16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

1. mál, fjárlög 1955

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Þegar fjárlfrv. var til 2. umr., hafði ég ekki tækifæri til að ræða um og skýra þær till., sem ég hafði flutt og voru á þskj. 250. Þegar til atkvgr. kom tók ég til baka fjórar af þeim till. til 3. umr. Ég hef nú leyft mér að flytja 3 af þessum till. á ný ásamt varatill. við 1. till., og eru þær á þskj. 297,VI og XII.1–2. Allar eru þessar brtt. mínar við 15. gr. fjárlfrv. Ég mun nú í stuttu máli skýra þessar till. og í hvaða tilgangi þær eru fluttar.

Fyrsta till. er við 15. gr., bókasafn Siglufjarðar. Aðaltill.: Í staðinn fyrir 6250 kr., eins og styrkurinn til bókasafnsins er nú, komi 13 þús. kr. Sem varatill. hef ég flutt 10 þús. kr. Það ætti að vera óþarfi að vera langorður um þetta mál. Bókasafn Siglufjarðar er allmikið að vöxtum, eða yfir 11 þús. bindi. Í því er mikið af góðum og nýtum bókum og sumar þeirra eru allfágætar. Auk þess á safnið mjög merkilegt blaðasafn, sem mun vera eitt af því betra, sem hin smærri söfn hafa.

Siglufjarðarkaupstaður keypti á sínum tíma bókasafn Guðmundar Davíðssonar bónda að Hraunum í Fljótum. Þetta safn var hið merkilegasta, enda Guðmundur viðurkenndur fræðimaður og mikill bókasafnari, eins og hann átti kyn til. Bókasafni Siglufjarðar var það til hins mesta happs að geta eignazt þetta merkilega bókasafn. Má segja, að með því að fá það til Siglufjarðar hafi opnazt miklir möguleikar til fræðiiðkana þar á staðnum fram yfir það, sem áður var. Auk þessa hefur svo bókasafnið keypt ýmis minni söfn, sem áður voru í eigu einstakra manna. Þrátt fyrir mikla og sívaxandi fjárhagsörðugleika Siglufjarðarkaupstaðar hefur verið veitt til bókasafnsins á undanförnum árum um 50 þús. kr. ár hvert, sem varið hefur verið til bókakaupa, bókbands, til greiðslu húsaleigu og til að launa bókavörð, sem er á hálfum launum. Nú er svo komið fjárhag kaupstaðarins, að litlar líkur eru til þess, að hægt verði að reka safnið áfram á sama grundvelli og að undanförnu, nema til komi frekari aðstoð frá ríkinu eða öðrum aðilum.

Það ætti að vera óþarfi fyrir mig að lýsa því fyrir hv. alþm., hvers virði gott bókasafn er fyrir stað eins og Siglufjörð, sem býr við meiri einangrun stóran hluta árs en flestir aðrir kaupstaðir landsins. Ég veit, að hv. þm. skilja þetta, þó alveg sérstaklega þeir, sem búa við lík skilyrði hvað einangrun snertir og Siglufjörður. Gott bókasafn og lestur góðra bóka er andlegur aflgjafi, sem lyftir bókhneigðu fólki yfir þrautir og þjáningar hins daglega lífs, eykur traust þess og kjark til að mæta nýjum örðugleikum. Saga okkar sýnir, að eitt af mörgu, sem bjargaði máli okkar frá tortímingu á erfiðasta tímabili þjóðar vorrar, var lestur bóka, sögusagnir, rímnakveðskapur o.fl. þess háttar. Á dimmum vetrarkvöldum var þjóðinni það ómetanlegur aflgjafi, sem seint mun verða metinn að verðleikum.

Styrkur sá, sem hér er farið fram á, er sá sami sem veittur hefur verið til bókasafns Akureyrar, Ísafjarðar og Hafnarfjarðar mörg undanfarin ár. Okkur Siglfirðingum finnst, að við ættum að hafa sama rétt og sambærilegir staðir hvað þetta snertir. Sjálfsagt líta einhverjir hv. alþm. öðrum augum á þetta mál en við Siglfirðingar. Því miður hefur meiri hl. hv. fjvn. ekki séð sér fært að taka þessa till. til greina. Ég harma slíkan smásálarhátt og tel slíkt ekki vera meiri hl. n. til neins sóma.

