22.11.1954
Efri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

25. mál, læknaskipunarlög

Ingólfur Flygenring:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að blanda mér í mál þeirra 1. þm. Eyf. og þm. S-Þ. Ég vildi aðeins láta það koma fram, sem rætt var um aðeins á fundum heilbr.- og félmn., þegar frv. til læknaskipunarlaga lá fyrir. Það var einmitt í sambandi við þetta; það var talað um það þó nokkuð fram og aftur.

Það vita þeir, sem kunnugir eru, að þetta hérað er frekar lítið og með þeim minni. En það, sem er mestur baginn, er, að læknissetrið er á öfugum enda í sveitinni. En það er ekkert undarlegt, þó að svo sé, því að viða hér á landi hefur það verið þannig, að byggðin hefur færzt til, það hefur fjölgað á einum stað, það hefur jafnvel lagzt niður byggð, - menn hafa algerlega flutt í burtu úr héruðum, og það hefur fjölgað mjög í öðrum. En það er ómögulegt að fylgja svo fljótt eftir, að það sé hægt að flytja lækninn, setja upp ný læknissetur á nokkurra ára fresti; það er fjarri því. En annars kom það til mála, að eðlilegasta læknissetur í þessu héraði, sem um er að ræða, væri á Svalbarðsströnd, á Svalbarðseyri, því að það væri miðsvæðis, og væri heppilegast fyrir þá, sem læknis þyrftu að vitja, að fara þangað og þá þyrfti ekkert um Akureyri að ræða.

En eins og ég sagði, það er ekki svo auðgert allt í einu að fleygja einum læknisbústað og kaupa annan. En þetta er atriði, sem liggur fyrir að rannsaka, því að það virðist svo, að byggðin færist meira inn en út, og það eru því meiri líkur til þess, að nauðsyn verði fyrr en seinna að breyta þessu svo; ef hægt væri á hentugan hátt að fá máske læknisbústað á Svalbarðseyri, þá væri það því fyrr því betra. En ég skil ósköp vel það, sem hv. þm. S-Þ. sagði, að þeim þætti illt, íbúum í Grenivík, að missa sinn lækni, sem þeir hafa haft um alllangt skeið. Það má nú ekki líta of fast á það, en um leið þarf að undirbúa og athuga þetta mál. En það var ekki þess virði, að vert væri að stöðva framgang laga um læknaskipun út af þessu eina, því að það er viðar, sem þarf að stinga við fæti og athuga, en það tekur allt sinn tíma. Það, sem vakti fyrir n., var að koma þessum læknaskipunarlögum frá í sem mestri heild, þó að menn væru ekki að öllu sammála um ýmis atriði. En í þessu atriði virtist ekki vera hægt að ljúka þessu núna, svo að vel væri. En það er sannarlega þess virði, að það væri athugað, helzt fyrir næsta þing, hvort þetta væri gerlegt á ekki allt of dýran hátt, því að það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. tók fram, að héraðslæknir þeirra Eyfirðinga hefur sannarlega nóg á sinni könnu, enda liggur miklu verr við að fara inn fyrir fjörðinn og út með honum eða þá þvert yfir hann heldur en ef hann hefði byggðina alla hinum megin, sem hann á að stunda að mestu leyti. En bæði þetta og önnur héruð, sem heilbrmrh. er kunnugt um, þurfa athugunar við, hvort þarf að flytja læknisbústaðinn á hentugri stað en áður var.