03.03.1955
Neðri deild: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

5. mál, bifreiðalög

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað frv. það, sem hér liggur fyrir, og mælir hún með því, að það verði samþ. með þeim breytingum, sem á þskj. 397 greinir.

Frv., sem er stjórnarfrv., setur ákvæði um meðferð vélknúinna reiðhjóla, svo framarlega sem hestaflatala þeirra fer ekki fram úr einu hestafli, strokkrúmmál þeirra er ekki yfir 50 eins og þau eru ekki yfir 50 kg að þyngd. Hjól, sem hafa stærri aflvél en þau, sem þannig eru útbúin, eru nefnd bifhjól og falla undir eldri ákvæði bifreiðalaganna.

Eins og í atbs. við lagafrv. segir, hefur notkun þessara reiðhjóla færzt mjög í vöxt upp á síðkastið og mikill fjöldi þeirra verið fluttur inn, en eins og í grg. segir, þá hefur reyndin orðið sú, að þau hafa að miklum hluta lent í höndum barna og unglinga, sem yngri eru en svo, að forsvaranlegt sé, að þau fari með vélknúin farartæki í nokkurri mynd.

Allshn. hafa borizt umsagnir lögreglustjórans í Reykjavík og bæjarfógetans á Akureyri um frv þetta, og leggja þeir báðir til. að það verði samþykkt.

Brtt. þær, sem n. hefur gert við frv., eru ekki stórvægilegar. Lagt er til í brtt. n., að sá, sem snýr sér til lögreglustjóra í þeim tilgangi að afla sér heimildar til að aka reiðhjóli með hjálparvél, leggi fram vottorð bifreiðaeftirlitsmanns um, að hann hafi næga aksturskunnáttu og þekki umferðarreglurnar, en þar sem slíks vottorðs verður ekki aflað vegna fjarlægðar eða annarra tálmana, þá leggur n. til, að lögreglustjórar, hver á sínum stað, útnefni menn til þess að prófa eða kanna aksturskunnáttu umsækjenda og hæfni þeirra til að aka slíkum reiðhjólum.

Þetta er eina brtt., sem n. flytur við frv., en hún er, eins og ég sagði áður, sammála um að mæla með því, að það verði samþ. Einn nm., hv. 4. landsk. þm. (GJóh), var að vísu fjarverandi, þegar frv. var endanlega afgr. í n., en hann hafði áður lýst sig fylgjandi frv. og þeim breytingum, sem allshn. hugðist gera á því.