22.03.1955
Efri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

28. mál, stofnun prófesorsembættis í læknadeild

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur að efni til verið allloft áður fyrir hv. Alþ., m.a. þessari hv. deild, og frv. hefur nú legið langan tíma á þessu þingi í Nd. Frv. var í nokkuð öðru formi, þegar það var borið fram í fyrstu, bæði einkennileg ákvæði um gildistöku þess og eins um, að þessi nýi kennari átti um leið að vera forstöðumaður sérstakrar rannsóknarstofu, sem við háskólann starfar, eða stofnunar, en þessu hefur nú verið kippt burt og það eitt eftir að stofna það kennaraembætti, sem greinir í frv. Og að því er mér er tjáð, þá er fullt samkomulag um þetta við menn háskólans. Eins er það örugg till. þeirra, að af öllum störfum við háskólann sé nú nauðsynlegast að koma þessu í viðunandi horf, vegna þess að sá kennari, sem nú gegnir þessari kennslu, hefur svo mikið að gera, að honum er það til frambúðar ómögulegt. Af þessum sökum vonast ég til, að hv. deild afgreiði nú þetta mál, sem samkomulag var orðið um í Nd., og blandi ekki öðrum óskyldum eða skyldum atriðum inn í það, svo sem öðrum kennarastörfum við læknadeild háskólans, eins og stundum áður hefur komið fyrir í deildinni. Slíkt mundi verða til þess að fella málið eða torvelda framgang þess. Ef menn hafa áhuga á því að stofna fleiri embætti, þá er nauðsynlegt, að það sé gert með sérstökum frv., en því sé ekki blandað í þetta mál, sem ég þori að fullyrða, að er brýn nauðsyn að nái nú fram að ganga. — Ég vonast til, að málið gangi til 2. umr., og legg til, að því verði vísað til hv. menntmn. deildarinnar.