16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

1. mál, fjárlög 1955

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. samþingismanni mínum að flytja hér till. við fjárlfrv., við 13. gr. Það er um brúarsmíð. Fjárframlag til brúar á Andalæk, 150 þús. kr., aðaltill., og til vara 100 þús. Og í öðru lagi til brúarsmíðar á Dalsá, 100 þús. kr.

Fyrir þessu máli var gerð grein við 2. umr. málsins, og við höfðum gert okkur vonir um, að hv. fjvn. sæi sér fært að taka þetta upp í sínar till. Það hefur ekki orðið. Ég vil ekki gera sérstaklega mikið í þetta sinn að umtalsefni þær ástæður, sem hv. n. hefur haft til þess að taka þetta ekkert til greina. En aðrar hljóta þær að hafa verið heldur en það, að ekki væri þörf á brúarsmíði á þessum stað. Þeir, sem búa vestan Andalækjar, hafa engan almennilegan veg haft og auðvitað alls ekki brú á þessum læk, sem verður stórt vatnsfall í vatnavöxtum og leysingum, ófært stundum. við 2. umr. var gerð grein fyrir því, á hverju þessir menn byggja sína afkomu. Og þeir, sem nokkuð þekkja til slíkra starfa, geta þá gert sér grein fyrir því vafalaust, hvernig það kemur við þeirra hag að koma ekki vöru sinni daglega á markað, eins og háttað er nú um mjólkurframleiðsluna. Á henni hafa þeir orðið að byggja afkomu sína um margra ára skeið, síðan fjárpestirnar herjuðu bústofninn. Nú nýlega hafa farið fram fjárskipti, og auðvitað er það, að sauðfjártala hjá þessum búendum eins og annars staðar hér á Suðurlandi er mjög lág, svo að afkoman um skeið verður að byggjast fyrst og fremst á mjólkurframleiðslunni. Það er nógu tilfinnanlegt hjá þessum mönnum, sem eiga við slíka erfiðleika að etja á meðan engin umbótin er komin. En ég ætla, að það margfaldi sárindi þeirra, þegar loks vegur er kominn, en þeir fá í engu tilliti nótið hans, sakir þess að það vantar brú á vatnsfallið, en þannig er ástatt um búendurna í Biskupstungum, fyrir vestan Andalæk. Þeir hafa ekki not af þessum vegi, sem nú er fullgerður þarna út með hlíðum, sem kallað er í Biskupstungum, fyrr en brúin kemur.

Það er skemmra á veg komið með veginn að norðanverðu við Dalsá í Hrunamannahreppi. Hann er ekki fullgerður, en þó þannig, að þeir komast með hvers konar ökutæki eftir honum.

En þá er það; eins og gerð var grein fyrir áður og ég ætla ekki mikið að fara að endurtaka, að áin er hér sá þröskuldur, sem oft og einatt verður ekki komizt yfir, og reyndar enn oftar en þó Andalækur, þó að það sé nógu illt.

Frekari rökstuðnings fyrir þessu, til viðbótar við það, sem tekið var hér fram við 2. umr. málsins, tel ég ekki þörf. Í þetta sinn get ég ekki farið í að telja fram frekari réttmæti slíkra umbóta. Ef ekkert rætist úr, gefst vonandi tækifæri til þess síðar, og gæti þá komið fleira til greina, ef viðhorfið hér í Alþ. ætlar að reynast hið sama.

Þá hef ég einnig leyft mér ásamt hv. samþingismanni mínum og hv. 2. þm. Rang. að flytja smábrtt. við 22. gr. frv., þ.e. heimildagreinina, XVII; orðin „landssambandi hestamannafélaga“ falli burt. Eins og hv. alþm. muna vafalaust, var á síðasta þingi samþ. heimild til handa ríkisstj. í 22. gr. fjárlaga, að henni heimilaðist að kaupa Eystri- og Vestri-Kirkjubæ á Rangárvöllum og leigja jarðirnar landssambandi hestamanna. Menn gerðu sér vonir um, að það keypti kynbótabú Eggerts heitins Jónssonar, sem hann hafði rekið þar um nokkurra ára skeið. Er talið, að þetta sé mjög valið kyn og mikla alúð hafi hann lagt við ræktun þessara hesta og aflað sér góðra hesta til kynbóta, svo að það voru talsverðar vonir bundnar við þetta bú.

