29.11.1954
Neðri deild: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

106. mál, Krabbameinsfélag Íslands

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur athugað þetta frv., sem hér liggur fyrir, en efni þess er það, að við skattreikning til ríkisins og til bæjar- eða sveitarfélaga fái gefendur þeir, sem leggja af mörkum gjafir til Krabbameinsfélags Íslands eða sambandsfélaga þess, rétt til þess að draga gjafir allt að 15 þús. kr. frá skattskyldum tekjum sínum það árið, sem gjöfin fer fram.

N. hefur kynnt sér, að Krabbameinsfélag Íslands er landssamband allra þeirra félaga hér á landi, sem hafa það að aðalmarkmiði að berjast gegn þeim válega sjúkdómi, krabbameininu, og með því að þessi lagasetning á sér hliðstæðu að því er snertir gjafir til þess félags, sem einkum hefur beitt sér gegn berklaveikinni, og sömuleiðis er sams konar hliðstæða fyrir hendi um gjafir til barnaspitalasjóðs, þá leggur n. einróma til, að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir.