13.10.1954
Neðri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

28. mál, stofnun prófesorsembættis í læknadeild

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er gamall kunningi þingmanna, hefur verið fyrir, ja, það stendur hér í grg.: tveim undanförnum þingum, en mér er nær að halda, að það hafi legið fyrir oftar, en ekki náð fram að ganga.

Það hefur svo aukizt starf þess prófessors, sem nú kennir þessi fræði, að bæði hann og aðrir þeir, sem til þekkja, telja, að ekki nái neinni átt, að hann geti framvegis annazt þá kennslu. Er því lögð mjög rík áherzla á af honum og forráðamönnum háskólans, að þetta frv. nái fram að ganga. Að vísu var um tíma nokkurt ósamkomulag varðandi starfrækslu þeirrar rannsóknarstofu, sem hér er getið um í frv. Nú er komið fullt samkomulag innan háskólans um, hvernig þeirri starfrækslu skuli fyrir komið, og stendur það því ekki lengur í vegi fyrir samþykkt frv.

Það er svipað með þetta frv. og stýrimannaskólafrumvarpið, er ég lagði fram hér áðan, að það er nauðsynlegt að afgreiða málið sem fyrst, til þess að hægt sé að útvega hæfan mann til að undirbúa sig undir starfið. Eins og sakir standa er talið, að enginn fróður maður sé fyrir hendi til þess að taka þetta að sér og að enginn muni fást til að leggja sérstaka stund á þetta, nema hann eigi nokkuð víst að fá starf að því sérfræðinámi loknu, og talið er, að það nám muni standa árum saman. Það er því heppilegt, að málið fái afgreiðslu sem fyrst, til þess að hægt sé að snúa sér að því að útvega einhvern hæfan mann til að taka að sér það langvinna nám til viðbótar læknisfræðinni, sem hér er um að ræða.

Ég legg til, að málið gangi til 2. umr. og hv. menntmn.