10.02.1955
Efri deild: 45. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

145. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1955

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Þó að ég ætli ekki mikið að segja, þá hefði ég helzt kosið, að hæstv. forsrh. eða a.m.k. einhver af hæstv. ráðh. væri hér viðstaddur. (Forseti: Óskar hv. þm. eftir því, að umr. sé frestað og vitað, hvort þeir geti verið við?). Ef hæstv. forseti vill taka að sér að beina því, sem ég ætla að segja hér, sem er ekki mikið, til hæstv. forsrh., þá er mér það nægjanlegt. (Forseti: Það er verið að gá að, hvort hæstv. forsrh. sé við, og er bezt, að hann verði við sjálfur, ef það er hægt.) — — Jæja, ég ætla nú samt að segja það, sem ég hef að segja um þetta. Það eru ekki mörg orð.

Mér er það ljóst, að það verður að fresta Alþingi 1955 til haustsins, hvort sem dagurinn 8. okt. er nú nákvæmlega sá rétti eða ekki, en ég verð að segja það sama um þetta mál og ég sagði í sambandi við síðasta mál, sem hér var á dagskrá, að ég kann illa við þessa aðferð að fresta Alþingi ár eftir ár með sérstökum lögum, og þar sem er komin svo löng reynsla á það nú, að þing er yfirleitt ekki haldið fyrr en á haustin, þá sé ég enga ástæðu til að hafa þessa aðferð lengur. Ég held, að bezti tíminn fyrir Alþingi til að starfa væri síðari hluta vetrar eins og áður var, en ég býst við, að þá þyrfti að breyta fjárhagsárinu, sem mér finnst ekki nein vandkvæði vera á. Ég sé ekki, hvers vegna það þarf endilega að vera almanaksár. En ef það þykir ekki fært að breyta fjárhagsárinu og fara svo eftir stjórnarskránni um það, að Alþingi komi saman 15. febr., þá sé ég ekki nokkra ástæðu til þess að samþykkja þetta á hverju ári. Stjórnarskráin heimilar að breyta með einföldum lögum ákvæðinu um þingsetningardaginn, og hví þá ekki að breyta því með lögum, sem gilda, og vera ekki að þessu á hverju einasta þingi? Annars finnst mér, að þessi dagur, 8. okt., sé settur of seint á árinu. Það tókst að vísu að afgreiða fjárlög á s.l. ári, þó að þing kæmi ekki saman fyrr en 9. okt., en það er þó auðvitað mjög hæpið, að slíkt takist. Og í annan stað tókst ekki að ljúka þingstörfum, þó að það tækist að ljúka fjárlögum, en bezt færi auðvitað á því, að þinginu mætti verða lokið á því ári, sem það er haldið fyrir, en reynslan sýnir, að með því að byrja ekki þing fyrr en komið er fram í október, þá verður þinginu ekki lokið fyrir áramót. Ég ætla nú samt ekki í þetta sinn að gera neina brtt. um þetta, en ég vildi mælast til þess, að t.d. hæstv. forseti léti ríkisstj. vita um það, að þessi rödd hefði hér komið fram. Þetta er ekki nýtt. Þessi rödd hefur heyrzt hér ár eftir ár, en alltaf verið borið fram sams konar frv. um þetta efni.