18.10.1954
Neðri deild: 5. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

38. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þetta frv. er staðfesting á brbl., sem voru gefin út 18. sept. s.l., og fjallar um það að heimila ríkisstj. fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast lán að upphæð 5 millj. 250 þús., sem stjórn hlutatryggingasjóðs tekur fyrir hönd síldveiðideildar hjá hinni almennu fiskideild, og einnig að ákveða, að ríkissjóður greiði vexti af þessu láni.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að afkoman á síldveiðum var í ár mjög léleg og jafnvel lélegri en nokkru sinni fyrr. Þegar vertíðinni lauk, höfðu a.m.k. fæst skip, svo að ekki sé sterkara að kveðið, aflað fyrir kostnaði, og aðeins örfáir útgerðarmenn voru bærir um að greiða sjómönnunum þær kvaðir, sem á útgerðinni hvíldu, þ.e.a.s. þá tryggingarupphæð, sem sjómenn áttu kröfu á. Afleiðingin af því varð sú, að skömmu eftir að vertíðinni lauk var það augljóst mál, að ef ekki yrðu gerðar sérstakar ráðstafanir, mundu sjómenn neyðast til þess að afhenda kröfur sínar málfærslumönnum og málfærslumenn síðan að ganga að þeim veðum í skipunum, sem lög heimila varðandi slíkar kaupkröfur sjómanna. Ef ekkert hefði verið aðhafzt, hefði að sjálfsögðu af þessu leitt mjög mikil vandkvæði fyrir sjómenn og án efa líka mikið fjárhagslegt tjón, ekki eingöngu fyrir sjómennina, heldur líka fyrir útvegsmennina.

Nú er það svo, að áður en vertíð hófst, hafði meðalveiðimagn fyrir vertíðina verið ákveðið af herpinótaskipum 5149 mál, og af hringnótaskipum 2878 mál. En meðalveiðin varð af herpinótaskipum 1852 mál, eða 36% af áætluðu magni, og fyrir hringnótaskipin var meðalveiðin 1280 mál, eða 44.4% af ákveðnu meðalveiðimagni. Ég get þess hér til skýringar, þótt þess þurfi naumlega, að samkv. lögum nr. 48 1949 og reglugerð nr. 195 1951 er svo ákveðið, að stjórn hlutatryggingasjóðsins geri uppástungur að meðalveiðimagninu, og það er miðað við vissar reglur og byggist á aflabrögðum undanfarinna ára. Þessar uppástungur- sjóðsstjórnarinnar eru svo bornar andir L.Í.Ú., Alþýðusambandið og stjórn Fiskifélags Íslands, og að fengnum umsögnum þessara aðila kveður að lokum sjútvmrh. endanlega á um, hvað skuli gilda í þessum efnum. Og eins og ég sagði, þá urðu þetta niðurstöður ársins í ár um meðalaflamagnið, og reyndin sýndi, eins og ég gat um, að varðandi herpinótaskipin aflaðist 36% af því, sem var talið meðalaflamagn, og varðandi hringnótaskipin 44.4%.

Eins og ég skýrði frá, horfði beint til vandræða, nema gerðar væru sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja hlutatryggingasjóðnum eða síldardeild hans það fjármagn, sem þurfti til þess að uppfylla þær kvaðir, sem að lögum á honum hvíla, þ.e.a.s. þó með þeim fyrirvara, að deildin sé bær um að inna af hendi þær skyldur, sem lögin gera ráð fyrir. Og það er rétt, að það sé játað, að handbært fé síldveiðideildarinnar var ekki nema ein millj. kr., en kröfurnar, sem voru taldar hvíla á henni, voru 61/4 úr milljón, þannig að það þurfti að útvega þessari deild 51/4 millj. kr., til þess að hún gæti risið undir kröfunum, sem á henni hvíldu að lögum, með fyrirvaranum, sem ég gat um, að hún væri bær um að rísa undir því. Ég hygg, að það sé réttur skilningur, að deildin hefði ekki haft skyldu í þrengsta lagalegum skilningi til þess að inna þessar greiðslur af höndum, en samkv. anda laganna var það skylda þeirra, sem hafa forustu þessara mála, að láta einskis ófreistað til að afla deildinni þessa fjármagns, þannig að sjómenn gætu fengið sínar kröfur greiddar og útgerðarmönnum yrði forðað frá þeim voða, sem af því hefði leitt fyrir þá og reyndar atvinnulífið í heild, ef meginþorri veiðiskipanna hefði átt að fara undir hamarinn. Eftir uppástungum stjórnar hlutatryggingasjóðsins í samráði við skrifstofustjórann í atvmrn., Gunnlaug Briem, var svo hnigið að því ráði að afla þessa fjár á þann hátt, að síldveiðideildin tæki lán hjá hinni almennu fiskideild, í fyrsta lagi af stofnfé almennu deildarinnar 2.5 milljónir, í öðru lagi af handbæru fé almennu deildarinnar 1.5 millj., og í þriðja lagi fyrirframgreiðsla ríkissjóðs af innheimtu fé árið 1954, 1 millj. 250 þús., eða 11/4 milljón. Alls nam þá þetta, að viðbættri þeirri einu milljón, sem til var í síldveiðideildinni, 61/4 millj. kr.

Það er þetta, sem þessi brbl. fjalla um, og ég hygg, að hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að til slíkra óyndisúrræða sá gripið, þá játi menn þó, að þessi kostur var vænstur þeirra, sem fyrir hendi voru, og að hvorki stjórn hlutatryggingasjóðsins né aðrir, sem um málið hafa fjallað, og þar með talin ríkisstjórnin, verði talin ámælisverð fyrir þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, heldur verði þvert á móti viðurkennt, að með þessum hætti gerði ríkisstj. það eina, sem hægt var að gera til þess að koma í veg fyrir þann voða, sem hvað þetta varðar leiddi af hinu mikla aflaleysi á síldveiðunum á síðustu vertíð. Ég vona þess vegna, að hv. Alþingi staðfesti þessi bráðabirgðalög, og vil leyfa mér að mælast til, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. sjávarútvegsnefndar.