25.11.1954
Efri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

25. mál, læknaskipunarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram rökstudda dagskrá um þetta mál og vildi leyfa mér að fara um hana nokkrum orðum, enda þótt mönnum sé skoðun mín kunn og gangur málsins líka.

Ég skal þá fyrst minna á það, að á Alþingi 1944 var rætt mikið um læknaskipun. Landlæknir átti þar frumkvæðið og vildi sameina í eitt frumvarp eldri ákvæði um læknaskipun og breyta henni að nokkru, og urðu um það harðar deilur, — „prinsip-deilur“ meðal þm. um málið. Annars vegar var landlæknir, sem stóð fyrir þeirri skoðun, að það ættu að koma föst, ákveðin sjúkrahús hér og þar um landið, það ætti að ákveða þeim stað og setja tvo lækna við þau. Í samræmi við það var frá hans rótum runnin till. um það að leggja niður Brekkuhérað í Norður-Múlasýslu og flytja lækninn þaðan að Egilsstöðum. Móti þessu voru ýmsir aðrir, þ. á m. þm. Str., sem lagði til, að tekið væri upp nýtt hérað, sem héti Borðeyrarhérað og átti að ná yfir Bæjarhrepp í Strandasýslu og hluta af Staðarhreppi í Vestur-Húnavatnssýslu. Þm. Snæf., nú orðinn borgarstjóri í Rvík, lagði til, að það væri búið til nýtt hérað, sem héti Suður-Snæfellsneshérað og næði yfir þrjá hreppa í Snæfellsnessýslu fyrir sunnan Kerlingarskarð. Þetta var gróflega , harðsótt af hendi þeirra manna, sem vildu halda uppi þessum tveimur stefnum, og endaði með því, að bæði þessi héruð, sem þm. Str. vildi fá inn, læknishérað Borðeyrar, og þm. Snæf. vildi fá inn, læknishérað Suður-Snæfellsnessýslu, voru samþykkt, en líka hitt, sem landlæknir vildi, að flytja lækninn frá Brekku og setja tvo lækna á Egilsstöðum, því að þar væri spítall. Ýmsir þm. höltruðu á milli þessara tveggja stefna og voru með hvoru tveggja.

Afleiðingin af þessu varð sú, að Haraldur Guðmundsson, núverandi 4. þm. Reykv., kom með þáltill., sem var samþ. á Alþingi 11. marz 1944 og hljóðaði svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa þriggja manna nefnd til þess að athuga, hverjar breytingar kunna að vera nauðsynlegar á skipun læknishéraða og þátttöku ríkissjóðs í kostnaði við byggingu og rekstur læknabústaða og sjúkraskýla svo og hverjar aðrar ráðstafanir væri nauðsynlegt að gera til þess að tryggja sveitahéruðunum sem bezta læknisþjónustu. Einn nefndarmanna skal skipaður samkvæmt tilnefningu heilbrigðis- og félagsmálanefnda Álþingis, annar samkv. tilnefningu Læknafélags Íslands og hinn þriðji án tilnefningar, og er hann formaður nefndarinnar. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Heilbrigðisnefndirnar kusu núverandi borgarstjóra í Rvík, Læknafélagið kaus Magnús Pétursson, þáverandi héraðslækni í Reykjavík, og ríkisstj. skipaði Vilmund Jónsson landlækni.

Seint á sama árinu var svo lagt fram frv. um breytingin á þessum nýju lögum frá Alþingi. Það fór fram á það, að Álafosshérað yrði stækkað og látið ná yfir þann hluta af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, sem lægi innan við Elliðaárnar. Það fór fram á það, að Borðeyrarhérað hið nýja, sem var sett inn í lögin sama árið, væri fellt út, og það fór fram á það, að ekki skyldi verða skipaður maður í Suður-Snæfellsneshéraðið, sem var skírt upp og kallað Staðarhérað, fyrr en ríkisstjórnin veitti embættið. Það skyldi bíða óveitt þangað til. Það hefur beðið síðan.

Um þetta leyti, seint á þessu árí, var borin fram fsp. frá mér, sem, með leyfi forseta, hljóðaði þannig:

„Hvað hefur ríkisstj. gert til að tryggja það, að læknar fáist í óveitt læknishéruð, og hvað líður starfi n. þeirrar, er skipuð var eftir þáltill.

Alþingis á þskj. 244 1944 um skipun læknishéraða og læknisþjónustu í sveitahéruðum?“ Ráðherrann svaraði aldrei.

Árið eftir er aftur borin fram fsp., þá af þm. Str. og mér, en ráðh. svaraði henni ekki að heldur.

Enn er hún borin fram, þá af mér. Ráðherrann svaraði henni ekki að heldur.

1949 er hún síðast borin fram af Gísla Jónssyni, og þá svarar þm. Vestm., sem þá var í ráðherrasæti, og sagðist ekki vita, hvenær nál. kæmi, hafði spurt n. og ekki fengið neitt svar. Hann gaf upplýsingar um, hvað n. kostaði, en vonaðist eftir, að það færi nú bráðum að koma svar frá hv. n. Síðan hefur ekki um það frétzt eða af því nál. spurzt.

