16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

1. mál, fjárlög 1955

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það gæti nú verið ástæða til að ræða nokkuð ýmsar þær till., sem fram hafa verið lagðar af einstökum hv. þm. í sambandi við fjárlfrv. nú við 3. umr., en ég skal ekki lengja þessar umræður mikið, þótt ég hins vegar komist ekki hjá því að minnast á nokkur einstök atriði, sem hér hafa komið fram.

Það hafa ekki komið fram neinar aðfinnslur eða gagnrýni á till. fjvn. sjálfrar, eins og þær liggja hér fyrir, og þarf ég því ekki að svara neinu slíku. Hins vegar hefur af sumum hv. þm. verið að því vikið, að það hafi ekki verið gengið nógu langt um fjárveitingar til ýmissa þarfa, og eru, eins og gefur að skilja og verður auðvitað alltaf, skiptar skoðanir um það etni eftir því, hvað hver og einn telur vera mikilvægast. Hins vegar hlýtur það að vera verketni fjvn. að reyna að jafna metin, ettir því sem unnt er, og fara þar milliveg og taka sem mest tillit til allra sjónarmiða og hagsmuna. Og vitanlega, þar sem um er að ræða fjárframlög til margvíslegra þjóðnytjamála, sem hér hefur verið drepið á af ýmsum hv. þm., þá er það ekkert sérstakt ánægjuefni fyrir fjvn. að þurfa að mæla gegn samþykkt slíkra till. Hins vegar hlýtur hún út frá sinni skyldu sem ábyrgur aðili að afgreiðslu fjárlaga að neyðast til þess að leggja gegn því, að samþykktar séu stórfelldar útgjaldatill. umfram það, sem hún hefur talið mögulegt að taka inn í fjárlfrv.

Ég mun svo ekki ræða þetta mál almennt, en víkja aðeins að nokkrum atriðum, sem fram hafa komið hér.

Hæstv. menntmrh. tók það fram í ræðu sinni hér áðan, að hann liti svo á varðandi fjárveitingu til dvalarheimilis í Breiðuvík, að þar væri um áætlunarupphæð að ræða, og gerði því ráð fyrir, að það mætti búast við, að ef ekki reyndist auðið að reka heimilið fyrir þessa fjárveitingu, þá yrði að grípa til umframgreiðslu. Vitanlega getur það alltaf komið fyrir, að fjárveitingar til einstakra stofnana séu ekki nægilega rúmar og þær hafi verið skornar um of við nögl. Og ef það er ákveðið af ríkisvaldinn að halda slíkum stofnunum uppi, er auðvitað ekki um annað að ræða en greiða þá að einhverju leyti umfram til þeirra stofnana, eftir því sem viðkomandi ráðuneyti með samþykki fjmrn. teiur óumflýjanlegt. Fjvn. hafði eftir athugun málsins talið, að þetta mundi væntanlega geta nægt. Ef hins vegar svo reyndist ekki, þá verður auðvitað hæstv. ríkisstj. að meta þær aðstæður, og meðan ákveðið er af ríkisstj. og Alþingi, að stofnunin skuli starfa, þá verður náttúrlega að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að svo geti orðið.

Þá vék hæstv. ráðh. einnig að því og beindi því til fjvn., hvort hún teldi eðlilegt að hafa áfram heimild í fjárlögunum varðandi kaup á bókasafni Þorsteins M. Jónssonar, þar sem þegar hefur verið ákveðið að kaupa safnið. Þetta var upplýsing, sem ekki hafði legið fyrir fjvn. Hins vegar sé ég ekki, að það skipti neinu meginmáli, þó að þessi heimild standi þarna áfram. Efnislega hefur hún enga þýðingu til frekari skuldbindinga í þessa átt.

Í till. frá hv. minni hl. fjvn. er lagt til að ráðstafa tekjuafgangi ríkissjóðs eða greiðsluafgangi, — það er nú orðað þar „tekjuafgangi“, en væntanlega mun vera átt við greiðsluafgang, — á tiltekinn hátt. Hvort tveggja er þetta vitanlega góðra gjalda vert. En það var minnzt á það við 2. umr. málsins, að það mundi koma til kasta Alþ. að ráðstafa þeim greiðsluafgangi, þegar sýnt yrði, hver hann væri, og á þessu stigi, eftir upplýsingar þær, sem hæstv. fjmrh. hefur gefið um það, að ekki sé þegar hægt að sjá það fyrir, þá verður að teljast mjög óeðlilegt að ráðstafa greiðsluafganginum á þennan hátt, og því ætti að geyma þá ráðstöfun, þangað til málið verður lagt hér fyrir Alþ., eins og lofað hefur verið að gera. Af þeirri ástæðu verður að telja óeðlilegt að samþykkja þessa tillögu.

