17.12.1954
Neðri deild: 37. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

95. mál, almannatryggingar

Pétur Ottesen:

Hv. þm. A-Sk. (PÞ), frsm. þessa máls, gat þess, þegar hann reifaði þetta mál hér í dag af hálfu heilbr.- og félmn., sem hafði haft málið til meðferðar, að þetta frv., sem hér liggur fyrir til breytinga á lögunum, innihéldi í aðalatriðum það eitt að framlengjatímabundin ákvæði í lögunum enn um skeið, því að svo hagar til, að nú mun vera nefnd starfandi, sem að því vinnur að endurskoða lögin í heild, og ef til vill verður þess ekki mjög langt að biða, að þessi nefnd ljúki störfum. Ekki veit ég þó, hvenær vænta má, að álit liggi fyrir frá þessari nefnd, en þetta mál er mjög umfangsmikið og þarf vitanlega vel að huga að um gerð þess í sambandi við margbrotna framkvæmd, sem er á þessari löggjöf. Þess vegna er engan veginn æskilegt, að nefndin skili áliti um málið fyrr en hún hefur lesið það vel og rækilega niður í kjölinn. Það getur þess vegna orðið enn nokkur dráttur á því, að þetta álit komi, og þess vegna er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt að framlengja bráðabirgðaákvæði ýmis í frv. og auk þess fullkomlega athyglisvert, að ef þar væri um einhver ákvæði að ræða, sem reynslan hefur sýnt að eru mjög erfið í framkvæmd, þá væri líka sett undir þann leka einmitt nú í sambandi við meðferð þessa frv.

brtt., sem ég ætla að hreyfa hér, er einmitt þess eðlis, að það hefur komið í ljós í framkvæmdinni, að þar eru mjög miklir erfiðleikar á og í sumum tilfellum svo miklir erfiðleikar, að mikilsverð ákvæði laganna geta algerlega misst marks að því er snertir þá, sem eiga að njóta góðs af þessari löggjöf.

En áður en ég vík að þessari brtt. minni, sem ég verð hér vegna naumleika tímans að bera fram skriflega og biðja hæstv. forseta að koma á framfæri við d. á þann hátt, ætla ég aðeins að drepa á tvö atriði, sem ég vildi mjög óska að sú nefnd, sem hefur málið til meðferðar, tæki til rækilegrar íhugunar.

Eins og kunnugt er, þá var fyrir nokkru gerð sú breyting á l. um almannatryggingar, að nú eiga menn að fá greitt framlag úr tryggingunum með öðru barni. Þessar greiðslur eru ekkert háðar tekjum eða efnahag þess manns, sem bæturnar á að fá. Þær ganga jafnt til ríkra og fátækra, jafnt til þeirra, sem geta séð sér og sínum vel farborða, án þess að nokkur opinber stuðningur komi til, og hinna, sem berjast í bökkum með það t.d. að fleyta fram þungri fjölskyldu og kraftar þeirra hrökkva máske ekki til til þess að gera það eins og þörfin krefur og þjóðfélagshættir okkar nú gera kröfu til að uppfyllt sé. Ég er ekki að gagnrýna þetta út af fyrir sig, þó að ég vilji segja það sem mína skoðun, að hér sé í ákaflega mörgum tilfellum um fullkomna ofrausn að ræða af hálfu þess opinbera. En þegar maður svo ber þetta saman við önnur ákvæði laganna, eins og t.d. um gamalmenni, sem komið er yfir 67 ára aldur, er það þannig, að ef menn hafa tekjur með einhverjum hætti, sem nema 3–4 þús., ef miðað er við annað verðlagssvæði og eitthvað meira á fyrsta verðlagssvæði, þá eru þeir gersamlega sviptir stuðningi í þessu efni frá tryggingunum, þó að þeir hafi um langa ævi lagt fram þann skerf til trygginganna, sem þeir hafa átt að gera samkv. tilgangi löggjafarinnar, til þess að tryggja sér lífeyri eins og hann er nú ákveðinn, eftir að þeir hafa náð 67 ára aldri. (Gripið fram í: Og fái þeir opinbera viðurkenningu, þá er hún tekin.) Já, og svo bætist það við. Og þegar maður svo ber þetta saman, að menn alveg án tillits til tekna og efnahags fá fullar bætur með öðru barninu, sem þeir eignast, og hins vegar, að gamalmenni eru svipt öllum stuðningi löggjafarinnar, ef þeim með einhverjum hætti falla til slíkar tekjur sem ég nú hef nefnt, þá eru þeir dæmdir úr leik um að njóta nokkurs, meðan þannig stendur, af því framlagi, sem þeir hafa á langri ævi lagt af mörkum til þess að byggja upp tryggingarnar til öryggis eigin hag. — Þetta vildi ég benda á, og ég þykist vita, að þetta verði rannsóknarefni n. og eitt af hennar starfi, að nema burt úr lögunum þetta geysilega ósamræmi, því að í raun og sannleika stenzt það engan veginn að halda slíkum ákvæðum sem þessum innan einnar og sömu löggjafar.

