21.02.1955
Efri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

90. mál, skógrækt

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forsetl. Með þessu frv. er slegið saman þeim frv., sem áður giltu hér viðvíkjandi skógrækt, og einstaka nýjum ákvæðum bætt við og öðrum breytt. Ég skal fyrst benda á helztu breytingarnar, sem eru í þessu frv. frá núgildandi lögum.

Það er þá fyrst og fremst í 6. gr. Þar er gert ráð fyrir því, að það sé leyfilegt að rjóðurhöggva skóg, ef bletturinn, sem rjóðurhöggvinn er, er gerður að túni. Það er á einstaka stað á landinu, sem ekki er til land til ræktunar nema vaxið kjarri. Og það er til að gera þeim mönnum mögulegt að stækka tún sitt, að þessi breyting er tekin upp í lögin.

Þá er í 20. gr. gert ráð fyrir, að hægt sé að styrkja dálitið frekar en áður var þá menn eða félög, sem ætla sér að koma upp barrskógi. Mikið er þar ekki um að ræða, og má vera, eins og ég skal koma að síðar, að það sé ekki tímabært enn að ganga þar frekar að en þarna er gert.

Þá er gert ráð fyrir því í 22. gr., að hægt sé að leigja einstaka mönnum sumarbústaði eða lönd í sambandi við þá gegn því skilyrði, að þeir gróðursetji þar tré. Það er einhver eftirspurn eftir slíkri leigu og búizt við því, að með þessari gr., sem mér skildist á skógræktarstjóra að hann kallaði aðkallandi að kæmist nú fram, mundi koma einhver nýplöntun út frá mönnum, sem slík leyfi fengju, í kringum þeirra sumarbústaði, sem stæðu á landi þess opinbera.

Þá er í 23. gr. gert ráð fyrir því, að hægt sé að styrkja menn til að girða utan um land, sem tekið er til skógræktar, enda sé landið minnst hektari á bæ.

Enn er fellt niður ákvæði, sem áður var um það, að skógræktin hefði skyldu til þess að gefa sóknarnefndum plöntur til að gróðursetja í kirkjugarða. Það hefur verið heldur slæm reynsla af þessu. Sóknarnefndirnar hafa verið tregar til að taka á sig þá kvöð, sem þær hafa vitanlega þurft að gera, að halda girðingunum við í kringum kirkjugarðana. Það stendur í sambandi við þá ómenningu, sem kirkjugarðsmál okkar yfirleitt eru í, því að það er engu líkt. Það er verið að tala um kirkjur og presta og að þeir eigi alls staðar að vera, helzt á hverjum bæ, en kirkjugarðarnir eru vanræktir eins og mest má vera um landið þvert og endilangt, og er það til skammar öllum, sem þar eiga hlut að máli. Væri miklu nær að taka upp áróður fyrir því heldur en að vera að kasta heilagri vígslu á alls konar menn og hluti, eins og nú er farið að viðgangast. Þetta er fellt niður, en hins vegar mun ekki standa á því frá skógræktarinnar hálfu að láta þær sóknarnefndir, sem virkilega hafa áhuga á að prýða sína kirkjugarða, fá plöntur, enda þótt kvöðin sé tekin af skógræktinni, sem áður var.

Með þessu beld ég að ég hafi nefnt aðalbreytingarnar, sem í frv. felast. Sjálfur lít ég þannig á, að þetta frv., eins og reyndar öll okkar löggjöf, sé gert til bráðabirgða. Hún ber merkí þess, þessi löggjöf, sem hér er steypt saman í eitt, að enn erum við að tala um skóg og skógrækt, miðað við birkikjarr, sem ekkert vit er i. Björkin er ekki skógur. Hún verður aldrei nytjaskógur og aldrei til neins gagns annars en að prýða og kannske á einstaka stað hefta uppblástur. Ég álít, að það eigi tiltölulega stutt í land, að við vöxum upp úr því að vera að friða slíkt kjarr, slíka smárunna, eins og nú er gert. En hins vegar er reynslan orðin sú, að það er orðið sýnilegt, að hér er hægt að rækta barrskóg, og á það að friða hann og koma honum upp þarf að leggja miklu meiri áherzlu en gert hefur verið. Og sérstaklega þarf þá að breyta um frá því, sem hefur verið gert, á þann hátt, að það þarf að hugsa langt fram í framtíðina. Barrskógur, sem við viljum helzt reyna að koma á hvert heimili, þarf að vera byggður þannig upp, að hann skapi á heimilinu nokkurn veginn jafna vinnu ár hvert, ekki bara næstu árin, heldur næstu 50–100 árin. Og til þess að hann geti það, þá þarf að vera að smáplanta honum á löngumtíma, þannig að þegar það, sem fyrst er plantað, er orðið fullvaxið eftir ca. 50–60 ár og gefur nytjaskóg, þá þarf að vera til mannskapur á heimilinu til að rjóðurhöggva þann part og planta í hann aftur. Það er þess vegna ekki hugsað um framtíðarstefnu í skógræktinni, að mínum dómi, að hlaupa til og gróðursetja heilan ha. eða 2 ha. í einu á einhverri jörð. Við það ræður maðurinn ekki. Hann ræður ekki einu sinni við að grisja hann, nema hann fái sér aðkeypta vinnu. Og eins og vinnuaflið er núna, þá er orðið fátt fast fólk á heimilunum. Það á að miða skógræktina við það, að það fólk komist yfir það að grisja hann, ekki bara að planta hann fyrst smám saman, lítinn blett á hverju ári, heldur líka seinna að grisja þá bletti og enn þá seinna að hirða timbrið úr þeim bletti og þá að planta í hann nýjum skógi. Þess vegna þarf allt frv. innan margra ára að sníðast um, annars vegar að taka úr því þá friðun, sem nú er á skógi, sem enginn skógur er og aldrei verður til neins gagns nema til augnayndis, en hins vegar skapa möguleika fyrir því, að upp geti vaxið á sem flestum heimilum nytjaskógar, sem bundnir séu við heimilisstörfin, þannig að það sé ekki meira, sem gera þarf árlega, en það, að heimilisfólkið ráði við það á hverjum tíma. Það er trúlegt, að það mundi þurfa að vera svona einn tíundi til einn tuttugasti af hektara, sem væri tekið á hverju ári. Þá væri eftir 50 ár mismunandi nytjaskógur til með mismunandi aldri, sá elzti, sem ætti að höggvast í ár og vera gagnskógur, væri 50 ára, og þarf þá að planta í staðinn í rjóðrið og svo alltaf áfram á hverju ári. Þannig þarf það að byggjast upp, og þegar frv. verður endurskoðað, eftir nokkur ár, þá þurfa þingmenn þeir, er þá sitja hér, að muna eftir þessu tvennu: hætta að friða smákjarrið, sem enginn hefur gagn af, en stefna að því að fríða og koma inn því, sem allir hafa gagn af, og því, sem allir vilja stefna að, að koma upp nytjaskógi á hverri jörð. — En ég er með frumvarpinu núna óbreyttu og n. öll, því að það er ekki enn þá tímabært að gera annað. Menn eru ekki búnir að melta framtíðarhugsjónina, sem skógræktin á að komast inn í hér á landi, og vilja halda í runnana til prýði.