l. frá 1947, þar sem sagt er, að það skuli aðeins gert þegar fé er til. þess veitt á fjárlögum. Það var því ekki sjáanlegt annað en að málið mundi stöðvast, ef ekki fengist samkomulag um að fella þetta ákvæði niður. N. leitaði því samkomulags við mig um þetta atriði og var fús til þess að bera fram nýtt frv., eins og hv. frsm. hefur lýst hér, sem er að öllu leyti óbreytt frá þskj. 259, nema þessi málsliður er felldur niður. En þegar málið er komið í það form, er sýnilegt, að það átti betur við að fella það inn í gildandi lög, og þess vegna var einnig samkomulag um, að það skyldi vera borið fram sem nýtt frv. um breyt. á l. nr. 29 9. apríl 1947, og er þetta út af fyrir sig allt gert í samráði við mig, heldur en að láta málið daga uppi.

Ég er því, að svo miklu leyti sem málið hefur verið afgreitt á þennan veg, þakklátur bæði hv. Nd. og hv. Ed., að málið er þó ekki alveg kæft, en harma hins vegar, hversu lítið spor hér er stigið í þessu nauðsynjamáli. Skal ég ekki efnislega fara mikið inn á það, það hefur verið skýrt hér áður. En ég lít þó svo á, að et málið er samþ. nú, eins og það liggur fyrir hér, þá sé ríkisstj. skylt að hefja undirbúning að stofnun og rekstri heimilisins á þessu ári og að það fé, sem til þess þarf að undirbúa stofnun og rekstur heimilisins á þessu ári, verði greitt úr ríkissjóði, þó að það hafi ekki verið tekið upp í fjárlög. Ég lít svo á, að þá sé að vísu þó nokkuð unnið, og ég veit, að sá hæstv. ráðh., sem fer með þetta mál, hæstv. menntmrh., hefur svo djúpan skilning á þeirri þörf, sem hér er, að hann muni gera sitt ýtrasta til þess að láta undirbúa þetta mál samkv. fyrirmælum l., ef frv. verður að lögum. Og ég lít einnig svo á, að það sé samkomulag við hæstv. fjmrh., að hann greiði þann kostnað, sem settur verður síðar á fjáraukalög, en er því samfara að undirbúa málið eins og hér er fyrir lagt í frumvarpinu.

Ég vildi láta þessi orð koma hér fram við þessa umr., og sé þessu ekki andmælt á einn eða annan hátt, þá vænti ég þess, að þetta verði gangur málsins á þessu ári. Þá verður a.m.k. stigið allverulegt spor til þess að koma þessu nauðsynjamáli áfram, og þar með vil ég einnig þakka hv. menntmn. fyrir að hafa afgreitt málið einróma svo fljótt sem raun ber vitni um.