25.03.1955
Efri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

25. mál, læknaskipunarlög

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins fáein orð. — Hv. þm. Barð. sagði, að ég hefði krafizt þess af öðrum, að þeir féllust á, að læknishéruðum yrði skipað niður eftir hreppaskipaninni. Þetta er alveg úr lausn lofti gripið. Ég hef ekkert komið nærri undirbúningi þessa máls og á engan mann skorað að fallast á slíkt. Þetta er alger misskilningur hjá hv. þm.

Hv. þm. segir, að ef það væri fallizt á þá skipan, sem nú er í frv. um þetta læknishérað. Eskifjarðarlæknishérað, þá mundi það kosta stórfé. Ég get ekki gert áætlun um það. Ég get nú ekki hugsað mér, að það kosti meira en 2030 kr. á ári eða um það bil að gá að því, hvaða breytingar hafi orðið á mannfjölda á þessum heimilum, sem hér eiga hlut að máli.

Hv. þm. segir, að það gildi nákvæmlega sama um 18 læknishéruð. Um það get ég ekki dæmt, og um það getur hann áreiðanlega ekki heldur dæmt. Hann er ekki svo kunnugur staðháttum, að hann geti fullyrt um það, að það sé nákvæmlega eins ástatt um þetta hérað, sem ég var að lýsa áðan, og um ýmsar aðrar sveitir eða hreppshluta, sem þetta frv. snertir. Ég held þess vegna, að það sé ekki hægt að fullyrða neitt um þetta. Hitt veit ég, að það er eðlilegra, að þessi hreppshluti tilheyri áfram sama læknishéraði og verið hefur, og þess vegna hef ég leyft mér að leggja það til og fengið það samþ. í Nd. og vonast eftir, að hv. d. fallist á að láta það standa.