18.03.1955
Neðri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

25. mál, læknaskipunarlög

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það kom greinilega fram í svari hæstv. fjmrh., að hagstofustjórinn telur þessa breytingu, sem hann leggur til að gerð verði á læknaskipunarlögunum, sér og sinni stofnun til óþurftar, þ.e.a.s., að það mundi torvelda honum og hans stofnun það verk, sem hún er að vinna að, sem sagt að hagnýta stóru vélina, sem fjmrh. nefndi svo, á sem hagkvæmastan hátt í þágu bæði mannfjöldaskýrslugerðarinnar allrar saman og svo e.t.v. í framtiðinni einnig í þágu heilbrigðisskýrslugerðarinnar. Með tilliti til þessa mun ég greiða atkv. gegn þessari brtt., vegna þess að ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að ég tel eðlilegt, að í framkvæmdaratriðum eins og þessum sé sjónarmið hagstofustjórans fyrst og fremst látið ráða og það, hvað sé hentugast í skýrslugerðinni.