10.12.1954
Neðri deild: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

90. mál, skógrækt

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur verið athugað af landbn. Nefndin kynnti sér það eftir föngum og átti sömuleiðis viðræður við skógræktarstjóra um málið, og að því búnu féllst n. á að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.

Málið hefur verið talsvert undirbúið. Frv. um þetta efni lá fyrir Alþ. 1952. Það varð þá ekki útrætt, en því var visað til búnaðarþings til athugunar, og þá kom í ljós, að það var talsverður ágreiningur um viss atriði. Þetta varð til þess, að búnaðarþing og Skógrækt ríkisins og Skógræktarfélag Íslands komu sér saman um að tilnefna menn til þess að athuga þetta og þá ná samkomulagi um ágreiningsatriðin. Þetta tókst. Málið fór svo aftur fyrir búnaðarþing og aftur til nefndarinnar, og frv., eins og það liggur nú fyrir, er byggt á þessu samkomulagi. Það er þess vegna búið að ganga í gegnum þá hreinsunarelda, sem landbn. taldi að hlytu að duga, og þess vegna leggur n. til, eins og ég sagði áðan, að frv. verði samþ. og málinu verði vísað til 3. umr.