Það, sem ég hef hér sagt um aukinn styrk til bókasafns Siglufjarðar, má líta á sem skoðun mína um önnur þau bókasöfn víðs vegar um land, sem ekki hafa orðið þeirrar hylli aðnjótandi að njóta viðunandi aðstoðar af hendi Alþingis þrátt fyrir ítrekaðar óskir og kröfur viðkomandi staða. Það hlýtur að verða krafa hinna mörgu bæja og sveitarfélaga, sem ekki hafa fundið náð fyrir augum Alþingis í þessum málum, að breytt verði um stefnu og að aukin verði stórlega frá því, sem nú er, aðstoð hins opinbera til menningarmála þeirra kaupstaða og héraða, sem verst eru á vegi stödd í þessum málum. Læt ég svo útrætt um þennan lið.

Þá hef ég enn fremur leyft mér að flytja hér við sömu grein, XXVI. tölul., leikstarfsemi á Siglufirði, að í staðinn fyrir 4 þús. kr. komi 6 þús. kr. — Enn fremur við sömu gr., 15 gr. A, XXVIII, tónlistarstarfsemi Siglufjarðar, að í staðinn fyrir 10 þús. kr. komi 20 þús. kr. Við þennan síðasta lið hefur hv. þm. Siglf. flutt brtt., að í staðinn fyrir 10 þús. kr. komi 15 þús. kr. Ég mun að sjálfsögðu greiða þeirri till. atkv., verði mín till. felld, sem ég vona að verði ekki.

Ég vil svo lítils háttar ræða um fyrri liðinn, þ.e.a.s. um leikstarfsemina á Siglufirði.

Á Siglufirði eru starfandi tvö leikfélög. Annað rekur stúkan Framsókn og hefur gert um mörg ár, öllum bæjarbúum til hinnar mestu ánægju og uppbyggingar. Stúkan Framsókn hefur innan sinna vébanda marga ágæta leikkrafta, sem unnið hafa öll slík störf án nokkurs endurgjalds. Hafi einhver ágóði orðið, hefur hann runnið til sjómannastofu, sem stúkan hefur rekið með styrk frá ríki og bæ. Hefur sú stofnun notið almennrar vinsældar hjá öllum þeim mörgu sjómönnum svo og öðrum þeim, sem til þekkja, enda valinkunnir sæmdarmenn, sem því fyrirtæki hafa stjórnað. Þá er og starfandi Leikfélag Siglufjarðar, sem þrátt fyrir margvislega örðugleika, aðallega fjárhagslega, hefur getið sér ágætan orðstír. Mér hefur verið tjáð af fróðum mönnum á þessu sviði, sem hafa kynnt sér leikstarfsemi í Siglufirði, að fáir staðir á landinu muni hafa meira úrval af fólki til slíkrar starfsemi en Siglfirðingar, miðað við mannfjölda. Ég skal taka það fram, að sjálfur er ég ekki dómbær á slíka hluti. Hitt veit ég, að það fólk, sem leggur á sig að æfa þrjá eða fleiri stærri eða smærri sjónleiki um veturinn án nokkurs endurgjalds, vinnur þarft verk og stuðlar að heilbrigðu skemmtanalífi, sem sízt er vanþörf á.

Styrkur sá, sem Alþingi veitti til leikstarfsemi í Siglufirði s.l. ár, var 4 þús. kr. Bæjarstjórn var falið að skipta styrknum á milli þessara tveggja aðila, svo sem bæjarstjórnin gerði. Á núverandi fjárlögum er lagt til, að veitt verði sama upphæð. Till. mín fer fram á, að þessi styrkur verði hækkaður upp í 6 þús. kr. gegn sömu skilyrðum og áður voru sett.