Við, sem að flutningi málsins stóðum, og vafalaust þeir, sem samþykktu það með okkur, gerðu það í góðri trú, að hestamannafélagsskapurinn í landinu væri þess umkominn að kaupa búið og stunda búskap þar með þessar kynbótaskepnur. En reyndin hefur orðið sú, að af hálfu hestamannafélaganna hefur ekkert verið gert. Hæstv. ríkisstj. hafði þess vegna litla hvöt til þess að fara að kaupa jarðirnar, á meðan svona stóð. Nú vitum við af einum manni sérstaklega, sem er mikill hestamaður, er vel menntaður, hefur góð skilyrði til þess að láta þetta fara vel úr hendi, ef hann byrjar þetta starf á þessum stað, og hann mun ætla sér, ef hann getur fengið aðstöðu til þess, að hafa bú þarna áfram. Okkur sýnist því, að það sé rétt, að hæstv. ríkisstj. hafi heimildina áfram.

Þetta stendur nú á fjárlfrv. Hæstv. ríkisstj. hefur tekið það upp í frv. sitt upphaflega, og kann ég henni þakkir fyrir að hafa gert það. En till., eins og hún er, á ekki lengur við, því að ég veit ekki betur en það sé engin von til þess, að þessi hestamannafélagsskapur í landinu láti nokkuð að sér kveða með þetta mál. Það eina, sem ég um það veit, er, að hugur þessa manns, sem er — ég held það sé ekkert launungarmál — Stefán Jónsson búfræðikennari á Hvanneyri, stendur til þess að fá búið og stunda búskap með þetta kynbótabú þarna, og þá teldi ég vel til fallið, að hæstv. ríkisstj. hefði heimildina til þess að greiða fyrir honum með að koma þessu á stofn. Hún mundi þá leigja honum jarðirnar, eins og hugsað var til að gera, þegar gert var ráð fyrir, að hestamannafélagsskapurinn keypti það, og eru miklar líkur til, að það verði jafnvei enn meiri trygging fyrir starfsemi búsins og það nái jafnvel enn betur tilgangi sínum með því, að þessi maður fái aðstöðu til þess að reka búið þarna, heldur en félagsskapur, sem yrði þá að sjá með annarra augum svo og svo mikið af starfseminni. Sagt er, að sjálfs sé höndin hollust, og mun það ekki síður eiga við um þetta starf en annað. Ég vil því mega vænta þess, að hv. alþm. ljái atkv. sitt til þess að gera þessa breytingu, svo að hægt sé að greiða fyrir þessum manni, ef hann nær samningum um að setja á stofn bú í þessu skyni, eins og hann hefur hugsað sér. Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta frekar.

Þá hef ég ásamt hv. samþingismanni mínum flutt brtt. við 22. gr. Það er, að á eftir XVII komi nýr liður: Að kaupa af Einari Pálssyni bankaútibússtjóra á Selfossi land það, er hann á í Sölvholtstorfunni. — Á Flóaáveitusvæðinu hefur frá fyrstu tíð engin tilraun farið fram með áveituna. Var þó í upphafi vega gert ráð fyrir, að það skyldi gert. Milliþn., sem kjörin var fyrir 2 árum til þess að athuga ásigkomulag og ástand Flóaáveitunnar, víkur að því í till. sínum, að þörf væri á að koma þessu í kring. Tilraunaráð landbúnaðarins mundi hafa umsjón með slíku verki. Erindi mun nú hafa borizt frá stjórn Flóaáveitunnar um þetta efni til ríkisstj., að hún keypti þetta land og þessar áveitutilraunir færu fram á því. Þetta land er mjög vel fallið til áveitu og áveitutilrauna og liggur miðsvæðis að heita má á áveitusvæðinu. Þetta eru rúmir 100 ha og er hæfilega stórt til þessara hluta. Það er mjög svo óheppilegt, að þessi tilrannastarfsemi skuli ekki hafa farið fram. Þegar slík umbót er gerð eins og þessi, hvar sem er, þá er það mjög óviðeigandi, svo að ekki sé sterkara að orði komizt, að ekki skuli fara fram rannsókn á gæðum heysins, miðað við það, sem áður var, og hvað heyfengur kann að aukast. Þetta er eitt af þeim höfuðskilyrðum auðvitað, sem að ber að vinna við slíka umbót eins og þessa. Stjórn Flóaáveitunnar hefur ekki gert þetta, og stafar það fyrst og fremst kannske af því, að hana hefur skort fjármuni til þess að annast starfsemina, ekki fyrst og fremst til þess að kaupa blett eða fá hann, heldur til þess að annast starfsemina. Það er ekki á færi annarra manna heldur en þeirra, sem hafa sérstaka þekkingu á því viðfangsefni. Þess vegna á það bezt við, að það geri tilraunaráð landbúnaðarins; það einmitt á að vera eitt af viðfangsefnum þess og er ekki á annarra manna færi, a.m.k. ekki þeirra manna, sem eru á lausum kjala og gætu sinnt því. En þar sem slík starfsemi verður að vera af opinberri hálfu, eins og sjálfsagt er og er í öllum siðmenningarlöndum slík starfsemi sem þessi, þá fer einnig bezt á því, að ríkið eigi það land, sem starfsemin fer fram á.

