13.10.1954
Efri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

25. mál, læknaskipunarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Eins og menn vita af undanförnum þingum, þá hef ég haft ákaflega sterka tilhneigingu til þess að fækka heldur læknishéruðunum en fjölga þeim, en hafa aftur tvo lækna þar, sem sjúkrahús var.

Alþingi hefur haltrað á milli þessarar stefnu og hinnar að fjölga læknunum, potað fram einum og einum lækni hér og þar, en aldrei tekið hreina afstöðu til málsins. Á Alþingi í fyrra kom svo fram þáltill., sem samþykkt var og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa þriggja manna mþn. í heilbrigðismálum. Ráðherra skipar formann nefndarinnar. Verkefni n. eru:

1) Að gera tillögur um fjölda, stærð og staðsetningu sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila í landinu.

2) Að gera tillögur um almennar ráðstafanir til eflingar heilsuvernd og heilbrigði með þjóðinni.

N. skal ljúka störfum fyrir 1. okt. 1954. Læknum, hjúkrunarkonum, kennurum og öðrum, er að heilbrigðismálum vinna í þjónustu ríkisins, er skylt að veita n. upplýsingar, er henni mega að gagni koma í starfi hennar.“

Alþingi kaus síðan í þessa n. þá Kjartan J. Jóhannsson lækni og þm. Ísaf., Esra Pétursson lækni hér í Rvík og Alfreð Gíslason, líka lækni hér í Reykjavík. Nú á þessi n. að vera búin að starfa. Hún átti að skila áliti fyrir 1. okt. 1954. Ráðherrann á því að hafa þetta álit í höndunum og vita, hverjar till. hennar eru. Og mér finnst alveg sjálfsagt, þegar nú er lagt fyrir frv. að dálítið breyttri skipun á læknishéruðum landsins, að taka um leið til athugunar álit þessarar nefndar. Hvar vill hún hafa sjúkrahúsin, hvar þurfum við þess vegna að hafa tvo lækna í sambandi við sjúkrahúsin, hvar vill hún hafa það, sem kallað er hjúkrunarheimili, og hvernig eiga þau að tengjast við læknana, og annað þar að lútandi? Þetta allt saman verður að mynda eina samanhangandi keðju. Að fara núna að samþykkja lög um skipun læknishéraða út af fyrir sig og svo kannske seinna á þessu sama þingi, ef nál. og nýtt frv. kemur, að ákveða, hvar séu sjúkrahús, og svo þegar það er búið, þá að fara að ákveða, að þar séu tveir læknar, o.s.frv., það ætti að vera tóm óþarfaeyðsla á vinnu og kröftum. Þetta á að sameina allt saman í eitt. Það á að ákveða, um leið og læknaskipunin er ákveðin, hvar sjúkrahúsin komi og hvar við þurfum tvo lækna. Það er enginn vafi á því, að þegar komið er sjúkrahúsið á Blönduósi, sem verið er að reisa þar, þá þurfum við þar tvo lækna. Það er eins víst og tveir og tveir eru fjórir, að við þurfum þess. Og þannig er víðar. Þess vegna á þetta allt að takast í einni heild. Og ég vil vænta þess, að ráðherrann geti gefið þeirri nefnd, heilbr.- og félmn., sem fær þetta til meðferðar, tillögur þessarar nefndar, sem hún á að vera búin að skila núna fyrir nokkrum dögum, og ef hún er ekki búin að skila þeim, þá sé gengið eftir þeim, þær heimtaðar, svo að það sé hægt að sjá, hvað þeir leggja til og hvernig málið allt á að takast föstum tökum og læknaskipunin að verða afgreidd í sambandi við það í framtíðinni.