Ég get svo látið útrætt um þennan lið, en vænti þess, að hv. alþm. samþykki þessa till. þrátt fyrir andstöðu meiri hl. fjvn., sem hefur ekki séð sér fært að mæla með þessari lítilfjörlegu hækkun, þrátt fyrir það að n. hefur samþ. að hækka styrkinn til Leikfélags Akureyrar um 10 þús. kr., eða upp í 25 þús. kr., sem ég út af fyrir sig get vel samþykkt og tel að Leikfélag Akureyrar sé vel að komið.

Þá vil ég að nokkru koma inn á liðinn um hækkun styrks til tónlistarskóla Siglufjarðar. Um nokkur undanfarin ár hefur karlakórinn Vísir, sem er allþekktur kór og hefur sungið víðs vegar um land við ágætis orðstír, rekið tónlistarskóla með styrk frá ríki og bæ. Þessi skóli hefur átt því láni að fagna að hafa hina ágætustu kennara. Núverandi skólastjóri tónlistarskólans er ungur maður, Haukur Guðlaugsson, sem að allra dómi, sem til þekkja og eru þar um dómbærir, er talinn mjög efnilegur tónlistarmaður. Í skólanum í vetur eru um 35 nemendur. Í skólanum eru kennd tónlistarfræði, píanóleikur, organleikur o.fl. Jafnhliða því sem hann er skólastjóri tónlistarskólans er hann stjórnandi karlakórsins Vísis. Nú liggur í hlutarins eðli, að það mun vera allmiklum örðugleikum bundið að reka slíkan skóla vegna fjárhagsörðugleika í bæ eins og Siglufirði, þar sem allt er á niðurleið, enda hefur skólastjórinn orðið að vinna vor, sumar og haust hvaða vinnu sem til hefur fallið. Þetta er aðeins eitt dæmi þess, hvernig við Íslendingar búum að okkar ágætu listamönnum. Ég vil meina, að því fé sé vel varið, sem fer til þess að auka söng- og músíkmennt þjóðarinnar.

Það hefur verið og er enn stolt okkar Siglfirðinga að hafa átt og eiga menn á sviði tónlistar og söngs, sem staðið hafa framarlega á því sviði. Ég leyfi mér að benda aðeins á nöfn tveggja manna. Annar þessara manna var séra Bjarni Þorsteinsson, sem vann slíkt starf á sviði tónlistar og við söfnun íslenzkra þjóðlaga, að nafn hans mun verða uppi meðan íslenzk tunga er töluð og raulað verður íslenzkt lag. Það er hollt fyrir okkur Íslendinga að minnast slíkra manna nú á tímum, þegar margt af því, sem við teljum okkar helgustu og dýrmætustu þjóðlegu verðmæti, er að víkja fyrir óskiljanlegri skrallmúsík, ef svo mætti að orði komast, sem eitrar okkar þjóðlíf meira en margan grunar. Það er nauðsynlegt að safna veraldlegum auðæfum, en við skulum minnast þess, að auðæfi án þjóðlegra verðmæta á sem flestum sviðum eru hættuleg og stefna beint að skrílmenningu.

Hinn maðurinn, sem ég vil aðeins nefna, er söngvarinn Þorsteinn Hannesson. Hann er fæddur Siglfirðingur. Þrátt fyrir hans mikla frama erlendis á sviði söngs er hann og verður Siglfirðingur. Þessi maður hefur aukið á frægð lands okkar víðs vegar um Evrópu og öllum Íslendingum til hinnar mestu ánægju.

Ég hef leyft mér að benda hv. alþm. á þessa tvo ágætu menn sem dæmi þess, að Siglfirðingar hafa lagt þjóðinni til hina ágætustu menn á sviði söngs og laga, ef það mætti verða til þess að auka skilning þeirra á því, sem hefur gerzt og er að gerast meðal þess hluta þjóðarinnar, sem býr einangraður og á margan hátt við erfiðar aðstæður til náms. Vænti ég þess, að hvað sem hv. alþm. kunna að gera við þessar till. mínar nú, verði þessi orð mín til þess, að þeir síðar meir muni frekar eftir því fólki, kröfum þess og óskum, sem byggir útskaga þessa lands.

