13.10.1954
Neðri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

5. mál, bifreiðalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er borið fram um breyting á bifreiðalögunum, er sjálfsagt ekki borið fram að ófyrirsynju að skoðun manna, því að hvað eftir annað á síðustu mánuðum hefur því verið hreyft í blöðum, að stöðva yrði þá notkun unglinga á reiðhjólum með hjálparvél, sem mjög hefur farið í vöxt að undanförnu. En samkv. þeim reglum, sem um þetta giltu, þá hafði áður verið úrskurðað, að slík farartæki skyldu ekki teljast til bifreiða, og því hafði hvorki ráðuneytið né lögreglan heimild til þess að skerast í þetta mál. Að vísu hefði verið hugsanlegt að breyta fyrirmælunum um það, hvað til bifreiða skyldi teljast, með einföldum úrskurði, en þá var hins vegar orðið greinilegt, að í óefni var stefnt, því að hin almennu ákvæði laganna um bifreiðar eiga ekki nema að litlu leyti við um þessi farartæki. Það varð því að ráði að láta afgreiðslu málsins bíða og bera fram um þetta sérstakt frv., sem fer í þá átt að setja aldurstakmark, 15 ár, um það, hvenær menn megi aka á þessum farartækjum, og að þeir þurfi að hafa til þess samþykki lögreglustjóra. Er þá gert ráð fyrir því, að það samþykki verði ekki veitt fyrr en hann hefur kynnt sér eða látið kynna sér, að þeir, sem um leyfið sækja, hafi hæfilega þekkingu. Það er hins vegar ekki ráðgert, að kennslu verði komið upp um notkun farartækjanna, það er talið, að það sé svo einfalt, að ef menn eru komnir til nokkurs aldurs og þroska á annað borð, þá geti þeir lært þetta af sjálfum sér, en ráðgert er, að hægt sé að vísa mönnum á sérstakar stöðvar, sem þeir geti æft sig á, meðan þeir eru að ná nauðsynlegri æfingu, áður en þeir ganga undir þessa skoðun hjá lögreglustjóranum, sem ráðgert er að eigi sér stað.

Það er enginn vafi á því, að þessi farartæki eru mörgum til hags, og ef þau eru notuð af mönnum, sem hafa til þess þroska og kunna með þau að fara, þá eru þau hættulítil. Hins vegar vitum við það allir, að það hefur farið í vöxt hér eins og raunar víðar, að börn og unglingar, sem ekki hafa næga varúð, eru mjög farin að nota þessi tæki, og verður að gjalda varhuga við því. Það hefur nokkuð verið stuðzt við reglur annars staðar, þegar þetta frv. var samið, en að öðru leyti reynt að fara eftir þeim staðháttum, sem hér eiga við.

Ég vil vekja athygli á því, að ráðgert er, að það þurfi að tryggja þessi farartæki gegn tjóni, er þau valdi öðrum, svipað og á sér stað um bifreiðar, en mér er tjáð, að tryggingargjaldið verði svo lítil upphæð á hverju ári, að það muni ekki verka til neinnar hindrunar út af fyrir sig. En um það atriði og önnur er ætlazt til að sett verði fyrirmæli í reglugerð, þegar þar að kemur.

Ég legg til, að frv. fari til 2. umr. og þeirrar n., sem við á. Ég hef ekkí athugað, hvort það er heldur samgmn. eða allshn.