17.12.1954
Neðri deild: 37. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

95. mál, almannatryggingar

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Það er nokkur lífsreynsla fyrir mig og væntanlega aðra þá, sem ekki eiga langa sögu hér í þinginu að baki, að heyra þær umr., sem fram hafa farið hér á fundinum í kvöld.

Það, sem skeð hefur, er það, að hér hafa verið bornar fram till. um það, að gamalmenni á sjúkrahúsum skuli fá 10% af þeim lífeyri, sem með þeim er greiddur, í eigin hendur. Það er upphæð, sem nemur 50–60 kr. á mánuði. Og það hefur verið borin fram till. um það að fela einni stofnun ríkisins að innheimta lífeyri þeirra barna, þar sem úrskurður yfirvalds liggur fyrir um meðlagsskyldu. Þessar till. og raunar þær aðrar, sem fram hafa komið hér í kvöld, hafa verið bornar fram af mikilli hógværð og kurteisi og rökstuddar. En hæstv. ríkisstj. Íslands virðist ekki hafa til að bera þann þegnskap, hvorki gagnvart hlutaðeigandi gamalmennum né mæðrum óskilgetinna barna, sem um ræðir í till., hvað þá gagnvart Alþ., að hún vilji sætta sig við það, að Alþ fái að ráða þessum hlut.

Ég vil spyrja hæstv. ríkisstj.: Til hvers heldur ríkisstj., að Alþ. sé, ef Alþ. á ekki að hafa rétt til þessa, ef Alþ. á ekki að fá óhindrað að hafa úrslitavald um jafnsmávægileg atriði og hér eru á döfinni?

Mér þætti fróðlegt, að hæstv. félmrh. vildi útskýra það hér fyrir okkur alþm., til hvers hann yfirleitt álítur að þessi stofnun, sem við nú erum staddir i, sé, ef hún má ekki hafa úrslitavald um þetta. Ef ákvarðanir í jafnlitlum málum, en um leið jafnsjálfsögðum réttindamálum fyrir þá, sem illa eru settir í lífsbaráttunni, eiga endilega að vera teknar einhvers staðar fyrir utan þessa samkomu, þá verð ég að segja það, að það væri ákaflega fróðlegt fyrir mig að fá að vita það, til hvers ríkisstj. hugsar sér, að Alþ. eigi að vera.

Ég leyfi mér að svo mæltu að taka upp aftur till. þá, sem hæstv. félmrh. neyddi hv. þm. Borgf. til þess að taka hér aftur, enda er þessi till. öðrum þræði endurflutningur á till., sem ég flutti hér við 2. umr. málsins í dag. Lýsi ég fylgi mínu við till. og leyfi mér að taka hana upp sem mína till. og ætla að biðja forseta um, að hún geti fengið meðferð sem skrifleg till.