Þessar þrjár aðalhækkunartillögur mínar nema um 20 þús. kr., og verður þar að teljast hóflega í farið og mundi ekki raska að neinu ráði fjárl., þó að þær yrðu samþykktar. Það hlýtur eitthvað annað að búa á bak við, ef hv. alþm. sjá sér ekki fært að verða við ósk minni og ég held allra Siglfirðinga um að fá þessar till. samþykktar.

Ég vil svo ræða hér um tillögu þá, sem ég flyt ásamt hv. 3. landsk. á þskj. 305, XXIV við 22. gr. um heimild fyrir ríkisstj. að veita Siglufjarðarkaupstað 4 millj. kr. framlag til uppbyggingar atvinnulífsins í kaupstaðnum, enda hafi bæjarstjórn samráð við ríkisstj. um, hvernig og til hvers fénu skuli varið. Ég sé mig alveg sérstaklega knúinn til að fara örlitið aftur í tímann, og þó að tími þm. sé dýrmætur, verð ég að eyða dálitlum tíma í að skýra þetta mál.

Þegar kom fram í ágúst í sumar, þótti það sýnt, að síldveiðarnar mundu enn einu sinni ætla að bregðast. Í byrjun veiðitímans voru sumir menn allbjartsýnir á það, að nú mundi breytt um til batnaðar, nú yrði mikil síldveiði og hagur þess fólks, sem allt átti undir síld og síldveiði, mundi stórbatna frá því, sem áður hafði verið undanfarin 9 ár. Það stóð ekki á útgerðarmönnum og síldarsaltendum að undirbúa allt sem bezt undir komandi síldarvertíð. Síldarverksmiðjurnar voru standsettar, eftir því sem með þurfti. Atvinnurekendur réðu til sín fjölda af verkafólkí, bæði á síldarstöðvarnar og í verksmiðjurnar. Verð á síldarafurðum var talið ágætt, miklir fyrirframsamningar voru gerðir um sölu saltsildar við ýmsar gamlar og nýjar viðskiptaþjóðir. Sama gilti um söluverð og sölusamninga á afurðum síldarverksmiðjanna. Strax og skipin fóru á veiðar, en það mun hafa verið snemma í júlí, varð vart við allmikla síld, og fengu sum skipin þá strax allgóða veiði. Margir síldarsaltendur fóru þá fram á við síldarútvegsnefnd, að hún leyfði þeim að salta þessa síld, þó að fitumagn hennar væri ekki það, sem tiltekið hafði verið samkvæmt gerðum sölusamningum. Fjölmargir síldarsaltendur óttuðust það, sem síðar kom á daginn, að hér væri aðeins um óverulegt síldarmagn að ræða, og byggðu þessa skoðun sína á margra ára reynslu og upplýsingum, sem þeim höfðu borizt frá reyndum og kunnum sjómönnum, sem stundað höfðu þorskveiðar um vorið fyrir Norður- og Vesturlandi. Síldarútvegsnefnd taldi sig ekki geta orðið við þessari ósk síldarsaltenda og neitaði þeim um leyfi til að salta síldina svo og um alla fyrirgreiðslu, svo sem um tunnur og salt, þar til síldin hefði náð tilskildu fitumagni. Bankarnir studdu sjónarmið síldarútvegsnefndar í málinu mjög ákveðið og munu, eftir því sem ég veit bezt, hafa neitað síldarsaltendum um nauðsynleg lán út á þá síld, sem söltuð yrði án leyfis síldarútvegsnefndar. Ég mun ekki gera mig að neinum dómara í þessari ákvörðun og deilu síldarútvegsnefndar annars vegar og síldarsaltendanna hins vegar eða framkomu bankanna í þessu máli. Að sjálfsögðu er hægt að koma með rök bæði með og móti. Hitt er staðreynd, að síldarsaltendur urðu fyrir óbætanlegu tjóni vegna neitunar síldarútvegsnefndar um að leyfa söltun strax og síldin fór að veiðast. Verkafólkið í landi, Siglufjarðarkaupstaður og aðrir þeir staðir á Norðurlandi, sem voru undir það búnir að taka á móti síldinni til söltunar, svo og sjómenn á veiðiflotanum, sem nú urðu að leggja síldina upp til bræðslu í verksmiðjunum fyrir miklu lægra verð, biðu stórkostlegt tjón vegna aðgerða nefndarinnar í þessu máli. Ég vil alveg sérstaklega að gefnu tilefni láta þetta koma hér fram. Tveir eða þrír síldarsaltendur á Siglufirði söltuðu nokkur hundruð tunnur þrátt fyrir mótmæli og hótanir síldarútvegsnefndar. Munu þeir hafa farið fram á að fá að selja þessa síld sjálfir utanlands án íhlutunar síldarútvegsnefndar, en þessu neitaði nefndin mjög eindregið. síðar, þegar séð var, að síldarútvegsnefnd gat ekki nema að litlu leyti staðið við gerða sölusamninga vegna veiðileysis, óskaði nefndin eftir því að fá keypta síldina, sem söltuð hafði verið án leyfis hennar. Hún mun hafa fengið meiri partinn af síldinni, enda reyndist síldin ágæt vara, eftir því sem mér hefur verið tjáð.

