25.03.1955
Efri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

25. mál, læknaskipunarlög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er að vísu óþarfi fyrir mig að skýra brtt. þá, sem komin er fram frá n. og hér er til umræðu, enda hefur hv. frsm., 2. þm. S–M., ekki séð ástæðu til þess að gera sérstaka grein fyrir henni við þessa umr., því að brtt. er svo auðsæ. En ég vil hins vegar út af ræðu hæstv. ráðh. segja hér nokkur orð.

Ef þau rök, sem hæstv. ráðh. ber fram til stuðnings sínu máli, eiga að gilda fyrir það fólk, sem býr á því svæði, sem hér um ræðir, þá eiga þau einnig að gilda um alla þá íbúa, sem búa á þeim 18 stöðum, sem um ræðir í 2. gr. Það er ekki hægt að gera hér neitt upp á milli. Þessi sömu rök eiga við hvert eitt einasta af þeim læknishéruðum, sem tekin eru upp í 18 liðum í 2. gr. frv. Þessi atriði öll voru gaumgæfilega athuguð og rædd í upphafi, þegar málið lá fyrir þessari hv. d. Þessi ákvæði, sem voru í frv. frá upphafi, voru einmitt sett inn vegna ákveðinnar óskar frá hagstofustjóra, sem lagði megináherzlu á, að hvergi væri hreppi skipt, þegar takmarkað væri læknishérað, heldur yrðu hrepparnir látnir halda sér óskiptir í hinu ákveðna héraði, vegna þess að þá væri miklu hægara og kostnaðarminna fyrir hagstofuna að gera skýrslur þær, sem henni væri falið að annast í sambandi við heilbrigðismálin, og það væri stórkostleg fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð og fyrir hagstofuna, að þessu yrði þannig komið fyrir. Þess vegna finnst mér sitja illa á sjálfum hæstv. fjmrh., sem er yfirmaður þessarar stofnunar, að hann einn af öllum hv. þm. skuli nú rísa upp og krefjast þess að hafa einhver sérréttindi í þessu máli fyrir sig og sitt kjördæmi. (Fjmrh.: Það getur kostað 30 kr. á ári.) Vill ekki hæstv. ráðh. bíða, þar til hann talar hér, og ekki vera að grípa fram í? — Ég skil satt að segja ekki afstöðu hæstv. ráðh. í þessu máli. Hann, sem er yfirmaður þessarar stofnunar, hefur gert kröfu um það til annarra hv. þm., að þeir fallist á, að þessu skuli þannig komið fyrir, svo að hann sem fjmrh. geti komizt af með að greiða minna fé úr ríkissjóði, eins og honum ber skylda til. En þegar hann svo er búinn að fá aðra hv. þm. til þess að fallast á þetta, þá rís hann sjálfur upp og krefst þess, að hann fáí annan og miklu meiri rétt fyrir sig og sitt umdæmi. Ef það væru nokkur heilbrigð rök fyrir þessum málflutningi hjá hæstv. ráðh., þá ætti hann að krefjast þess, að þessi tilhögun, sem gilda skal um þetta eina hérað, gilti einnig um öll þau 18 héruð, sem um er rætt í 2. gr. frv. Þá væri a.m.k. samræmi í afgreiðslu málsins.

Hér er ekki um annað að ræða en að láta sömu lög og sama rétt ganga yfir íbúa allra héraða, hvar sem þau eru á landinu og hver sem er fulltrúi þeirra, hvort sem fulltrúi þeirra er framsóknarmaður eða af einhverjum öðrum flokki, hvort sem hann er ráðherra eða aðeins þm. án ráðherratignar. Og samþingismaður hæstv. fjmrh., 2. þm. S–M., hefur haft á þessu fullan skilning. Hann hefði sannarlega óskað eftír því, að umbjóðendur hans fengju að hafa þann rétt, sem þeir höfðu áður, og hann sótti það mjög fast í n. En hann beygði sig fyrir þeim rökum, sem fram komu, þeim sömu rökum sem hæstv. ráðh. vill ekki beygja sig fyrir. Þess vegna legg ég til, að aðaltill., eins og hún er í þskj., verði samþykkt til þess m.a. að rjúfa ekki það samkomulag, sem gert var meðal allra þm., að undanskildum hæstv. fjmrh., um að koma á því kerfi, sem hagstofan óskaði eftir, og spara ríkissjóði allmikla upphæð án þess að skerða læknaþjónustuna í héruðunum og leyfa þar engan útúrborungshátt á einn eða annan hátt.

