17.12.1954
Neðri deild: 36. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

95. mál, almannatryggingar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég tók þátt í því í n. að mæla með þessu frv., sem hér liggur fyrir, og gerði grein fyrir því, að ég mundi flytja brtt. við umr.

Brtt. mín er út af því, að í frv. er enn þá framlengdur í 40. gr. 1. töluliður bráðabirgðaákvæða laganna, sem fjallar um takmörkun á lífeyrísgreiðslum, og er sagt, að þetta bráðabirgðaákvæði skuli vera í gildi til ársloka 1955. En í bráðabirgðaákvæðinu segir, að fullur ellilífeyrir og örorkulífeyrir samkv. 15. gr. laganna skuli því aðeins greiddur, að aðrar tekjur hlutaðeiganda fari ekki fram úr fullum lífeyri, en ef tekjurnar verði hærri en fullur lífeyrir, þá byrjar skerðing á ellilífeyri og hann fellur að fullu niður, ef tekjur viðkomanda hafa orðið tvöfaldur lífeyrir.

Nú er fullur lífeyrir á 1. verðlagssvæði 6500 kr., og byrjar þá skerðingin á ellilífeyrinum fyrir þá ellilífeyrisþega, sem á því verðlagssvæði eru, en fullur ellilífeyrir er 4896 kr. á 2. verðlagssvæði, og ef gamalmenni, sem ellistyrks á að njóta, hefur meiri tekjur en 4896 kr., þá byrjar skerðing á ellilífeyri hans, og ellilífeyrir hans fellur niður, þegar hann hefur fengið tekjur, sem nema tvöföldum ellilífeyri, eða 9792 kr., sem ern náttúrlega engar tekjur.

Nú er brtt. mín nm það í fyrsta lagi, að þetta bráðabirgðaákvæði falli niður, og byggi ég það á þeirri sanngirnisástæðu, að það var búið að binda það fastmælum, að þetta bráðabirgðaákvæði skyldi aðeins gilda fyrstu árin eftir gildístöku laganna, meðan fólk hafði ekki tekið neinn þátt í að borga í lífeyrissjóðina. Nú hefur fólk gert það, og þá er eðlilegt, að bráðabirgðaákvæðið falli niður. — Ef mönnum sýndist nú ekki að gera þá breytingu, sem má segja að sé allveruleg hreyting og kosti tryggingarnar nokkurt fé, þá má stíga skrefið smærra og ákveða að byrja ekki að skerða ellilaunin fyrr en tekjurnar hefðu farið fram úr tvöföldum lífeyri, og varatill. mín er um það. Það kostar tryggingarnar ekkert stórfé, en mundi leiðrétta tilfinnanlegt misrétti og ranglæti, sem gamla fólkið á mjög erfitt með að sætta sig við. Gamalmenni, sem er búið að fá ellilífeyri í tvö, þrjú eða fjögur ár, fær svo einhverja smáaukaþóknun fyrir eitthvert starf, sem starfskraftar þess hafa leyft að það innti af hendi, og þá falla allt í einn ellilaun þess niður. Þetta á gamla fólkið erfitt með að þola, og þetta er svo átakanlegt ranglæti, að ég held, að þó að endurskoðun laganna standi nú yfir, þá eigum við ekki að huga þessu ranglæti líf eitt ár til, heldur gera þessa breytingu núna fyrir jólin.

