17.12.1954
Neðri deild: 37. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

95. mál, almannatryggingar

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði hér við 1. umr. þessa máls hér í þessari hv. deild, að þetta frv. er samkomulag, sem gert var í mþn. þeirri, sem ríkisstj. skipaði s.l. vor, og er að meginstofni framlengingarákvæði tryggingalaganna, þannig að þau falli ekki úr gildi eða verði alger vanskapnaður nú um þessi áramót. Ég ætla ekki að öðru leyti að fara að endurtaka það, sem ég þar sagði.

Við 2. umr. fyrr í dag komu að vísu fram brtt., en ekki voru þær stórvægilegar eða röskuðu í neinu meginatriðum frv., og ekki var þeim heldur fylgt eftir með neinu málþófi eða slíku, og reiknaði ég þá með, að það væri nokkurs konar samkomulag um það í þinginu að láta frv. ganga fram í því formi, sem það hefur nú, eftir þær breytingar, sem gerðar voru á því í hv. Ed. og eru, eins og ég hef áður tekið fram, í fullu samræmi við þær breytingar, sem nú hafa þegar verið gerðar á l. um laun embættismanna með þeim ákvæðum, sem sett voru inn í fjárl., og þá m.a. með vilja og vitund formanns fjvn., sem hér talaði síðast.

En nú hefur það komið fram, að hv. þm. Borgf. (PO), formaður fjvn., hefur borið hér fram allmikilvæga brtt. við frv., og þegar svo er komið, þá leyfi ég mér að lýsa því yfir, án þess að fara að ræða það nokkuð frekar, að ég óska eftir því við hæstv. forseta, að þessu máli ljúki ekki í kvöld, og ég óska eftir, að ríkisstj. fái að fjalla um þetta mál. Ég er félmrh. og hef alltaf haldið þessu máli þannig, að það væri samkomulag innan ríkisstj. um meðferð málsins.

Nú hefur jafnmikill maður og hv. þm. Borgf., formaður fjvn., borið fram brtt., og ég sé mér alls ekki fært að taka afstöðu til hennar öðruvísi en að það verði ríkisstjórnarfundur um það. Mér þykir sennilegt, að þetta hafi það í för með sér, að þingi verði ekki slitið fyrr en eftir helgina.

Ég ætla ekki að fara að ræða málið að öðru leyti nú, en vildi aðeins lýsa þessu yfir.