Síðan hafa komið fram nokkrum sinnum brtt. við læknalögin, sem ég skal ekki rekja, en bara minna á það, að þegar þær hafa komið fram, þá hefur ævinlega, ýmist af mér eða stundum bæði af mér og þm. Barð., forseta þessarar deildar, verið óskað eftir að vita nánar um þessa n. og hvert álit þessarar n. væri. Það hefur aldrei fengizt. Svo skeður það í fyrra, að það er skipuð ný nefnd. Hún er ekki beint skipuð í læknamálið, en hún er skipuð samkv. till. frá hv. þm. Str., er hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að kjósa þriggja manna mþn. í heilbrigðismálum. Ráðherra skipar formann n. Verkefni nefndarinnar eru:

1) Að gera till. um fjölda, stærð og staðsetningu sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila í landinu. 2) Að gera till. um almennar ráðstafanir til eflingar heilsuvernd og heilbrigði með þjóðinni. Nefndin skal ljúka störfum fyrir 1. október.“ Þetta nál. hefur svo komið á þessu þingi, þó ekki fyrr en búið var að undirbúa og leggja fram þetta nýja læknafrv. í Ed., og hafði þess vegna við samningu þess ekkert tillit verið tekið til þess, sem þessi n. segir. En það, sem þessi n. segir, er nú ýmislegt og margt af því nokkuð skrýtið. Hún tekur það fram, að læknaskipunin hér á landi sé frá árinu 1899 í öllum aðalatriðum og læknishéruðin séu miðuð við það, að hægt sé að ná tiltölulega fljótt í lækninn af ríðandi manni. Hún heldur því fram, að læknarnir í sveitahéruðunum hafi svo lítið að gera, að þeir forpokist og verði ófærir í starfi sínu á fáum árum. Hún heldur því fram, að tillit til bættra samgangna hafi ekkert verið tekið, og hún bætir því svo við, að meiri hlutinn af læknunum í sveitum landsins sé landsómagar, sem sé fjarlægt að vinni fyrir sér. Þetta er hennar álit um ástandið eða skipulagið á læknamálunum í landinu. Og hún náttúrlega ræðir þarna heilbrigðismálin og hefur nú fundizt starf læknanna svo lítilmótlegt þar, að hún hefur ekki tekið það neitt verulega til greina og mælir ekkert um það, hvað þeir eigi að gera í sambandi við heilbrigðísmálin, ekki neitt. En hún slær því föstu, að læknaskipunin í landinu sé gersamlega óviðunandi, læknarnir séu svo margir, hafi svo lítið að gera, að þeir verði fljótt ómögulegir í sínu starfi, „doðni upp“, eins og nefndin orðar það, og þeir vinni ekki fyrir sér, þeir séu landsómagar. En til úrbóta gerir hún engar tillögur. Hún hefur kannske búizt við, að það mundu koma till. frá hinni nefndinni, sem alltaf hafi setið og ekki er tilkynnt um enn þá að sé búin að ljúka störfum.

Þegar svo þetta frv. kemur, þá lýsir frsm. n. því yfir hér í d., að það sé enginn tími til þess að athuga það sjónarmíð, sem ég hef haldið fram, að það þyrfti að gera sér grein fyrir, hvar við vildum hafa sjúkrahúsin, og þar yrðu að vera tveir læknar, og þegar við værum búnir að athuga það, þá gætum við aftur gert okkur grein fyrir, hvort við þyrftum að hafa lækni alveg ofan í sjúkrahúsunum, í 10–20 km fjarlægð frá sjúkrahúsunum, eftir vegum, sem daglega er haldið opnum fyrir mjólkurflutninga, eins og nú er. Hann gat ekki gert okkur grein fyrir því. Og hann lýsir yfir, að n. hafi ekki haft neinn tíma til þess að athuga þetta, þess vegna hafi hún ekki neitt viljað taka tillit til þessara sjónarmiða, sem ég taldi að þyrftu að koma hér fram.

Ég spurði svo forsetann við síðustu umræðu, hvenær þetta mál mundi koma fyrir aftur, og hann sagði, að það yrði í dag. Ég var svo byrjaður á að gera brtt. við þetta, hugsa mér, hvar sjúkrahúsin mundu koma, bæði þar sem þau væru núna og eins þar sem þau mundu koma í framtíðinni alveg ný, en ég sá, að það var eiginlega unnið fyrir gýg og a.m.k. ekki ástæða til þess, að ég einn væri að leggja vinnu í það, sem n. alls ekki treysti sér til að eiga við og hafði verið hummað fram af sér, bæði af n. frá 1944 og eins af nefndinni frá í ár, því að ég verð að telja það, að læknaskipunin og störf læknanna í landinu heyri alveg ákveðið undir heilbrigðismál og það hafi þess vegna verið að ganga fram hjá kannske aðalatriðinu í heilbrigðismálum landsins, hvernig læknaskipunin ætti að vera og hvernig menn ættu að geta átt aðgang að læknum. Að vísu segja þeir það, að landlæknir haldi lyfjum í landinu svo ódýrum með verðskránni, sem hann gefur út, að það sé ómögulegt fyrir lækni að standa við að selja þau fyrir það verð, tekjur lækna verði því of litlar. En hitt segja þeir ekki, hve miklar tekjur læknarnir telja fram, og eru þeir þó með tekjuhæstu mönnum víða í landinu og sumir með töluvert á þriðja hundrað þúsund. Það minnast þeir ekki á. En að lyfjaskráin sé of lág, læknarnir fái of lágt verð fyrir þau lyf, sem þeir selja, það nefna þeir í álitinu, án þess þó að taka fram, að þeir krefjist nú breytinga á því. Það gera þeir ekki.