Hv. þm. Barð. gagnrýndi meðferð fjvn. á 18. gr. Ég gat um það í minni ræðu hér áðan, og það var vikið að því af fjvn. hálfu á síðasta þingi einnig, að það væri vandræðafyrirkomulag á þessum málum. Hins vegar er mjög erfitt fyrir fjvn. sem slíka að gera grundvallarbreytingu á þessu. Til þess þarf miklu viðtækari athugun en henni er mögulegt að láta framkvæma, og verður vitanlega að gera ráð fyrir, að þetta verði að einhverju leyti tekið upp í sambandi við endurskoðun tryggingalöggjafarinnar. Hins vegar vil ég taka það fram, að varðandi útreikning launa hjá þeim mönnum, sem ákveðið er að skuli halda fullum launum, þá hefur ekki orðið nein ný skipan á þeim málum hjá fjvn. nú. Það hefur verið fylgt um það sömu reglum og áður hafa gilt og einnig á þeim tíma, þegar hv. þm. Barð. var formaður n. Ég vil einnig upplýsa, að það mun ekki vera alls kostar rétt, að þar sem talað er um, að menn skuli halda fullum launum, þá fái þeir að auki greiðslu úr lífeyrissjóði embættismanna, heldur er það dregið frá, þannig að samtals verði launin ekki hærri en þeir hefðu hlotið sem full embættislaun, þó að tekið sé tillit til lífeyrissjóðsgreiðslunnar.

Hv. 1. þm. Eyf. ræddi nokkuð almennt um afgreiðslu fjárlaga og gat þess m.a., að hann væri ekki alls kostar ánægður með fjárveitingar til ýmissa framkvæmda í sínu kjördæmi. Ég geri ráð fyrir, að það muni nú hjá flestum hv. þm. vera eitthvað svipað, að þeir hefðu gjarnan þegið að fá meira fé, bæði ég og aðrir. En það er nú eins og gengur, að það er mjög erfitt, þegar þarfirnar eru jafnmargar, að uppfylla óskirnar, og hefur því orðið að fara þá leiðina að skerða hjá öllum, og má enda segja, að það væri mesta réttlætið, ef allir væru annaðhvort mátulega óánægðir eða þá allir ánægðir. Verra væri, ef einhver væri sérstaklega ánægður. Mætti gera ráð fyrir, að þá hefði hallazt á í réttlætinu.

Fjvn. hefur ekkert við að athuga þá brtt., sem fram var lögð af hv. 5. þm. Reykv. og nokkrum öðrum hv. þm. varðandi fyrirkomulagsatriði á vali mynda á fyrirhugaða listsýningu í Róm. Það er engin efnisbreyting á liðnum, heldur aðelns í samráði við hæstv. menntmrh. lagt til, að Alþ. sjálft ákveði nánari skipan þessara mála.

Hv. 4. landsk. þm. vék nokkuð að fjvn. og vildi jafnvel gefa í skyn, að hún hefði takmarkaðan menningaráhuga vegna afstöðu hennar til brtt. hans um aukna styrki til ýmiss konar menningarstarfsemi á Siglufirði. Ég skal ekki fara langt út í þá sálma. Ég gerði grein fyrir því í framsöguræðu minni hér áðan, að það hefði verið miklum vanda bundið að gera á þessu breytingar, nema þá að breyta mörgum liðum. Ég skal t.d. geta þess varðandi bókasöfnin, að það er 41 bókasafn, sem nýtur styrks, og ef það ætti að fara að raska því mjög og hækka einhvern aðila, þá væri erfitt að gera það án þess að hækka marga aðra. Þetta er vandræðafyrirkomulag, eins og ég einnig gat um áðan, og ástæðan til þess, að við ekki höggum við þessum fjárveitingum, er sú, að við höfum upplýsingar um það, að von sé á frv. um skipan þessara mála, bókasöfn og lestrarfélög, og er þess þá að vænta, að þessum fjármálum í sambandi við styrki til bókasafna og lestrarfélaga verði komið í fastara form, því að það er vitanlega töluvert mikið út í bláinn, hvernig þessum styrkjum er hagað nú. En það er síður en svo, að það hafi verið af andstöðu við bókasafn Siglfirðinga eða aðra aðila, að það var ekki talið fært að breyta þessu nú, heldur aðeins með hliðsjón af því, að við væntum þess, að betri skipan yrði fengin með sérstakri löggjöf, og töldum mjög erfitt, þar sem um svo marga aðila er að ræða, að fara að raska þessu varðandi örfáa af þessum aðilum.

