04.11.1954
Neðri deild: 12. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

38. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Halldór. Ásgrímsson:

Herra forseti. Það mun sjálfsagt mega telja eðlilegt, þegar tekið er tillit til hinnar hörmulegu útkomu, sem varð á síldveiðunum s.l. sumar, að reynt sé að útvega síldveiðideildinni fé til að reyna að milda eitthvað það áfall, sem síldveiðimenn hafa orðið fyrir enn á ný. Og ekki er það óeðlilegt, að þá sé leitað nm lán til fiskveiðideildarinnar, fyrst hún er sem stendur þannig á vegi stödd, að hún er aflögufær. En í sambandi við þetta frv. vildi ég aðeins spyrjast fyrir um nokkur atriði: Hvað er þetta lán veitt til margra ára, hverjar eru árlegar afborganir, og hverjir eru vextir? Og í sambandi við þessi atriði má einnig spyrja: Hverjar eru tryggingar fyrir því, ef svo bæri til, að almennur aflabrestur yrði á þorskveiðum, að fiskveiðideildin yrði ekki fjárþrota, ef á sama tíma væri bundið verulegt af fjármagni deildarinnar í lánum til síldveiðideildarinnar? Ég spyr um þessi atriði vegna þess, að það er hvorki vikið að þessu í aths. við frv. né áliti nefndarinnar.