Þegar komið var fram í ágúst, var flestum ljóst, sem kunnugir voru þessum málum, að síldveiðarnar mundu enn á ný ætla gersamlega að bregðast. Voru þá uppi háværar raddir meðal sjómanna á veiðiflotanum, að tilgangslítið mundi vera að halda síldveiðunum áfram. Útgerðarmenn, síldarsaltendur og verksmiðjueigendur töldu rétt að halda áfram þann mánuð út eða þar til útséð yrði um það, hvort síldin fiskaðist eða ekki. Útkoman á þessari vertið varð, eins og öllum er kunnugt, ein hin versta, sem orðið hefur í áratugi. Seint í ágúst og byrjun september var raunverulega öll vinna búin á Siglufirði. Líka sögu var að segja frá flestum síldarplássunum á Norðurlandi.

Síldarsaltendur í Siglufirði höfðu tryggt hverri fastráðinni stúlku 1900 kr. yfir veiðitímabilið; höfðu reyndar gert það um mörg undanfarin ár. Enn fremur höfðu atvinnurekendur tryggt fastráðnum verkamönnum sínum tveggja mánaða vinnu eða sem svarar 6 þús. kr. yfir tvo mánuði. Þessa tryggingu munu síldarsaltendur og verksmiðjurnar hafa greitt þrátt fyrir mjög erfiðan fjárhag hjá mörgum saltanda.

Verkafólkið í Siglufirði sá í hendi sér, að öll von um bærilega fjárhagslega afkomu var runnin út í sandinn.

Siglufjarðarkaupstaður var á barmi gjaldþrots og gat án aðstoðar annars staðar frá litla sem enga atvinnu skaffað fyrir allan hinn stóra hóp, sem nú stóð uppi atvinnulaus og allslaus undan sumrinu. Að undanskildum togurunum voru ekki til í bænum nein fiskiskip, sem hægt væri að gera út á þorskveiðar, að undanskildum nokkrum opnum vélbátum og þrem dekkbátum frá 10–35 tonn, enda var fiskitregða þá hjá þeim, sem stunduðu þorskveiðarnar. Fyrir mikinn hluta verkafólksins í Siglufirði var því ekki um annað að gera en leita hingað suður í von um einhverja atvinnu. Tugir og jafnvel hundruð af verkafólki fóru því hingað suður í atvinnuleit. Flest af þessu fólki mun hafa komizt í sæmilega atvinnu, en að þurfa að sækja atvinnu sína til fjarlægra staða yfir mikinn hluta árs er hreint neyðarbrauð, sérstaklega fyrir fjölskyldufeður, enda er það staðreynd, að það fólk, sem býr við slíkt atvinnuástand til lengdar, getur ekki við það unað. Útkoman verður því sú, að mikill meiri hluti af því fólki, sem þannig er búið að, flytur sig búferlum, enda hafa fólksflutningar frá Siglufirði vaxið hröðum skrefum undanfarin ár.