Það er auðvitað einnig alltaf matsatriði, hvort það á að hækka styrki til einstakra leikfélaga og tónlistarskóla. Það eru þrír tónlistarskólar, sem hafa nú í frv. 10 þús. kr., og það var nokkuð erfitt um vik að fara að hækka einn þessara skóla án þess að hækka þá hina, og það eru 14 leikfélög, sem er veitt fé til, og þar af eru 10 þeirra með 3 þús. kr. Leikstarfsemi á Siglufirði hefur 4 þús. kr., og það þótti erfitt að fara að hækka þennan lið til eins kaupstaðar, meðan ekki var breyting á þessu varðandi aðra kaupstaði. Það er að vísu rétt, að það var hækkað til Leikfélags Akureyrar, og það byggðist, eins og ég áðan sagði, á sérstaklega mikilli starfsemi, sem það félag heldur nú uppi og hefur ráðizt í mjög dýra leiksýningu. En auðvitað er það alltaf álitamál, hvort á að gera slíkt eða ekki, að hækka styrki þannig hjá einstökum aðilum.

Hv. 8. landsk. þm. flutti hér áðan mjög hófsamlega ræðu fyrir till. þeirra þjóðvarnarmanna. Það er ein till. aðeins, sem þeir hafa nú lagt fram, þ.e.a.s. um fjárframlag til sementsverksmiðju, ef tekjur ríkissjóðs fara fram úr vissu marki á næsta ári, og jafnframt spurðist hann fyrir um það, af hverju andstaða hefði verið gegn till. þeim varðandi uppbyggingu atvinnulífsins, sem þeir þjóðvarnarmenn fluttu við 2. umr., og einnig óskaði hann upplýsinga um það, á hverju gæti byggzt andstaða gegn þessari till. nú. Ég gat þess við 2. umr., að það væri óeðlilegt við fjárlfrv. að fara að samþykkja sérstakar fjárveitingar til eflingar atvinnulífinu, þar sem hér lægju fyrir Alþingi nú mörg frv. um þetta efni og það mætti gera ráð fyrir því, að eitthvað af þessum frv. næði fram að ganga í einhverju formi. Og þar sem enn fremur sú till., sem þeir fluttu þá, var bundin við það, að löggjöf yrði sett á þinginu einmitt um þetta efni, þá sýnist mér það liggja nokkuð ljóst fyrir, að eðlilegast sé þá einnig, að fjárveitingin sjálf sé ákveðin í þeirri löggjöf, en ekki alveg út í bláinn í því trausti, að síðar verði sett lög til þess að ákveða um þetta efni.

Ég verð einnig að segja það varðandi till. þjóðvarnarmanna nú, að vitanlega er það allra góðra gjalda vert og nauðsynlegt að koma upp sementsverksmiðjunni og það sem skjótast, enda er það eitt af stefnumálum stjórnarinnar að afla fjár til þess að koma verksmiðjunni upp og að því hefur verið unnið. Er óeðlilegt að fara að gera sérstakar ráðstafanir til fjárveitinga í því skyni umfram það, sem sá aðili, sem er að vinna að málinu, telur nauðsynlegt að gera, og því verð ég að álíta, að af þessum sökum sé óeðlilegt að fara að gera þessa ráðstöfun nú, þar sem hæstv. ríkisstj. er að vinna að málinu, framkvæmdir eru þegar hafnar og gera má ráð fyrir, að það verði reynt að hraða þeim svo sem frekast er kostur á. Enn fremur er það að athuga við þessa till., að þar er talað um það, að ef tekjur ríkissjóðs fari fram úr vissu marki, þá skuli viss hluti af tekjuafgangi eða greiðsluafgangi ganga til þessara þarfa. Í fyrsta lagi er nú nokkuð óeðlilegt að ráðstafa fyrir fram væntanlegum greiðsluafgangi ríkissjóðs svo langt fram í tímann, eða ári fyrir fram, því að ekki sést það fyrr en í árslok á næsta ári, hver greiðsluafgangurinn verður, þannig að það mundi aldrei koma til, að það væri hægt að nota þetta fé á næsta ári. Ekki er heldur sett undir það, ef svo kynni að fara, að útgjöld ríkissjóðs færu sem þessu næmi einnig fram úr áætlun. Nú má kannske segja, að það sé ekki hætt við, að svo verði, en það er nú erfitt að spá um það löngu fyrir fram. Ég held því eftir öllum atvikum málsins, að það sýni engan sérstakan illvilja til þessara mála, þó að þingið treysti sér ekki til þess að samþykkja þessar till. eins og þær liggja fyrir.