Þegar ég sá mér ekki fært að koma með þær breytingar, sem mér þótti eðlilegar, a.m.k. ekki þannig upp byggðar, að ég vildi láta þær koma fram núna, þá tók ég það ráð að koma með þessa dagskrártill. Hún skýrir sig sjálf. Hún fer fram á það, að ríkisstj. sé falið að láta fyrir næsta reglulegt Alþingi rannsaka, hvar sé eðlilegt, að spítalar verði byggðir í landinu. Það á að liggja fyrir að nokkru leyti í þessu nál. frá í sumar, og að öðru leyti geri ég ráð fyrir, að ríkisstj, láti rannsaka það, ef þessi till. verður samþykkt. Í öðru lagi, hvernig rekstri sjúkrahúsanna verði komið fyrir og samrýmdur læknisþjónustu í nágrannahéruðunum í kringum sjúkrahúsin. Þetta er ákaflega mikilsvert atriði, því að það má öllum vera ljóst, og ég held, að það beri nú enginn á móti því, að það sé útilokað að hafa sjúkrahús með nokkru verulegu sjúkraplássi og nokkrum verulegum sjúkrarúmum, nema það séu tveir læknar við það. Og ef það eru tveir læknar við sjúkrahús svo og læknir, eins og ég sagði áðan, eins og sums staðar er núna, í svona 1030 km fjarlægð frá sjúkrahúsinu og á milli upphlaðin braut, sem haldið er daglega opinni vegna mjólkurflutninga, þá gefur það auga leið, að ekkí er þörf á þeim lækni. Sömuleiðis vil ég upplýsa það eða bæta því við, sem ég hef áður sagt, að ég tel, að t.d. eitt af þeim héruðum, sem nú eru tekin upp, Staðarhérað á Suður-Snæfellsnesi, sé algerlega óþarft. Það er daglega flutt þaðan mjólk til Borgarness, þar sem læknir býr, á hverjum einasta degi allt árið, nema það komi stórhríð, svo að það sé ómögulegt. (Dómsmrh.: Hvað er langt á milli?) Það er nokkuð langt á milli, en það eru daglegar ferðir og lítið svæði og fámennt, svo að það er alveg víst, að sá læknir, sem þar settist að, heyrði undir þá góðu lækna, sem n. segir að doðni niður í starfi sínu og verði óhæfir til að lækna, af því að það er ekki nóg að gera. Þá geri ég enn fremur ráð fyrir því, að samhliða því, sem þetta verði athugað, þá verði athugað, á hvern hátt eigi að skipta landinu í læknishéruð, og þá tekið fullt tillit til þeirra breyttu samgangna, sem orðið hafa í landinu, og í sambandi við það, hvernig fólkið hefur flutt sig til. Það var haldið í Hesteyrarlæknishérað, þangað til þar voru orðnir einir 78 menn. Það er víst enginn læknir þar nú að vísu, en það var látið vera áfram í lögum, þangað til mennirnir, sem hann átti að lækna, voru orðnir þetta margir. Og eftir að búið er að athuga þetta þrennt, þá komi málið aftur fyrir Alþingi á komandi hausti.

Þetta er það, sem felst í minni rökstuddu dagskrá, og ég sé ekki, að það yrði komið skynsemi í þetta á annan hátt. Það er auðsýnilegt, að verði frv. samþykkt, þá verður leiðin þessi: Það koma læknar í þessi héruð. Svo eftir eitt ár eða svo er kominn spítali. Þá kemur aukalæknir á Blönduós, af því að þar er kominn spítali. Eftir tvö, þrjú, fjögur ár er kominn spítali á Selfossi. Þá kemur læknir þar við hann, nýr læknir. Samtíða sitja hinir við hliðina á honum, kyrrir í sínum embættum. Og eina leiðin þess vegna til þess að geta komið í þetta skynsamlegu viti frá þeirra sjónarmiði, sem vilja hugsa eitthvað um heildina og sjá fram á það, að með þessu, sem nú er stefnt út í, verður bara áframhaldandi fjölgun á embættismönnum og útgjöldum, án þess að nokkur þörf sé á því, er að samþykkja mína rökstuddu dagskrá og athuga, hvort ríkisstj. getur ekki reynt að koma einhverju viti í það fyrir næsta þing.