Hæstv. ríkisstj. trúi ég mjög vel til þess að gera kaup á þessu landi, og það verði við því verði og með þeim skilmálum, sem sanngjarnir eru. Ég vil því vona, að hv. Alþ. sjái þörfina á þessu máli og fallist á þessa till. Sá, er á landið nú, hefur verið beðinn um að farga því ekki, svo að hægt væri að fá það í þessu skyni. Hann hefur átt þess kost að vera búinn að farga því, en hefur geymt það fyrir óskir manna þarna eystra að gefa þeim kost á því, að þessi not yrðu af landinu. Á engan hátt annan mundu þau verða eins þýðingarmikil og einmitt í þessu skyni og enn síður meiri en til þessara hluta.

Ég hef gerzt hér meðflutningsmaður að einni brtt. Hún er á þskj. 105,III. Ég veit ekki, hvort hv. 1. flm. þessarar till. á þess kost að koma hér og mæla fyrir henni. Hann er bundinn nú við skyldustörf og sagðist ekki búast við því, að hann gæti verið hér í kvöld neina stund. Bæjarstjórn Reykjavíkur mun nú, einmitt á þessari stundu, vera að ræða fjárhagsáætlun fyrir bæinn, og er á allan hátt eðlilegt, að borgarstjórinn geti þá ekki vikið sér frá. Ég vil nú vona, að hv. alþm. láti ekki þessa till. gjalda þess, þó að hv. 1. flm. gefist enginn kostur á að mæla með henni. Þetta mál er mjög þýðingarmikið. (Gripið fram í.) Ja, því miður heyrði ég ekki fyrstu orðin hjá hæstv. ráðh. (Gripið fram í.) Það er langt síðan ég vissi það, að hæstv. dómsmrh. var gamansamur, en alveg í sama hlutfalli stendur hans góðvild til góðra umbótamála, og þar tel ég mér og hv. 7. þm. Reykv. einna beztan og sterkastan stuðningsmann, og er það vel farið, að hann minnir á sína afstöðu til þessa máls.

Erlendis annast bæjarfélög eða borgir þetta starf, án þess að sá félagsskapur þurfi nokkuð verulega af mörkum að leggja til þess að halda því uppi. Hér er því þannig farið, að þessi félagsskapur hefur alveg á eigin kostnað orðið að halda starfinu uppi. Á síðasta þingi, við setningu fjárlaga fyrir árið 1954, bárum við nokkrir fram brtt. um þetta efni, og svo slysalega tókst til, að einn af stuðningsmönnum málsins var í síma, — ég held, að ég muni alveg niðurstöðuna rétt, — og þess vegna náði brtt., sem við vorum þá með, ekki fram að ganga. (Gripið fram í: Var það 1. flm.?) Nei, það er ekki hægt að koma á hendur honum sekt á því hvert sinn, sem málinu er hreyft. En það var stuðningsmaður málsins eigi að síður, og var það illa farið. Það er ekkert vafamál, að þó að þessi samtök séu ung og ekki búin að starfa lengi, þá hafa neytendur notið mjög gáðs af því, og eftir því sem starfið getur orðið fullkomnara og betra, ef meira er í það lagt, þá má vænta enn meiri árangurs. Og þetta er það þýðingarmikið, fyrst og fremst vitaskuld fyrir bæjarbúa hér, en einnig gætu aðrir líka haft gagn af þessu starfi, að mér finnst alveg sjálfsagt af hálfu þess opinbera að styrkja það. Þessi till. okkar er mjög hófleg og þótt að vísu sé í mörg horn að líta, þá ber þó ekki að setja það ofar öllu öðru. Þar verður að meta gagnið og nauðsyn þess, sem greiða skal fyrir, og þá er þetta eitt af þeim málum, sem taka það mikið til almennings, en ekki gert ráð fyrir svo miklum fjármunum, að sjálfsagt er að greiða fyrir því.

Nú hef ég ekki þessi orð fleiri, en mér hefur fallið mjög vel og það hefur létt á huga mínum mikið, að ég verð þess var, að hv. alþm. hafa mjög mikinn áhuga á þessu máli. Er ég þeim þakklátur fyrir það, og ég kvíði ekki, þegar til atlögu verður lagt um atkvgr., að þessi till. verði ekki samþ., og er það vel farið.