Þá er sú brtt., sem ég vildi flytja hér. Hún er við 6. gr. þessa frv. Hv. 9. landsk. flutti brtt. hér fyrr í dag við 6. gr., sem m.a. greip inn á það atriði, sem ég nú ætla að hreyfa hér, en þessi brtt. var felld. Ég tek þess vegna aðeins upp hluta af þessari brtt., og ætla ég, að það samrýmist fullkomlega þingsköpum, að það sé gert, því að sú afstaða, sem var til till. í heild, segir vitanlega ekkert um það, hver afstaða deildarinnar yrði til þessa hluta till., sem ég nú vil hér flytja brtt. um, af því að það er alveg sjálfstætt atriði.

Eins og menn muna, þá var nú fyrir skömmu takmarkaður sá réttur, sem fráskildar konur eða konur, sem áttu óskilgetin börn, höfðu til stuðnings við innheimtu meðlaga. Tryggingarnar önnuðust um innheimtu þessara meðlaga. Þessu var breytt þannig, að því er snertir þær konur, sem fyrr getur, að ef þær svo giftust aftur, þá misstu þær réttinn til innheimtu hjá tryggingunum. Nú þekki ég dæmi til þess, þar sem svona stendur á um slíkar mæður, sem átt hafa óskilgetin börn, en hafa gifzt síðar, að eftir að þær áttu svo sjálfar að fara að innheimta meðlagið, hefur það gengið ákaflega illa. Og ég þekki dæmi þess, að þær hafa algerlega misst af meðlaginu af þessum sökum, af því að altitt er, að slíkir feður berast viða um og hafa ekki alltaf „blívanlegan“ samastað, ef maður mætti nota það orð, og ákaflega erfitt að rekja feril þeirra. Og fyrir slíkar mæður eða þá menn þeirra er þetta í ýmsum tilfellum næstum ógerningur. Aðstaða trygginganna í þessu efni er alveg gerólík. Þær hafa sambönd um allar jarðir og aðstöðu til þess yfirleitt að beita fyrir sig þeim valdsmönnum og eftirgrennslunarmönnum um þessa hluti, sem frekast eru tök á. Þess vegna getur verið mjög léttur leikur fyrir tryggingarnar að hafa upp á þessum mönnum og láta ganga í að innheimta hjá þeim meðlögin, þó að það sé gersamlega útilokað, að mæður eða þá menn þeirra, eftir að þær hafa gengið í hjónaband að nýju, hafi tök á því.

Greinin mundi, ef brtt. mín yrði samþ., hljóða svo:

„Takmarkanir þær, sem ákveðnar eru í 2. og

3. málsgr. 23. gr. laganna, á greiðslum barnalífeyris til ekkna, skulu einnig gilda um greiðslur barnalífeyris til fráskilinna kvenna samkvæmt 28. gr.“ - Þetta er þá eins og það er nú, en svo kemur breytingin: „Mæður óskilgetinna barna, er taka lífeyri með börnum sínum samkvæmt úrskurði yfirvalds, eiga rétt á að fá lífeyrinn greiddan hjá Tryggingastofnuninni til 16 ára aldurs barnsins án tillits til þess, hvort þær ganga í hjónaband eða ekki.“

Þá er búið, að því er þessar mæður snertir, að færa þetta inn á sama grundvöll og áður var í löggjöfinni, því að þá voru ekki settar takmarkanir í sambandi við það, ef þær gengju í hjónaband að nýju. Og það er einmitt með tilliti til þess, hve reynslan hefur sýnt það berlega, að þetta verður til þess, að löggjöfin í sumum tilfellum missir marks, að ég vil nú fara fram á það við hv. d., að hún, þrátt fyrir það að ekki sé tekið inn í þetta frv. í aðalatriðum nema þær breytingar, sem þarf til að framlengja ýmis ákvæði frv., vildi með tilliti til þeirra aðstæðna, sem ég hef hér lýst, og að fenginni reynslu á það fallast, að slík breyting yrði látin fljóta með.