Önnur brtt., sem ég hef leyft mér að flytja, er nokkuð annars eðlis, en hún er sprottin af því ástandi, að nú hefur gamalmenni ellistyrk eða öryrki hefur örorkulífeyri og verður svo fyrir þeirri sæmd á Alþ., að honum eru ætlaðar tvö, þrjú eða fjögur þúsund krónur sem heiðursviðurkenning á 18. gr. fjárlaganna. Hvað gerist þá? Fær hann þá ekki 2 þús. eða 3 eða 4 þús. kr. meiri greiðslu vegna þessarar heiðursviðurkenningar? Nei, þá gerist það, að þessi upphæð dregst frá örorkustyrk hans eða ellistyrk hans hjá tryggingunum og er þannig ekki að einum eyri viðbótargreiðsla til viðkomandi manns, heldur léttir aðeins á tryggingunum um sömu upphæð. Nú er það þannig, að mjög margar upphæðir á 18. gr. fjárlaga eru heiðursviðurkenning miklu fremur en lífeyrir. Ég gríp hér niður á fyrstu bls. í 18. gr. Þar er póstur með 1121.50 kr. Þessi upphæð dregst frá upphæð hans hjá tryggingunum. Hann fær ekki 1121 kr. meira. Annar póstur er hér rétt hjá með 1725 kr. Hann fær það dregið frá þeirri greiðslu, sem hann á að fá hjá tryggingunum. Ljósmóðir er hér nokkrum línum ofar. Hún á að fá 1690.50 kr. Hún fær þær ekki greiddar. Þær verða dregnar af upphæðinni, sem hún á að fá frá tryggingunum, og hún fær ekki einum eyri meira. Ég hef núna flutt till. og fengið samþ. inn á 18. gr. 4 þús. kr. upphæð til gamallar kennslukonu, sem varð að hætta sökum heyrnardepru, áður en hún varð sjötug. Ég hélt, að hún mundi nú fá þessar 4 þús. kr. í viðbót við sinn ellistyrk; hún er orðin 67 ára. Nei, þær verða dregnar frá upphæð hennar þar. Hún fær engan eyri í viðbót.

Þess vegna hef ég leyft mér að flytja þessa till. Ég hafði hugsað mér að setja þetta sem skilyrði við 18. gr., að ekki mætti skerða greiðslur frá almannatryggingunum til slíks fólks, meðan upphæðin á fjárlögum næmi ekki meiru en 8 þús. kr., en þá er bent á það, að í tryggingalögunum sé ákvæði, sem valdi því, að þetta fyrirkomulag sé framkvæmt, og þetta ákvæði er í 13. gr. tryggingalaganna og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir, sem við gildistöku laga þessara njóta lífeyris eða eftirlauna af opinberu fé eða úr opinberum sjóðum, er sé að minnsta kosti jafnmikill og lífeyrir samkv. 15. gr., eiga ekki rétt á ellilífeyri. Ef ellilífeyrir eða eftirlaun ná eigi þeirri fjárhæð, á hlutaðeigandi rétt á því, að Tryggingastofnunin greiði það, sem á vantar, enda hafi hann náð tilskildum aldri.“

Nú er að vísu þetta ákvæði mjög vafasamt. Í fyrsta lagi vegna þess, að það á að ná til þeirra, sem njóta lífeyris eða ellilauna af opinberu fé við gildistöku laganna, og því vafasamt, að það elgi að ná til þeirra, sem síðar koma til. Í annan stað er varla hægt að kalla það lífeyri, þó að einhver hafi fengið 2–4–5 þús. kr. viðurkenningu á fjárlögum fyrir langa þjónustu hjá ríkinu. Það er ekki lífeyrir. Það er viðurkenning. Það er svona svipuð viðurkenning og að fá fálkakross, og er þó ekki hægt að koma því við að draga frá tryggingunum, þó að einhver hafi fengið slíka viðurkenningu í því formi.

Ég legg nú til, að þessi síðari málsgr., sem ég nú las, síðari hluti 13. gr. laganna, verði felldur niður, og þar með væri sett undir þann leka, að smáupphæðirnar til fjölda margra manna og kvenna á 18. gr. séu skertar með því að draga viðkomandi upphæð frá, þegar kemur til greiðslu á ellilífeyri eða örorkubótum hjá tryggingunum. Þetta getur ekki skakkað tryggingarnar mjög miklu, því að eftir standa allar háu upphæðirnar á 18. gr. óskertar, en fólkið, sem hefur smáupphæðir á 18. gr., fengi að halda þeim, án þess að þær væru dregnar frá ellilífeyri eða örorkubótum hjá Tryggingastofnuninni, en Tryggingastofnunin telur sig verða að framkvæma þetta, þó að hún viðurkenni, að þetta sé ranglæti, meðan síðari hluti 13. gr. stendur í lögunum, og því er lagt til, að sá hluti gr. verði felldur niður.

Ég fjölyrði ekki meira um þetta. Þetta er hvort tveggja svo augljóst réttlætismál, að það er heiður Alþ. að leiðrétta þetta hvort tveggja núna fyrir jólin, en hvorugt er stórt fjármálalegt atriði.