Hv. 1. þm. Árn. (JörB) talaði hér áðan fyrir till., sem hann ásamt samþingismanni sínum flytur. Ég vil aðeins minnast á eina þessa till., það er varðandi brúargerð á Andalæk svokallaðan. Hann lét þau orð falla, að það hlytu að vera aðrar ástæður, sem fjvn. hefði fyrir því að taka ekki upp þessa brú, en þær, að ekki væri brúar þörf á þessum stað, og það er vitanlega alveg rétt. Hinu er ekki að leyna, og það veit ég að hv. 1. þm. Árn. veit eins vel og ég og miklu betur af langri þingreynslu, að það er vitanlega á sviði brúargerða eins og ýmissa annarra samgöngumála í okkar landi, að það er ekki hægt að verða við nándar nærri öllum óskum um nauðsynlegar framkvæmdir og það mjög brýnar, eins og hann lýsti, á þessu sviði, og vitanlega hefði fjvn. mjög óskað eftir að geta tekið margar fleiri brýr upp á sínar till. en hún hefur gert. En það er eins í þessu efni og öðru, að það varð að binda sig við ákveðna fjárhæð. Hins vegar má auðvitað alltaf við því búast, að einstakir hv. þm. úr hinum ýmsu kjördæmum telji, að það hefði frekar átt að gera brú hjá sér heldur en annars staðar, og það er auðvitað erfitt að finna nokkurt það lögmál, sem komi í veg fyrir, að slíkar aðfinnslurverði fram bornar. Þetta veldur nú því, að fjvn. sá ekki möguleika til þess að taka þessa brú upp, en það stafar alls ekki af því, að n. væri ekki fullkomlega ljóst, að það væri mikil nauðsyn, að þarna kæmi brú.

Hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) skaut því sérstaklega fram varðandi till. sína um 10 þús. kr. fjárveitingu til viðhalds og ljósmyndunar illa farinna handrita, hvort fjvn. hefði kynnt sér það, að ekki væri þörf þessarar fjárveitingar. Það skal játað, að fjvn. hefur ekki sérstaklega kynnt sér það á milli umræðna. Hins vegar hefur ekki legið fyrir n. nein ósk frá landsbókasafninu um fjárveitingu í þessu skyni, en það verður að ætla, að þeir menn, sem þar eru, og þar eru margir starfsmenn, hljóti að fylgjast með þessum málum. Það hefur nú raunar aldrei á því staðið frá einstökum stofnunum, að það væri farið fram á það í nokkurn veginn tæka tíð, ef talin hefur verið þörf á fjárveitingum til einhverra þarfa, og ég vil ekki heldur ætla, að það muni hafa verið af landsbókasafninu talin sérstaklega brýn nauðsyn þessarar aukafjárveitingar, úr því að ekki var fram á hana farið. Hitt er alveg rétt hjá hv. flm., að það er auðvitað mikil nauðsyn að koma í veg fyrir, að handrit eða skjöl misfarist eða slitni upp og trosni, eins og hann lýsti hér, og ber brýna nauðsyn til þess að gera ráðstafanir í því efni. En þar sem hér er ekki um stærri fjárveitingu að ræða en þetta, þá vil ég aðeins á það benda, að landsbókasafnið hefur allháa fjárveitingu til bókbands og annarra þarfa sinna, þannig að ég geri ekki ráð fyrir, að það út af fyrir sig ráði úrslitum í málinu, hvort það fær þessar 10 þús. kr. eða ekki. En hitt vill fjvn. gjarnan gera, að vekja athygli menntmrn. á þessu máli og óska eftir því, að það verði athugað, hvort þarna sé á ferðinni einhver hætta á, að dýrmæt handrit fari forgörðum, því að að sjálfsögðu verður að koma í veg fyrir það.