Ekki vil ég draga í efa, að meiri hluti sá, sem nú stjórnar málefnum Siglufjarðarkaupstaðar, en það eru Sjálfstfl.-menn og framsóknarmenn, hafi haft vilja til þess að reyna að bæta úr því neyðarástandi, sem nú hafði skapazt vegna algers veiðibrests. Hins vegar fannst mörgum atvinnuleysingjanum í Siglufirði, að meiri hlutinn væri helzt til svifaseinn í málinu. Má vera, að til þess hafi legið orsakir, sem hér verða ekki raktar.

30. sept. s. 4. var haldinn fundur í bæjarstjórn Siglufjarðar. Á þeim fundi var samþ. eftirfarandi till., sem ég, með leyfi hæstv. forseta, vil lesa hér upp:

„Með tilvísun til fyrri samþykktar bæjarstjórnar Siglufjarðar og bréfs bæjarstjórnarinnar til ríkisstjórnarinnar 17. des. s.l. og loks þeirrar bitru staðreyndar, að síldveiðin fyrir Norðurlandi brást tíunda sumarið í röð, samþykkir bæjarstjórn Siglufjarðar að óska eftir því við alþm. Einar Ingimundarson og Gunnar Jóhannsson að fá samþykki Alþ. fyrir 4 millj. kr. fjárframlagi af atvinnubótafé ríkisins á næsta ári til áframhaldandi uppbyggingar atvinnulífsins í Siglufirði.

Till. var samþ. með 9 atkv., atkvæðum allra bæjarfulltrúa.

Jón Kjartansson, bæjarstjóri:

Bréf þetta barst hv. þm. Siglf. (EI) og mér nokkru síðar. Af ýmsum ástæðum töldum við ekki rétt að bera fram á Alþ. sérstakt frv. um þetta mál, en töldum hins vegar rétt að bera fram við afgreiðslu fjárl. tillögu um umbeðna aðstoð til Siglufjarðarkaupstaðar.

Nokkru síðar var Jóni Kjartanssyni bæjarstjóra ásamt fulltrúa frá Sjálfstfl. falið að ræða við hæstv. ríkisstj. um aðkallandi vandræði Siglufjarðarkaupstaðar. Þessir fulltrúar meiri hl. bæjarstjórnarinnar áttu nokkur viðtöl við ýmsa hæstv. ráðh. og þá að sjálfsögðu um þá till., sem ég las hér upp áðan. Ég vil ekkert fullyrða um árangur af þessum viðræðum. Það má vel vera, að árangurinn eigi eftir að koma í ljós, en enn þá er hann ekki sýnilegur. A.m.k. hefur atvinnuleysið meðal siglfirzkrar alþýðu aldrei verið með slíkum hörmungum sem nú, og hefur þó oft verið þar slæmt áður á því sviði.

Þessi till. um 4 millj. kr. aðstoð til uppbyggingar atvinnulífsins í Siglufirði hefur nú, eftir því sem mér er tjáð, verið afgr. í hv. fjvn. Meiri hl. n., þ.e. fulltrúar Sjálfsfl. og Framsfl., hefur ekki séð sér fært að mæla með samþykkt hennar.

Um afstöðu meiri hl. fjvn. er bezt að vera sem fáorðastur. Ég get þó ekki látið hjá líða að lýsa yfir fyllstu undrun og óánægju yfir afgreiðslu þessa máls hjá meiri hl. fjvn. ~g get ekki skilið, hvað vakir fyrir þessum hv. alþm. Ekki getur verið borið við ókunnugleika, ekki heldur, eftir því sem manni skilst, fjárhagsörðugleikum hjá ríkissjóði og ekki heldur, að ekki sé þörf fyrir fé til Siglufjarðar.

