03.03.1955
Neðri deild: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

25. mál, læknaskipunarlög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Eins og nál. frá heilbr.- og félmn. sýnir, þá hafði n. kosið sér frsm. í þessu máli, hv. 2. þm. Rang. (HelgJ), en hann hefur verið fjarverandi nokkra daga sökum lasleika og getur af þeim ástæðum ekki komið á þennan fund, svo að ég vil leyfa mér í forföllum hans að gera með örfáum orðum grein fyrir afstöðu n. til málsins.

Með frv. þessu, sem er flutt af hæstv. ríkisstj. og undirbúið af landlækni, er stefnt að því að færa í eina heild ákvæði læknaskipunarlaganna, en á þeirri löggjöf hafa verið gerðar nokkrar breytingar á undanförnum árum.

Segja má, að í þessu efni hafi komið fram aðallega tvær stefnur: önnur sú, að læknishéruðin ættu að vera stór og að tveir eða jafnvel fleiri læknar störfuðu saman, þar sem greiðar eru samgöngur og í stórum héruðum; hin stefnan hefur verið sú að skipta læknishéruðum, eftir því sem kaupstaðir hafa stækkað og fjölmenni aukizt, og miðað við það, að einn læknir væri starfandi í hverju héraði.

Í þessu frv. er engin stórvægileg breyting gerð á þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið að undanförnu í þessum efnum. Eins og ég tók fram, þá er það megintilgangur frv. að fella í eina heild þau ákvæði, sem samþ. hafa verið að undanförnu um skipun læknishéraða. Áður hafa t.d. verið sett sérstök lög um Höfðahérað í Húnavatnssýslu, og á þingi í fyrra var enn fremur ákveðið að skipta Egilsstaðahéraði, svo að þar sætu tveir læknar á sama stað. Þessar breytingar eru felldar inn í frv., sem hér liggur fyrir.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir því að fella niður tvö héruð, sem áður hafa staðið í lögum þ.e. Hesteyrarhérað, sem hefur ekki verið skipað nú um sinn vegna fámennis þar í byggðarlaginu, og Borðeyrarhérað, sem lögfest var fyrir nokkrum árum, en hefur aldrei verið skipað.

Það lagaákvæði hefur aldrei verið framkvæmt, og nú er gert ráð fyrir að fella það niður.

Á hinn bóginn er gert ráð fyrir því, að Hvolshéraði, þ.e.a.s. Rangárvallasýslu, verði eftirleiðis skipt í tvö héruð. Eins og frv. er, þá á það að vera Hvolshérað og Helluhérað. Og enn fremur er gert ráð fyrir því, að Kópavogshreppur, sem er orðinn fjölmenn byggð, eins og kunnugt er, verði sérstakt læknishérað með læknissetri í Kópavogi.

Á nokkrum stöðum á landinu hefur hagað svo til, að hreppar hafa skipzt á milli læknishéraða, en í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að sú breyting verði gerð, að hreppar í heild fylgi einu og sama læknishéraði, en það geti ekki átt sér stað, að hreppshluti teljist til annars læknishéraðs en meginhluti hreppsins. Þessi breyting er gerð ekki sízt vegna eindreginna óska frá hagstofunni, og stendur það í sambandi við skýrslugerðir og þá spjaldskrá, sem hagstofan vinnur að og á að veita stuðning um skýrslugerðir á ýmsum sviðum, bæði gagnvart læknisþjónustunni og í fleiri greinum. En til þess að íbúar þeirra hreppshluta, sem hér eru aðilar að, njóti ekki óhagræðis af þessari breytingu, þá fjallar 2. gr. frv. um það, að þeir hreppshlutar, sem þannig er ástatt um, eigi jöfnum höndum tilkall til læknisþjónustu úr nágrannalæknishéraði.

N. hefur fallizt á að mæla með frv., en einstakir nm. hafa þó áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. eða greiða atkvæði með brtt., sem fram kæmu. En n. ber fram á þskj. 391 tvær brtt., sem ekki raska efni frv. á neinn hátt. Önnur er sú að bæta ákvæði við 2. gr., þar sem miðað er að því að gera það ótvírætt, að þeir íbúar, sem þurfa að sækja læknisþjónustu til annars læknishéraðs en þess, sem þeir eru taldir til, eigi forgangsrétt til þjónustu af hendi þess héraðslæknis, sem greiðast er að ná til hverju sinni. Hin brtt., sem n. flytur, er við 12. gr. og fjallar um gildistöku frv., þannig að lögin öðlist gildi 1. janúar 1956, í stað þess að í frv. er gert ráð fyrir, að gildistakan hefði orðið 1. janúar 1955 en að dómi þeirra manna, sem framkvæmd hafa á hendi í þessu efni, er það að miklum mun eðlilegra og auðveldara í framkvæmd, að lögin taki gildi um áramót.

Ég sé, að fram eru komnar nokkrar brtt. við frv. frá einstökum þm. Það er brtt. á þskj. 239 frá hv. þm. V-Ísf. (EirÞ) og brtt. á þskj. 409 frá hv. 1. þm. S-M. (EystJ), enn fremur brtt. á þskj. 414 frá hv. 7. þm. Reykv. (GTh), og loks hefur verið útbýtt nú í dag, rétt áður en þessi fundur hófst, brtt. á þskj. 426 frá hv. 2. þm. Rang. (HelgJ).

Ég vildi nú mælast til þess og beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. forseta, að hann vildi fresta þessari umr., þ.e.a.s. ljúka henni ekki, heldur gefa heilbr.- og félmn. tækifæri til þess að athuga þessar till., sem fram eru komnar, á fundi, áður en þær koma undir atkvæði eftir þessa umr., og enn fremur vil ég geta þess, að ein af þessum brtt. er flutt af hv. 2. þm. Rang. (HelgJ), sem er forfallaður nú sökum lasleika, en óskar þess mjög að geta mælt fyrir þessari brtt., áður en 2. umr. lýkur.