Hv. þm. Snæf. minntist hér á, að fjvn. hefði ekki séð sér fært að taka upp fjárveitingu til sjóvarnargarðs í Ólafsvík. Hann upplýsti raunar sjálfur, hvaða ástæður lægju þessu til grundvallar. Það er, eins og hv. þm. skilja, ákaflega erfitt fyrir fjvn. að taka upp till. um fjárveitingar til framkvæmda, þar sem ekki eru fyrir hendi fullkomnar áætlanir sérfróðra manna um það, hvaða nauðsyn þarna er umbóta eða hvað þær muni kosta. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að mér skilst, að það geti komið til mála að sé vafaatriði a.m.k., hvort þetta tilheyri ekki að einhverju leyti hafnargerðinni. Allt þetta verður að sjálfsögðu að athuga. Hins vegar er það ljóst, og ég tek undir það með hv. þm. Snæf., að vitanlega ber brýna nauðsyn til að koma í veg fyrir, að þarna verði landbrot til tjóns. Auðvitað ber ríkissjóði að styrkja framkvæmdir í því efni, eins og gert er annars staðar. En þetta er sem sagt ástæðan fyrir því, að fjvn. hefur ekki til þessa treyst sér til að leggja til ákveðin fjárframlög í þessu skyni, en ekki af því, að hún sé andvíg því, að þetta verk sé unnið.

Hv. þm. Snæf. hefur einnig lagt hér fram smávægilega brtt. um hækkun á styrk til lúðrasveitar Stykkishólms. Það er nú eina lúðrasveitin, eins og hann gat um, sem ekki fékk hækkaða fjárveitingu, og án þess að ég geti þar um talað í umboði n., þykir mér ekki ósennilegt, að slík ósk hefði mætt þar fullkomnum skilningi og samþykki, ef hún hefði legið fyrir, en það lá ekki fyrir n. ósk um að hækka þetta framlag.

Þá hefur einnig af hv. þm. Snæf. verið lögð hér fram till. um fjárveitingu til brúar á Mjósund í Helgafeilssveit. Beiðni um þetta lá fyrir fjvn. En það var samkv. upplýsingum frá vegamálaskrifstofunni talið, að það ætti að greiða kostnað við hana úr brúasjóði, og af þeim ástæðum var hún ekki tekin upp í frv. frekar en aðrar brýr, sem þannig er ástatt með.

Þá er einnig lagt til af þeim hv. þm. Snæf. og hv. þm. Dal., að 300 þús. kr. fjárveiting verði tekin upp til Heydalsvegar. Þetta mál lá einnig fyrir fjvn., og taldi n. sér ekki fært að verða við ósk um að leggja fram fé í þetta sinn til þeirra framkvæmda.

Það hafa hér orðið nokkrar umr. um till., sem flutt er af hv. 4. landsk. þm. um að veita Siglufjarðarkaupstað allt að 4 millj. kr. framlag til þess að byggja upp atvinnulíf í kaupstaðnum. Það er engum efa bundið, að þarna er við mjög mikla erfiðleika að stríða, svo sem öllum er kunnugt. Hins vegar held ég eftir atvikum málsins, að það muni reynast erfitt að fá um það samkomulag að afgreiða út af fyrir sig fjárveitingu til þessa kaupstaðar, þar sem upplýst er og hv. þm. hafa á það hlýtt úr mörgum áttum, að það væru mikil vandræði í ýmsum kaupstöðum úti á landi. Og það er vilanlega alltaf dálítið erfitt um það að segja, hvar ástandið er erfiðast, jafnvel erfitt að fullyrða um það, að það sé verra á Siglufirði en alls staðar annars staðar, þó að það vitanlega sé þar mjög slæmt af eðlilegum ástæðum. En ég hygg nú samt, að það muni reynast vænlegra til framdráttar málinn, eins og hv. þm. Siglf. vék að, að reyna að vinna að því eftir öðrum leiðum en þeim að hugsa sér, að samkomulag geti náðst um að einangra hátt fjárframlag til þessa kaupstaðar, án þess að það verði þá ákveðið um leið framlag til ýmissa annarra kaupstaða á landinu, sem við hliðstæða örðugleika eiga að stríða. Af þeim sökum hygg ég að verði erfitt að ná samkomulagi um samþykkt þessarar till., enda þótt ég sé ekki með því á minnsta hátt að gera lítið úr þeim erfiðleikum, sem Siglfirðingar eiga við að stríða.

