18.11.1954
Efri deild: 19. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

95. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. félmrh. tók fram, þá er í raun og veru hér ekki að ræða um neinar verulegar breytingar á lögunum, heldur yfirleitt framlengingu á gildandi ákvæðum, vegna þess að ýmis þýðingarmikil atriði laganna eiga að óbreyttu að falla úr gildi við lok þessa árs og nauðsyn bar til að framlengja þau, meðan endurskoðuninni ekki væri lokið.

Að því er fjárhag trygginganna snertir, þá vil ég bæta því við það, sem hæstv. ráðherra sagði, að það er útlit fyrir, að tekjuhalli trygginganna á næsta ári verði í kringum 8 millj. kr., sem stafar að mestu af því, hversu gífurleg fjölgun er á elztu og yngstu árgöngunum, ef svo mætti segja. Barnsfæðingum hefur fjölgað úr 2400–2500 á ári, sem var 1930–1940, upp í það núna síðast að vera 4350 á ári, og fjölgun gamalmennanna er einnig stórmikil.

Nefndin hafði talað um þá leið til að jafna tekjuhallann 1955 að gera ríkissjóði að greiða aukaframlag, 6.5 millj. kr., og taldi eftir þeim útreikningum, sem fyrir lágu, að þá mundi framlag ríkissjóðs til trygginganna frá 1946–53 nema réttum þriðjungi af heildarkostnaðinum, eins og gert var ráð fyrir í upphafi. Enn fremur hafði n. um það rætt nokkuð að hækka framlag atvinnurekenda um 15%. Það, sem þeir hafa lagt til trygginganna, er talsvert mikið undir þeim fjórða hluta, sem upphaflega hefur verið gert ráð fyrir. Frá því var þó horfið í n. að hreyfa nokkuð við iðgjaldagreiðslum að þessu sinni í trausti þess, að endurskoðuninni yrði lokið og nýr grundvöllur undir þessu lagður ekki síðar en á þingi 1955, og tek ég í þessu sambandi undir ummæli hæstv. ráðh. um nauðsynina á að hækka þá aukafjárveitingu, sem lagt er til nú í fjárlögum að verði veitt til trygginganna.

Viðvíkjandi þeim atriðum, sem hv. þm. V-Sk. henti á, vildi ég segja þetta: Skipun trygginganefnda var einmitt eitt af þeim atriðum, sem sérstaklega hefur verið leitað álits sveitarstjórna, héraðsstjórna og ég ætla sýslunefnda líka um, og það hafa ýmsar till. komið um breytingar á þessu atriði, sem að sjálfsögðu voru athugaðar hjá mþn. Ég get ekki fallizt á, að eins og skipunin á þeim málum er nú, þá sé það svo sérstaklega þungt í vöfum, því að sýslunefndir geta skipað trygginganefndir innan síns hóps og þurfa ekki að hafa nema þrjá menn, ef þeim sýnist svo, í n., þannig að það er út af fyrir sig ekki svo fjarskalega þungt í vöfum. En hitt er rétt, að sums staðar hafa trygginganefndir aðeins verið nafnið tómt og ekki haft nein veruleg afskipti af þessum málum. Á öðrum stöðum hafa þær unnið mikil og gagnleg verk.

Að því er snertir réttindi þýzkra kvenna, sem gifzt hafa íslenzkum mönnum, þá er það rétt, að þær hafa ekki réttindi til lífeyrisgreiðslu og annars slíks eftir almannatryggingalögunum. Aftur á móti hafa þær rétt til sjúkratrygginga og njóta þeirra þann landsdvalartíma, sem þær eru. Eins og hv. dm. er kunnugt, hefur verið undirritaður samningur um gagnkvæmar tryggingar ríkjanna, sem þátt taka í Evrópuráðinu, og ef sá samningur verður fullgiltur, þá mundi koma sem bein afleiðing af því, að þessar konur fengju tryggingarréttindi hér eins og annars staðar. Verði það aftur á móti ekki gert um það bil, sem endurskoðun laganna er lokið, þá er sjálfsagt að taka til athugunar þann lið, sem hv. þm. hefur bent á, því að það er um fleiri konur þarna að ræða en þýzkar einar.

Ég skal ekki að þessu sinni fjölyrða um frv. Það er í raun og veru að aðalefni til eingöngu framlenging á gildandi ákvæðum, en ekki um neinar stórvægilegar breytingar að ræða á lögunum frá því, sem verið hefur til þessa.