04.11.1954
Neðri deild: 12. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

38. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Frsm. (Pétur Ottesen):

Tildrög þessa máls eru þau, að síldveiðar fyrir Norðurlandi brugðust enn á s.l. sumri. Það var þess vegna augljóst, þegar síldarvertíðinni lauk, að mjög mundi verða þröngt fyrir dyrum hjá síldarútvegsmönnum, ef þeim kæmi ekki einhver aðstoð til þess að kljúfa þá örðugleika, sem af síldveiðibrestinum leiddi. Það var þegar sýnt við athugun á því máli, að síldveiðideildinni mundi verða um megn að leggja fram það fé, sem þurfti til þess að gera síldarútvegsmönnum kleift að rísa undir þeim erfiðleikum. Hins vegar var hin almenna fiskideild sjóðsins betur á vegi stödd að þessu leyti, og það þótti þess vegna fært, að lán yrði tekið í þeirri deild til þess að gera síldveiðideildinni kleift að inna þessar greiðslur af hendi. En jafnframt var ríkisstjórninni nauðsynlegt að fá til þess heimild að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs lánin og jafnframt að greiða vexti af þeim. Ríkisstj. greip þess vegna til þess ráðs að gefa út bráðabirgðalög um þetta efni, því að eigi þótti fært að láta dragast þangað til Alþingi kæmi saman að veita þessa aðstoð.

Í l. um hlutatryggingasjóð er svo ákveðið, að togarar séu undanþegnir gjaldi til hlutatryggingasjóðsins, bæði síldveiðideildar og hinnar almennu fiskideildar sjóðsins, en í framkvæmdinni hefur þetta orðið þannig, að þeir togarar, sem gerðir hafa verið út á síldveiðar, hafa lagt af sínum afla til sjóðsins alveg eins og önnur síldveiðiskip, og þess vegna er svo ákveðið í þessum brbl., sem hér er leitað staðfestingar Alþingis á, að þeir útgerðarmenn, sem gerðu út togara á s.l. sumri til síldveiða, njóti sömu hlunninda og aðrir útgerðarmenn, sem að síldveiðunum stóðu.

Sjútvn. hefur við athugun á þessu máli komizt að þeirri niðurstöðu, að óhjákvæmilegt hafi verið að gera ráðstafanir til þess að rétta hlut síldarútvegsmanna, og fellst á þá ráðstöfun í þessu efni, sem í frv. þessu er fólgin, og leggur því til, að frv. verði samþ.