Í meiri hl. fjvn. eru m.a. hv. þm. Ak. (JR) og hv. 2. þm. Eyf. (MJ). Þessum alþm. ætti þó að vera kunnugt um, hvernig ástandið er nú á Siglufirði og hvernig það hefur verið að undanförnu, en það getur vel verið, að í meiri hl. fjvn. séu menn, sem haldnir séu einhverjum fordómum gagnvart Siglufirði og Siglfirðingum, og að þessir ágætu þm. séu á þeirri skoðun, að bezt væri, að þessi bær legðist algerlega í rúst, enda bendir margt til þess, að slíkt verði. Ef einhverjir hv. alþm. hafa slíkar skoðanir, væri það mikill greiði fyrir okkur Siglfirðinga, að þær kæmu opinberlega fram. Hitt veit ég, að hér á hv. Alþ. á Siglufjörður marga ágæta stuðningsmenn í öllum flokkum, sem í fjölmörgum málum viðvíkjandi Siglufjarðarkaupstað hafa unnið að framgangi þeirra og hafa veitt Siglufjarðarbæ hinn bezta stuðning utan þings sem á þingi.

Ég get nú látið máli mínu að mestu lokið. Ég vil þó benda enn á, að verði Siglufjarðarbæ ekki veitt stórkostleg fjárhagsleg aðstoð nú þegar, er ekkert fram undan annað en óstöðvandi flótti fólks úr bænum, og yfir bæjarfélaginu vofir fjárhagslegt hrun.

Bæjarstjóri Siglufjarðar sagði við mig og fleiri Siglfirðinga í vetur, að ef ekki fengist skjót fjárhagsleg aðstoð, sæi hann ekki, að hægt yrði að leggja á útsvör næsta ár. Svo alvarlegum augum leit bæjarstjóri þá á ástandið, og ekki hefur það batnað síðan. Þá voru þó tveir togarar í gangi frá Siglufirði, mannaðir siglfirzkum sjómönnum. Síðan þetta samtal átti sér stað, hefur það gerzt, að annar togari Siglfirðinga, togarinn Hafliði, hefur strandað. Við það misstu um 20–30 siglfirzkir sjómenn atvinnu sína í bili, auk þess allt það verkafólk, sem í landi vann að nýtingu aflans. Það vitanlega tapaði sinni atvinnu. Vonandi kemst þessi togari aftur í gang í vetur.

Þá vil ég enn fremur benda á, að undanfarna vetur hafa 50–60 manns haft atvinnu við smíði á síldartunnum frá því í janúar og fram á vor í tunnuverksmiðju ríkisins. Eftir því sem ég veit bezt, verða nú ekki í vetur smíðaðar nema í allra hæsta lagi 30 þús. tunnur í tunnuverksmiðju ríkisins, en það er meira en heimingi minni smíði en undanfarin ár. Ekki bætir það úr ástandinu.

Ég bendi hér á þessi dæmi sem enn einn rökstuðning fyrir nauðsyn þess, að hv. Alþ. samþ. till. þá, sem fyrir liggur og ég hef hér rætt um, eða þá geri aðrar þær ráðstafanir, sem að gagni mega koma. Sjálft á ríkið stórkostlegra hagsmuna að gæta á Siglufirði, m.a. vegna hinna miklu mannvirkja, sem það á þar á staðnum og munu skipta tugum, ef ekki hundruðum milljóna króna að verðmæti, miðað við núverandi verðlag.

Í þessu sambandi vil ég enn fremur benda á, að vegna beinna aðgerða ríkisvaldsins varð Siglufjarðarkaupstaður að allstórum bæ á skömmum tíma, miðað við aðra íslenzka bæi. Vegna byggingar hinna stóru síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði fjölgaði íbúum bæjarins örar en í flestum öðrum bæjum landsins, að Reykjavík einni undanskilinni. Alþ. og hæstv. ríkisstj. geta þess vegna á engan hátt skotið sér undan þeirri ábyrgð, sem á þeim hvílir í sambandi við málefni Siglufjarðarkaupstaðar.

Till. mín og hv. 3. landsk. (HV), sem borin er hér fram eftir ósk bæjarstjórnarinnar, á fyllsta rétt á sér, og vilji hv. Alþ. líta á málið hlutlaust, kynna sér allar aðstæður og það án allra fordóma, ber því að samþykkja umrædda tillögu.