Þegar við svo komum að hinu, að það sé verið að veikja öryggi þessara manna, sem í héraðinu búa, þá er það byggt á hreinum misskilningi. Ef nokkuð mætti segja um það, þá er verið að tryggja öryggi þeirra, en ekki veikja það. Og það var þess vegna, að við, sem áttum að gæta hagsmuna ýmissa manna úti á landsbyggðinni, féllumst á þessa breytingu, að þessir menn eiga fullkominn rétt á að sækja lækni: í fyrsta lagi í það hérað, sem þeim er skipað í, og auk þess í annað hérað, og fá þeir þar með tvöfaldan rétt til læknisþjónustu. En það er þessi tvöfaldi réttur, sem hæstv. ráðh. vill taka af sínum umbjóðendum, líklega af því, að hann hefur ekki skilið kjarna málsins eða einhverjir ágætir fylgismenn hans þar eystra hafa óskað mjög eftir því, að hann berðist fyrir þessu máli.

Í Barðastrandarsýslu er m.a. með þessu ákvæði tekinn hluti af Barðastrandarhreppi undan Flateyjarhéraði, sem er langsamlega minnsta héraðið í landinu og mátti sannarlega ekkert við því, að það væri skert á nokkurn hátt. Það hefur verið nægilega erfitt að fá lækni í þetta hérað, þó að það væri ekki verið að skerða það. En það var gert að sameiginlegu ráði landlæknis og hagstofunnar. Þessi hluti hreppsins, þ.e. Hjarðarnesið, með þeim íbúum, sem þar búa, er færður frá Flateyjarhéraði og settur undir Patreksfjörð. Um leið er íbúunum gefinn réttur til þess að sækja lækni áfram til Flateyjar, eins og þeir höfðu áður gert, auk þess að eiga rétt til að mega sækja lækni til Patreksfjarðar.

Ég hef hér sýnt fram á, að það er ástæðulaust að ætla sér að fara að breyta þessu ákvæði nú og taka upp aðra reglu fyrir eitt ákveðið hérað, og vænti, að hv. deild fallist á þá skoðun. (Gripið fram í.) Það er ekki blekking, að það sé kallað læknishérað, það er síður en svo. Læknishéruðin halda sér eins og ákveðið er 3 lögunum, og íbúarnir hafa sömu skyldur í sambandi við byggingu sjúkraskýla og sjúkrahúsa og íbúar þeirra héraða, sem samkvæmt þessum lögum hafa aðeins rétt til þjónustu frá einum héraðslækni, þótt þeir hafi hins vegar rétt til þess að mega sækja lækni einnig til annarra héraða. Það er hér ekki um neina blekkingu að ræða. Það er síður en svo. Það er fyrst blekking, ef það á að fara að gera þessa undanþágu fyrir eitthvert ákveðið hérað, en halda hinni stefnunni fyrir þau 17 héruð önnur, þar sem þessi regla á að gilda samkv. 2. gr. frv.

Ef hins vegar felld er aðaltillaga n., er samt sem áður nauðsynlegt að samþykkja varatill., vegna þess að þá er ekki hægt að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir. Það væri svo mikil fjarstæða að láta þá 14. töluliðinn standa í 2. gr. frv., ef ekki er breytt orðalagi 40. og 41. töluliðar, og það var m. a. þess vegna, sem þessum umræðum var frestað hér í þessari hv. deild, að það var engan veginn hægt að láta frv. verða að lögum með því orðalagi, sem er í 2. gr. Þess vegna er nauðsynlegt að samþ. varatill.. ef aðaltill. verður felld.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta nánar, en það er sýnilegt, að með ósk hæstv. ráðh. eiga hér að gilda einhver önnur lög fyrir hans kjósendur en fyrir kjósendur almennt í landinu.