03.03.1955
Neðri deild: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

25. mál, læknaskipunarlög

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég á brtt. á þskj. 409, sem ég mun skýra með fáeinum orðum.

Búðahérað er núna Fáskrúðsfjarðarhreppur, að undantekinni suðurbyggð Reyðarfjarðar, Búðahreppur og Stöðvarhreppur, og læknissetrið er að Búðum. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að breyta þannig til, að Búðahérað verði Fáskrúðsfjarðarhreppur allur, Búðahreppur og Stöðvarhreppur. Þetta er ekki hentugt; þvert á móti afar óhentugt, vegna þess að hluti af Fáskrúðsfjarðarhreppi, sem liggur sunnan Reyðarfjarðar, er gersamlega slitinn frá öðrum byggðum Fáskrúðsfjarðarhrepps, og er þar örðugur fjallgarður á milli. Það mundi því ekki geta komið til mála að ætla læknisþjónustu í þann hluta hreppsins frá Búðum, heldur verður sú læknisþjónusta að koma frá Eskifirði, enda er þessi hluti hreppsins nú hluti af Eskifjarðarhéraði.

Það er aðeins ein ástæða færð fyrir því að breyta þessu, og hún er sú, að það sé hentugra vegna heilbrigðisskýrslna að hafa ævinlega hreppana óklofna í sama læknishéraði. Mér finnst, að það hljóti jafnan að ráða læknaskipuninni, hvað hentugast er fyrir fólkið og eðlilegast vegna læknisþjónustunnar, en svo megi haga skýrslugerðinni samt sem áður þannig, að heilbrigðisskýrslur fyrir þennan hluta Fáskrúðsfjarðarhrepps, sem yrði þá áfram í Eskifjarðarlæknishéraði, yrðu sameinaðar heilbrigðisskýrslum úr Búðalæknishéraði, og þetta hlýtur að vera afar auðvelt. Áð vísu er þannig til orða tekið í frv., að þar sem svona stendur á, eigi íbúarnir í þeim hluta Fáskrúðsfjarðarhrepps, sem á nú að færa inn í Búðalæknishérað, að hafa að jöfnu tilkall til læknisþjónustu úr báðum læknishéruðunum. Það er ákvæði um þetta í frv. En samt sem áður óttast ég, að þetta valdi ruglingi, og íbúarnir eru ekki alveg geiglausir um það á þessu svæði, að ef þeir eru komnir yfir í Búðalæknishérað og búið að flytja þá úr Eskifjarðarlæknishéraði, þá verði það ekki talið jafneðlilegt og sjálfsagt fyrir Eskifjarðarlækni að sinna öllum þeirra læknisstörfum eins og verið hefur.

Mér finnst þess vegna, að það sé hægt að fara þessa millileið, sem hér er stungið upp á, að lofa þessu læknishéraði að haldast eins og það hefur verið, en ákveða, að skýrslurnar, sem snerta læknisþjónustuna í suðurhluta Reyðarfjarðar, skuli sendar héraðslækninum í Búðahéraði og sameinaðar skýrslum úr þeim hreppi.

Ég vildi því vonast til þess, að hv. þingdeild og hv. n. gætu fallizt á að samþykkja þessa breytingu.