16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

1. mál, fjárlög 1955

Frsm. samvn. samgm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það voru fyrst og fremst örfá orð vegna fyrirspurna frá hv. þm. Barð. (GíslJ) til samvn. samgm., sem ég vildi segja. Hv. þm. spurði um það, hver afstaða n. væri til tveggja atriða, er fram komu í álitsgerð forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, sem fylgir áliti n. sem fylgiskjal.

Var fyrra atriðið varðandi till. forstjórans um skipulag flóabátaferða um norðanverðan Breiðafjörð, en hið síðara í sambandi við rekstur Faxaflóasamgangna.

Ég vil fyrst segja það, að forstjóri Skipaútgerðar ríkisins er n. fyrst og fremst til aðstoðar við öflun upplýsinga um rekstur og hag flóabátanna. Hann getur að sjálfsögðu haft sínar persónulegu skoðanir á ýmsum atriðum í sambandi við rekstur þeirra samgöngutækja, sem hér um ræðir, og samvn. þarf engan veginn að vera sammála öllu því, sem fram kemur í hans álitsgerð. Hins vegar vil ég segja það, að milli n. og forstjórans hefur, svo lengi sem ég man til, yfirleitt verið ágæt samvinna. En varðandi þessi tvö atriði, sem hv. þm. Barð. minntist á, vil ég segja þetta:

Forstjóri Skipaútgerðarinnar hefur í sínu áliti rætt um nýjar leiðir til að haga eftir ferðum um norðanverðan Breiðafjörð. Álit n. ber það með sér, að hún hefur ekki fallizt á þær till. Hún hefur tekið til greina mótmæli Flateyinga gegn því, að Stykkishólmsbátnum yrðu faldar ferðir um norðanverðan Breiðafjörð, og tekið þar með til greina þau rök, sem Flateyingar hafa flutt fyrir þessu. Á þessu stigi málsins hefur n. gert þetta. Ég skal ekkert segja um það, hvað verða kann í framtíðinni. Það má vel vera, að ástæður breytist þannig, að skynsamlegt þyki og rétt að láta eitt skip annast flóabátaferðir um allan Breiðafjörð.

Um síðara atriðið, hvernig hagað hafi verið afgreiðslu skipa hér, m.a. af hálfu h/f Skallagríms, þá hefur n. ekki tekið neina afstöðu til þess, enda snertir það nánast ekki hennar verkahring.

Ég held svo, að með þessu sé svarað fsp. hv. þm. Barð. En ég vildi aðeins leyfa mér, þegar ég hef sagt þetta fyrir hönd n., að minnast lítillega hér á eina nýframkomna brtt. Það er brtt. sú, sem hv. þm. N-Þ. og hv. þm. V-Ísf. hafa flutt á þskj. 317 um að heimila ríkisstj. að verja allt að 2 millj. kr. til að stuðla að aukningu útgerðar, þar sem afla skortir til vinnslu í fiskiðjuverum. Um þessa till. hef ég að sjálfsögðu ekkert að segja nema gott eitt. Það er alveg rétt, að það er mikil nauðsyn á því að auka útgerð víða og það skortir viða afla til vinnslu í þeim fiskiðjuverum, sem fyrir eru. En ég vil benda á í þessu sambandi, að það skortir ekki einungis skip til þess að afla aukins hráefnis víða í sjávarþorpum, heldur ekki síður fiskiðjuver til þess að vinna úr afla þeirra skipa og báta, sem þegar eru fyrir hendi á einstökum stöðum. Ég held þess vegna, að þótt þessi till. sé góðra gjalda verð, þá nái hún helzt til skammt, þar sem víða mun ekki minni nauðsyn á því að leggja rækt við þessa grein atvinnubóta, er ég nú nefndi.

En annars vildi ég segja það, að ég heiði gert ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. flytti heildartill. um það, hvernig snúizt yrði við atvinnuvandamálum og erfiðleikum einstakra byggðarlaga víðs vegar um land. Fyrir hv. Alþingi liggja nú frv. og till. um þessi efni, þar sem gert er ráð fyrir róttækum aðgerðum til þess að koma í veg fyrir stórkostlega áframhaldandi jafnvægisröskun í landinu. Ég verð að segja það, að þótt þessi till. sé góðra gjalda verð, þá nær hún þó örskammt í þá átt, sem nauðsyn er að farið verði á þessu þingi, að veita mikið fjármagn til varanlegra atvinnubóta í sjávarþorpum og kaupstöðum landsins, kaupa á togurum og fiskibátum og byggingar fiskiðjuvera. Þetta er svo stórbrotið verkefni og svo nauðsynlegt, að það verði leyst, að ég held, að við, sem styðjum núverandi hæstv. ríkisstj., verðum að treysta því, að þessu þingi ljúki ekki svo, að ekki verði stigin stór spor í þessum málum. Ég held, að ég geti sagt það, að í mínum flokki höfum við almennt gert ráð fyrir því, að þessi mál mundu verða tekin til ýtarlegrar yfirvegunar af ríkisstj., áður en þingi lýkur, og bornar fram raunhæfar till. um aðgerðir til úrbóta. Enda þótt ég taki vel öllum till., sem ganga í þá átt að snúast við þeim vanda, sem mörg byggðarlög nú eiga við að stríða, þá yrðu mér það mjög mikil vonbrigði, ef þetta yrði ef til vill það eina, sem ætti að gera til þess að snúast við þeim mikla vanda, sem heilir landshlutar standa gagnvart og varðar vissulega þjóðina í heild.

Þetta vildi ég láta fram koma nú við síðustu umr. fjárlaga; og það, að ég og ýmsir fleiri höfum ekki hafizt handa um flutning till. um þessi mál, sprettur eingöngu af því, að við höfum treyst því og treystum því enn, að hæstv. ríkisstj. hafi þessi mál öll í deiglunni og muni leggja fram um þau sínar sjálfstæðu till., áður en þingi lýkur.