Þá vil ég aðeins benda á till., sem borin er fram af hv. 10. landsk. þm., að heimila ríkisstj. að verja til hafnarbóta í Sandgerði 2 millj. kr. án mótframlags úr hafnarsjóði. Það er alveg rétt, að þarna er mjög mikil þörf á miklum og skjótum hafnarframkvæmdum, ekki sízt vegna útgerðar aðkomubáta þar. En það verður nú samt að teljast mjög hæpið og raunar ógerlegt að ákveða í heimildagrein fjárlaga fjárveitingu sem þá, sem þarna er gert ráð fyrir. Það mál verður að íhugast miklum mun betur og líklegt, að erfitt verði að fá samkomulag um að afgreiða þetta mál algerlega út af fyrir sig á þennan hátt, þótt þarna sé, eins og ég sagði, tvímælalaust um mjög mikla nauðsyn að ræða.

Hér á síðustu klukkustundum hafa birzt till. frá nokkrum hv. þm., þar sem um er að ræða

allmyndarleg fjárframlög til ýmissa framkvæmda, allra án efa mjög nauðsynlegra, og hv. fhn. hafa hér talað rækilega fyrir þessum till. og útskýrt, hvílík nauðsyn væri á því að fá þessar fjárveitingar, sem þar um ræðir. Ég vil nú samt láta í ljós nokkra undrun yfir því, að þessum till. skuli vera varpað hér inn á síðasta stigi málsins, þær nema samtals 5 millj. kr. Þetta eru að vísu allt heimildarliðir, en það hefur skýrt verið tekið fram af hæstv. fjmrh., að hann telji ekki möguleika á því að leggja á ríkissjóð hærri útgjöld á næsta ári en gert er ráð fyrir í frv. sjálfu og þeim till., sem meiri hl. fjvn. eða fjvn. í heild hafa flutt. Því hygg ég, að það sé nokkuð langt gengið að hugsa sér að samþ. nú, án þess að hafi gefizt kostur á að athuga það mál í fjvn. á hinn minnsta hátt, framlög, sem nema samtals 5 millj. kr. Skal ég ekki gagnrýna neitt þær röksemdir, sem fram hafa verið fluttar fyrir nauðsyn allra þessara framlaga, en ég hygg, án þess, eins og ég segi, að fjvn. hafi gefizt kostur á að rannsaka málið, að mér sé óhætt að taka fram, að n. mundi ekki telja sér fært að mæla með samþykkt þessara till. eins og öll atvik málsins eru. Það eru auðvitað ótalmargar óskir, sem bæði fjvn. og margir hv. þm. munu hafa um ýmiss konar framlög, einnig í þessu skyni, sem hér hefur verið lagt til, en ekki talið mögulegt með hliðsjón af afkomuhorfum ríkissjóðs að taka upp, enda virðist nú sem svo, að sumar af þessum till. ættu frekar heima í sérstökum lögum og nauðsyn muni vera að setja um það skýrari ákvæði, hvaða hugmyndir og hugsun menn hafi um það, hvernig eigi að verja þessu fé. Af þeim sökum tel ég á þessu stigi málsins að ekki sé möguleiki til að mæla með, að þessar till. verði samþ.

Ég endurtek það, sem ég sagði í ræðu minni áðan, að fjárlfrv. er nú þannig úr garði gert, ef gert er ráð fyrir, að brtt. fjvn., sem n. öll stendur að, verði samþ., að þá er aðeins um að ræða greiðsluafgang á sjóðsyfirliti frv., sem nemur 1 millj. kr. Hygg ég, að allir hv. þm. muni vera mér sammála um, að það sé naumast möguleiki til að afgreiða fjárlög, ef þau eiga að teljast greiðsluhallalaus, með öllu minni greiðsluafgangi en hér er gert ráð fyrir.