18.03.1955
Neðri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

25. mál, læknaskipunarlög

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég flutti hér við 2. umr. brtt., sem er á þskj. 409, en tók hana aftur þá til 3. umr. Nú ætla ég að leyfa mér að flytja þessa brtt., en þó dálítið breytta, og flytja hana þá sem skriflega brtt.

Efni till. er það, að Eskifjarðarlæknishérað fái að halda sér áfram eins og það hefur verið; því verði ekki breytt. En svo stendur á, að nokkur hluti Fáskrúðsfjarðarhrepps heyrir nú til Eskifjarðarlæknishéraði. Það er tvímælalaust eðlilegt, að þessi hluti Fáskrúðsfjarðarhrepps heyri til Eskifjarðarlæknishéraði, og ber í raun og veru enginn á móti því. Á hinn bóginn er sagt, að það sé þægilegra til skýrslugerða, að læknishéruð skiptist hreinlega eftir hreppum. Og í frv. er svo sett ákvæði um það, að íbúar vissra byggðarlaga, sem nú eru færð til eingöngu af þessum svokölluðu skýrsluástæðum, hafi rétt til þess að leita til héraðslækna beggja héraðanna, bæði þess héraðs, sem þeir áður hafa verið í, og eins þess héraðs, sem þeir nú eiga að heyra til framvegis eftir frumvarpinu.

Segja má, að þetta sé mjög mikil bót. En þó er það nú þannig, að hér kemur fleira til. Ég veit það, að íbúar í þessum hreppshluta, sem hér á hlut að máli, óttast nokkuð, að þeim verði smám saman ýtt yfir í það að fá sína læknisþjónustu frá Fáskrúðsfjarðarhéraði, þó að það sé þeim óhentugra. T.d. þegar til kæmi að byggja sjúkraskýli, þá mundu þeir endilega vilja vera með Eskifjarðarhéraði um sjúkraskýli, en ekki Fáskrúðsfjarðarhéraði, en það mundi verða nokkuð óþægilegt að koma því við, ef þessari skipan yrði breytt og þeir færðir yfir í Fáskrúðsfjarðarhérað.

Ég býst við því, að það standi ekki viða á eins og stendur á þarna í þessu tilliti, og það mundi náttúrlega alls ekki raska skýrslugerð að neinu ráði, þó að þessi undantekning væri höfð á læknaskipuninni, sem hér er farið fram á, en á hinn bóginn mundi það verða á allan hátt eðlilegra, að þetta gæti staðið eins og það hefur verið.

Þegar ég flutti till. við 2. umr., var hún í tveimur töluliðum, og annar töluliðurinn hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Skýrslur, er snerta læknisþjónustu í suðurbyggð Reyðarfjarðar, skulu sendar héraðslækninum í Búðahéraði og sameinaðar skýrslum úr hlutaðeigandi hreppi.“

Nú hef ég komizt að raun um við athugun á málinu, að þessi till. hefur ekki þýðingu. Það eru ekki þessar skýrslur, skýrslur um læknisþjónustuna, sem teknar eru úr þeim vélum, sem hagstofan starfar með, heldur eru það aðrar skýrslur varðandi læknishéruðin, sem koma úr þeim vélum. Þess vegna felli ég þetta úr brtt. eins og ég leyfi mér að flytja hana nú skriflega. Þær skýrslur, sem teknar eru af hagstofunni úr vélum hennar, eru skýrslur um mannfjölda í læknishéruðunum, skýrslur um dána og fædda og önnur þess konar atriði, en ekki þessar skýrslur, sem ég minntist á í 2. lið brtt. eins og hún var við 2. umr.