16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

1. mál, fjárlög 1955

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir ummæli hv. þm. Snæf. (SÁ), sem áðan var að minna þingheim á þá litlu upphæð, sem við förum fram á til Heydalsvegar.

Ég hef orðið var við það, frá því að 2. umr. fór fram um fjárl., að hv. þm. hafa skoðað þetta mál þannig, að okkur væri kannske ekki beinlínis alvara um, að það kæmist fram á þessu þingi, en það er síður en svo. Ástæðan fyrir því, að það hefur ekki verið eins mikil þörf á að taka þetta upp á fjárl. undanfarið, er sú í fyrsta lagi, að vegirnir á Skógarströnd og út Hörðudal í Dalasýslu að vestanverðu og sunnanverðu fram Hnappadalinn hafa ekki verið það góðir, að það hafi haft nokkra þýðingu að leggja í veg yfir fjallgarðinn milli þessara byggðarlaga. En á undanförnum árum hefur þetta horft mjög til bóta, og náist góður áfangi á þessum leiðum að ári, þá fer að verða mikil þörf á að fá veg þarna yfir fjallið. Það er margsannað mál, að þessi leið er snjóléttasta leiðin, sem er yfir þennan fjallgarð, sem skilur Dali og vestanvert Snæfellsnes frá Mýrum og Borgarfirði. Auk þess er enginn vafi, að ef framleiðslugeta getur farið vaxandi í héruðunum að vestanverðu við fjallið, þá hefur þetta stórþýðingu, einkum varðandi mjólkurframleiðslu.

Þessi leið er ekki löng. Það er ekki nema um 11 km leið að ræða. Nú fyrir nokkrum dögum fóru bílar þarna yfir fjallið og voru ekki nema fjóra tíma milli bæja yfir algera vegleysu, þannig að þetta er ekki yfir nein stórklungur að fara, eins og sums staðar er verið að leggja vegi yfir nú í landi voru.

Þá vil ég með nokkrum orðum gera grein fyrir till., sem ég flyt hér ásamt hv. þm. A-Sk. (PÞ). Þessi till. er á þskj. 317, III. liður. Það er breyting við 22. gr. fjárlaga, að verja 2 millj. kr. til stuðnings frumbýlingum eftir reglum, er ríkisstj. setur, að fengnum till. Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda.

Ég hygg, að það muni vera flestum þm. kunnugt, hversu mikið vandamál það er nú, sem steðjar að sveitum landsins almennt, að fá fólk til þess að hefja þar búskap. Það hefur sýnt sig á s.l. árum, að fólki hefur ætíð farið fækkandi í sveitum landsins, og það jafnframt sýnt sig, að þm. vilja mjög mikið gera til þess að halda jafnvægi í byggð landsins. En eigi að síður hefur minna verið gert til þess að halda jafnvægi í byggð landsins. Eitt af höfuðskilyrðum þess, að jafnvægi haldist í byggð landsins, er það, að fleiri og færri býli fari ekki í auðn árlega. En eitt af því, sem gerir það að verkum, að svo erfitt er að halda við byggðinni, er það, hversu dýrt er orðið nú fyrir bændaefni að komast yfir jarðir sakir þess, hvað þær kosta mikið, ásamt því, hvað bústofninn kostar orðið mikið með öllu tilheyrandi. Það þýðir lítið nú orðið fyrir menn að fara með tvær hendur tómar og nokkrar ær og eina kú til þess að hefja búskap, eins og þeir gerðu fyrir hálfri öld og hafa síðan orðið mjög miklir mektarbændur í þessu þjóðfélagi. Slíkt þýðir ekki að segja við einn einasta ungan mann nú á tímum, og jafnvel ekki, þó að menn væru farnir að reskjast, því að tímarnir eru orðnir það breyttir, að það er allt annað sjónarmið og allt annað viðhorf, sem ræður í þessum efnum nú, heldur en réð fyrir nokkrum áratugum. Og þurfum við þó kannske ekki að fara nema einn áratug aftur í tímann til þess að finna mjög vel þessi breyttu viðhorf. Það má með sanni segja, að það er ekki byrjaður búskapur nú með neinum smáupphæðum, nokkrum þúsundum, heldur mun sannast að segja þurfa nokkur hundruð þús. til þess, að bændur geti komizt á það góðan fjárhagslegan grundvöll, að þeir þurfi ekki eftir nokkur ár að hrökklast frá búskapnum. En það hlýtur að vera höfuðskilyrði hvers þjóðfélags að búa þannig að frumbýlingunum og þeim, sem eru að hef ja atvinnu, að þeir geti stundað hana af það miklu afli, að þeir geti orðið nytjamenn í þjóðfélaginu. Og það tel ég nauðsynlegt, ef hægt er fyrir þjóðfélagið á nokkurn hátt að veita meira fjármagn til þeirra, sem vilja gerast bændur, því að nú fara ekki aðrir út í búskap en þeir, sem hafa mikinn áhuga á því og geta þar af leiðandi orðið dugandi bændur, að sýna þeim þann sóma að létta lítils háttar undir með þeim í upphafi, enda mun það vera miklu ódýrara, líka fyrir þjóðfélagið, að hjálpa bændum í fyrstu til að gerast öflugir heldur en að vera með smáhjálp síðar, sem e. t. v. hefur miklu minna gildi, ef þeir komast aldrei á þann rétta fjárhagslega grundvöll, sem þeir þurfa upphaflega að komast.

Við hv. þm. A-Sk. og ég höfum lagt til, að þessu fé, sem við teljum vonir um að fáist á þennan hátt, verði úthlutað eftir reglum, sem ríkisstj. setur að fengnum till. frá Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda. Það þarf ekki sérstaklega að kynna þessar stofnanir hérna innan hv. Alþ., því að Búnaðarfélag Íslands er meira en aldargömul stofnun, sem myndaðist á þeim tíma, er bændur landsins voru í harðri baráttu við bæði erlend og innlend öfl, sem gerðu það að verkum, að þeir áttu mjög örðugt uppdráttar í landinu, enda munu margir bændur þá hafa farið frá búum sínum og til annarra landa og fjölmargir til Vesturheims á þeim árum, í kringum 1880. Með stofnun Búnaðarfélags Íslands má segja að rísi á vissan hátt ný alda meðal bændanna í landinu, því að þá myndast fyrstu félagssamtök bændanna, sem hafa jafnan haldið þannig á málum þeirra, að síðan hefur verið mikil og ör framþróun í búskapnum alla tíð, þótt hún hafi verið langörust nú síðustu árin. Og ég geri mér vonir um, að hún eigi eftir að verða enn þá örari á næstu árum. En Búnaðarfélag Íslands hefur jafnan staðið vel á verðinum í þessum efnum. Stéttarsamband bænda er aftur á móti ungt að árum, og þótt því væri ekki af öllum vel tekið í fyrstu, þá hefur það sýnt sig, að það er ómetanlegur stuðningur fyrir bændastéttina í landinu. Þess vegna treystum við þessum stofnunum til þess að koma með till. í þessum efnum, sem allir muni vel við una og hæstv. ríkisstj. geti látið sér lynda að skapa reglur eftir. — Ég vænti svo þess, að hv. alþm. taki vel þessari tili. og sýni þeim mönnum, sem hafa áhuga á því að stuðla að gróðri landsins og giftu þess í hvívetna, að þeir rétti þessari till hjálparhönd.