18.03.1955
Neðri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

152. mál, stofnun happdrættis

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að Háskóli Íslands, sem hefur einkaleyfi til rekstrar happdrættis á Íslandi, fái leyfi til þess að fjölga miðum í happdrætti sínu úr 35 þús. í 40 þús. hluti.

Fyrir tveim árum, eða með lögum nr. 68 1953, var hlutum í happdrættinu fjölgað úr 30 þús. í 35 þús., en þegar á fyrsta starfsárinu eftir þá lagabreytingu seldust hin nýju númer nálega alveg upp, og salan jókst enn í byrjun s.l. árs. Til dæmis má geta þess, að í 1. flokki seldust rúml. 96% af öllum hlutum, og hefur salan aldrei frá byrjun starfsemi happdrættisins orðið jafnmikil og nú. Heilir og hálfir hlutir eru nú nær ófáanlegir. Þess vegna hefur stjórn happdrættisins talið nauðsynlegt að fara fram á heimild Alþ. til þess að mega fjölga miðunum enn úr 35 þús. upp í 40 þús., og um það fjallar þetta frv.

Í hv. Ed. var gerð formsbreyting á frv., þannig að þrjár síðustu lagabreytingar hafa verið felldar inn í lögin sjálf, en efnisbreyting er þar engin á ferðinni.

Hv. Ed. varð sammála um afgreiðslu málsins. Þannig fór einnig í hv. fjhn. þessarar d., n. var öll sammála um að mæla með samþykkt þess. Vænti ég því, að málið fái greiðan gang gegnum þessa hv. deild.