16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

1. mál, fjárlög 1955

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég var ekki viðlátinn, þegar hv. þm. Siglf. talaði hér á fundinum í kvöld. Hann mun hafa flutt rök sín fyrir því, þessi hv. þm., að hann taldi sér ekki fært að flytja till. þá, sem ég ásamt 3. landsk. þm. hef nú flutt á þskj. 305,VII, við 22. gr. fjárl., og okkur hafði verið falið af bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar að flytja hér á Alþingi.

Hv. 3. landsk. þm., sem er meðflm. minn að þessari till., talaði hér áðan og tók á mjög rösklegan hátt svari Siglfirðinga, og færi ég honum minar þakkir þar fyrir.

Ég mun ekki fara í neinar deilur við hv. þm. Siglf. um þetta mál, enda mun ræða hans ekki hafa gefið sérstakt tilefni til þess. Ég vil þó að gefnu tilefni upplýsa eitt eða tvö atriði nánar í sambandi við málið.

Hv. þm. Siglf. lét þess getið, að bæjarstjórn Siglufjarðar hafi skipt um skoðun í málinu. Hafi eitthvað gerzt í þá átt innan bæjarstjórnar Siglufjarðar, þá fullyrði ég, að það hafi ekki verið í þá átt að breyta um skoðun í málinu, heldur hitt, að bæjarstjórnin eða meiri hluti bæjarstjórnarinnar hafi breytt um orðalag þeirrar till., sem áður var búið að samþykkja í málinu, enda hefur ekkert það gerzt á Siglufirði, sem gæti forsvarað slíkan hringlandahátt hjá meiri hluta bæjarstjórnar Siglufjarðarkaupstaðar. Í ræðu minni hér áðan lás ég upp samþykktir bæjarstjórnarinnar frá 30. sept. s.l. Hinn 7. des. s.l. barst hv. þm. Siglf. og mér svo hljóðandi símskeyti, sem ég mun nú lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn Siglufjarðar hefur í gær samþykkt öllum atkvæðum eftirfarandi: Í framhaldi af fyrri samþykkt bæjarstjórnar varðandi 4 millj. kr. framlag til atvinnuaukningar frá ríkissjóði samþykkir bæjarstjórn að óska eftir við þingmennina Einar Ingimundarson og Gunnar Jóhannsson, að þeir flytji hið fyrsta viðaukatill. við fjárlögin um 4 millj. kr. framlag úr ríkissjóði til uppbyggingar atvinnulífsins í Siglufirði.“

Ég veit, að hv. þm. Siglf. hefur aðra skoðun á þessu máli en ég. Hann telur, að önnur leið heppilegri sé til, sem tryggi framgang málsins, og hún sé sú að ræða við hæstv. ríkisstj. um málið og fá það þannig í gegn án stuðnings frá Alþingi. Það má vel vera, að hv. þm. Siglf. takist þessi leið. En þegar þannig stendur á eins og á þessum stað, sem er Siglufjarðarkaupstaður, þar sem ekkert er fram undan annað en algert hrun og stórkostlegur flótti úr bænum hingað suður á aðra byggilegri staði nú í bili, þá vil ég og tel rétt, að slíkt mál sé rætt fyrir opnum tjöldum, þannig að hv. Alþ. fái að vita, hvernig ástandið er. Það er ekkert bundið við Siglufjarðarkaupstað frekar en aðra staði, en á öðrum stöðum væri líkt ástand eins og þarna er. Þetta er mín skoðun á málinu. Ég get svo gjarnan látið útrætt um þetta mál, nema sérstakt tækifæri gefist til frekari umræðna síðar meir.