25.11.1954
Efri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

25. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft málið til athugunar á milli umræðna. Það vaktist upp í n., að niður hefur fallið lítið atriði úr 2. gr., og vil ég fyrir hönd n. leggja fram skriflega brtt. til þess að kippa því í lag. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 2. gr. Á eftir 2. tölulið komi nýr töluliður, svo hljóðandi: Patreksfjarðarhérað: íbúar Hjarðarnesi í Barðastrandarhreppi til Flateyjar.“

Þetta er ekki veruleg efnisbreyting. Þetta skýrir sig sjálft, og fjölyrði ég ekki um það frekar, en mun biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir tillögunni.

Út af brtt. frá hv. 1. þm. N-M. um, að Loðmundarfjarðarhreppur færist milli héraða og tilheyri Seyðisfjarðarhéraði, skal ég taka það fram, að heilbr: og félmn. mælir með þessari brtt. Hér er um alveg hliðstætt atriði að ræða og færslu Barðastrandarhrepps og Svalbarðsstrandarhrepps.

Út af dagskrártill. frá sama hv. þm. vil ég segja þetta: Í framsögu gerði ég grein fyrir áliti n. og afstöðu hennar til frv. í heild. Ég vil fyrst og fremst vísa til þess, en þó árétta þetta: Frv. er ekki gerbreyting á læknaskipuninni. Það inniheldur kannske fyrst og fremst nauðsynlegar leiðréttingar, m.a. þá, er hagstofan fór fram á að gerð væri. Einnig felst í frv. að færa saman í ein lög þau ákvæði, er áður voru dreifð í mörgum stöðum. Það má segja, að þetta sé fyrst og fremst tilgangur frv., en auk þess felast svo í því ákvæði um myndun nýrra læknishéraða, eins og dm. hafa sjálfsagt gert sér ljóst. Heilbr.- og félmn. hefur litið svo á, að full þörf væri á þeim breyt., og hefur mælt með þeim.

Það má vel vera, — ég skal ekki bera á móti því, — að þörf sé ýtarlegrar endurskoðunar á læknaskipuninni í heild, og hef ég áður tekið það fram. En það er bara önnur saga. Og heilbr.- og félmn. telur ekki ástæðu til að láta þær lagfæringar, er í frv. felast, bíða eftir þeirri endurskoðun.

Ég segi þetta ekki sízt með hliðsjón af afköstum þeirra n., er skipaðar hafa verið til að vinna að þessum málum undanfarið. Þau hafa ekki verið slík, sýnist mér, að rétt sé að láta þær lagfæringar, sem um ræðir í þessu frv., bíða eftir ýtarlegri endurskoðun læknaskipuparlaganna.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál að sinni. Heilbr.- og félmn. mælir sem sagt gegn því, að dagskráin verði samþ., en leggur til, að frv. nái fram að ganga með þessum tveimur breytingum, er ég nú hef vikið að.