18.11.1954
Efri deild: 19. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

95. mál, almannatryggingar

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það voru aðeins tvö atriði, sem ég vildi minnast á, áður en málið fer til n., og biðja n. að athuga þau. Annað atriðið er það, að ég vildi gjarnan athuga, hvort mætti ekki breyta þessu um trygginganefndirnar, sem um getur í 4. gr. þessa frv. og 11. gr. laganna. Þessi trygginganefnd er þung í vöfum, og ég tel ekki, að hún geri mikið gagn, og vil jafnvel segja, að hún geri ekkert gagn. Ég veit ekki, hvaða fyrirkomulag væri bezt að hafa á þessu, en mér hefur nú dottið í hug, hvort það væri ekki rétt að láta prestana athuga þetta, koma í stað nefndanna að einhverju leyti. Ég segi það vegna þess, að ég hef dálitla reynslu fyrir því úr Austur-Skaftafellssýslu, að hinu látni prófastur gegndi þessu starfi fyrir trygginganefnd þar allan tímann, sem hann lifði, og af hinni mestu prýði. Ég hygg þess vegna, að það gæti verið athugandi, hvort ætti ekki einhvern veginn að koma sömu skipan á annars staðar.

Hitt atriðið var í sambandi við þýzkar konur, sem eru giftar íslenzkum ríkisborgurum. Alþingi sýndi nú það frjálslyndi síðast að synja þessum konum um íslenzkan ríkisborgararétt. Ég hygg, að þessar konur séu nú alveg réttlausar gagnvart tryggingunum, fái engar bætur þaðan, ekki fæðingarstyrk eða neinar aðrar bætur, og ef Alþingi ætlar að halda áfram að synja þessum konum um ríkisborgararétt þangað til einhvern tíma eftir svo og svo mörg ár, þá hygg ég, að það væri rétt að veita þeim þó einhver réttindi í þessum lögum.

Þetta vildi ég að n., sem um þetta fjallar, vildi einnig athuga.