16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

1. mál, fjárlög 1955

Einar Ingimundarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég sé mig knúinn til að segja hér út af því, sem hv. 3. landsk. og hv. 4. landsk. hafa sagt viðkomandi því, sem ég sagði áðan í máli mínu í sambandi við brtt., sem þeir hafa flutt á þskj. 305.

Hv. 3. landsk. sagðist ekki hafa getað skilið orð mín öðruvísi áðan, þegar ég talaði hér, heldur en ég hafi talað á móti þessari till. Þetta er reginmisskilningur hjá hv. þm., og annaðhvort hlýtur hann að hafa tekið rangt eftir þessu eða um rangtúlkun er að ræða hjá honum í þessu tilfelli. Í máli mínu hér í kvöld gerði ég aðeins grein fyrir því, hvers vegna ég hefði ekkí flutt till. þá, sem hv. 4. landsk. og hv. 3. landsk. flytja á þskj. 305 um stórfellda og þarfa aðstoð við uppbyggingu atvinnulífsins á Siglufirði.

Hv. 4. landsk. gat þess í framsögu sinni hér fyrir þessari till., að bæjarstjórn Siglufjarðar hefði á sínum tíma gert samþykkt um að fela okkur að flytja till. þess efnis, sem hv. 4. landsk. nú hefur gert. En hv. þm. gat þess ekki í sinni ræðu, að bæjarstjórn Siglufjarðar hefur síðan breytt þessari samþykkt sinni, þannig að hún leggur það algerlega á okkar vald, hvernig við vinnum að framgangi þessa máls. Ég taldi alveg nauðsynlegt að geta um það í máli mínu hér í kvöld, hvers vegna það væri, að ég flytti ekki einnig þessa till., þar sem annars hefði litið þannig út, að ég hefði skorazt undan að flytja þessa till., sem bæjarstjórnin hafði falíð okkur að gera. En eins og hv. 4. landsk. mun vera kunnugt um, - það er slæmt, að hann skuli ekki vera hér viðstaddur, — er fjarri því, að ég hafi nokkru sinni skorazt undan að flytja þessa till., þó að ég teldi aðra leið vænlegri til árangurs en að koma með slíka till. inn í þingið. Það, sem skilur því á milli hjá okkur hv. 4. landsk., er aðeins það, að ég tel heppilegra og vænlegra til árangurs, að að þessu máli verði unnið beint við ríkisstjórnina, en hann telur vænlegra að flytja till. um þetta nú við afgreiðslu fjárlaganna. Og ég vil alveg sérstaklega geta þess, að ég undirstrika allt, sem hv. 4. landsk. tók fram í sinni framsögu fyrir till., og eins og ég gat um í máli mínu áðan, þá mun ég greiða þessari till. hans og hv. 3. landsk. atkvæði og öllum öðrum till. hv. 4. landsk., sem varða Siglufjörð.