18.03.1955
Neðri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

25. mál, læknaskipunarlög

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er rétt hjá 1. landsk. þm., að hagstofan mun hafa haft samvinnu við landlæknisembættið og heilbrmrn. um það að breyta læknaskipuninni þannig, að alls staðar færi eftir hreppaskiptum, til þess að það væri þægilegra fyrir hagstofuna að vinna úr stóru vélinni, sem stundum hefur borizt í tal á hv. Alþingi, skýrslur fyrir læknishéruðin. Og eftir því sem ég hef getað skilið málið, eru þær skýrslur, sem unnar eru úr þessari vél fyrir læknishéruðin, skýrslur t.d. um það, hvað margir menn eru í hverju læknishéraði, hvað margir menn fæðast í hverju læknishéraði og hvað margir menn falla frá í hverju læknishéraði; fyrst og fremst þetta. Hvort það er svo hægt að ganga lengra og fá út úr vélinni einhverjar frekari skýrslur, er mér ekki fullljóst. Af þessum ástæðum hefur hagstofnstjóri viljað reyna að fá læknishéruðunum breytt þannig, að þau færu alveg eftir hreppum.

Ég hef hina mestu samúð með þessu sjónarmiði hagstofustjóra og vil gjarnan, að skýrslugerð sé einföld. En samt sem áður finnst mér, að þá sé það svo lítið atriði, þó að þurfi að gá sérstaklega að hreyfingum á mannfjölda á tíu eða tólf heimilum, að mér finnst ekki hægt út af því að valda mönnum óþægindum um skipun læknishéraðs. Og það er frá þessu sjónarmiði, sem ég hef flutt þessa till. Ég skal taka það fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að þessi breyting, sem ég gerði á till., gerir till. vafalaust ekkert aðgengilegri í augum hagstofustjóra heldur en áður. Hans afstaða er vafalaust alveg óbreytt.