23.03.1955
Sameinað þing: 48. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

119. mál, fjáraukalög 1952

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Fjvn. fól mér að hafa framsögu í sambandi við nál. hennar á þskj. 469, sem er um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1952.

Ég tel óþarft að hafa þessa framsögu langa. Samkvæmt 41. og 42. gr. stjórnarskrárinnar eru fjáraukalög samin og lögð fyrir Sþ. Hins vegar eru ríkisreikningarnir lagðir fyrir deildir Alþ. til samþykktar. Augljóst er, að þegar ákvæðin um fjáraukalög urðu til, hefur verið gengið út frá því, að hægt væri að afgreiða þau með þeim hætti, að fjárveitingar yrðu að mestu samhliða eða áður en l. væru afgreidd. Nú er hraði framkvæmda orðinn svo mikill, að þetta er ekki hægt og fjáraukalög eru ekki til umr. á Alþ. fyrr en árum eftir að greiðslur fjáraukalaganna eru um garð gengnar og fár minnist þeirra lengur frekar en étins matar eða slitinna klæða. Hins vegar liggur þá ríkisreikningurinn fyrir deildum Alþ., sundurliðaður og þannig upp settur, að skýrt kemur þar fram við hvern lið, hvað hann hefur átt að vera hár samkvæmt fjárlögum. Með athugun reikningsins fæst bæði greinilegt yfirlit um umframeyðslu og einnig sést þar, ef sparnaður hefur orðið á einhverjum lið. Aukafjárlaga virðist því í raun og veru ekki þörf eins og nú er komið nema til þess að fullnægja gömlu formi, sem stjórnarskráin fyrirskipar. Komast mætti af með afgreiðslu ríkisreikningsins, eins og hann er upp settur og út gefinn. Kemur það til athugunar, ef stjórnarskráin verður einhvern tíma endurskoðuð og henni breytt, að athuga ákvæði hennar um fjáraukalögin, en meðan ákvæðin standa, ber auðvitað að fylgja þeim. Aftur á móti verður af framangreindum ástæðum spursmál, hve fjáraukalögin eiga að vera ýtarlega sundurliðuð, hve mikið verk á að leggja í að taka upp í þau smærri atriði til skilgreiningar.

Um það frv. til fjáraukalaga, sem hér er til umræðu, er það að segja, að eins og oftast mun hafa verið í seinni tíð, þá er útgjaldahækkunin, sem orðið hefur frá fjárlögunum á hverri aðalgrein fjárlaganna, færð inn á fjáraukalögin samkvæmt frv. í heildarniðurstöðum hverrar greinar. Og því er með fjáraukalögunum leitað útgjaldaheimildar fyrir heildarhækkun greinanna í einni tölu, en ekki sundurliðað fyrir hvern lið innan greinar, eða sýnt, á hverjum kann að hafa orðið lækkun frá fjárlögum og sú lækkun þá dregin frá heildarhækkun greinarinnar. Ríkisreikningurinn 1952 sýnir þetta hins vegar, og þar geta hv. þm. og aðrir athugað það, ef þeir vilja. Hann er nú staddur hjá fjárhagsnefnd Ed. Fjvn. flytur enga brtt. við frv. út af þessu, en ég nefni það af því, að frv. hefði getað verið nákvæmara að þessu leyti, en með því móti hefði það orðið meira fyrirferðar og kostað meiri vinnu af hendi þeirra, er sömdu það. Má líka líta svo á, að það sé nógu nákvæmt eins og nú er komið, sbr. það, sem ég hef áður sagt um þýðingu þess.

Brtt. frá fjvn. við frv. eru á þskj. 469. Um þær hef ég þetta helzt að segja:

1. brtt. er afleiðing síðustu brtt. Þar kemur fram samtala viðbótargjalda fjáraukalagafrv., eftir að fjvn. hefur leiðrétt það með tillögum sínum.

2. brtt., a-liður, stafar af því, að samkvæmt ríkisreikningi 1952 voru brúttótekjur skólabúsins á Hólum kr. 10872.87 minni en tekið er upp í frv. — Brtt. b og e eru í sambandi við 20. gr. fjárlaganna, bæði út og inn. Þegar meta skal, hvað koma skuli á fjáraukalög af því, sem fært er á 20. gr., þá er það umdeilanlegt nokkuð, því að þessari grein tilheyra upphæðir, svo sem lán, sem tekin eru til þess að endurlána, geymslufé milli ára og því um líkt.

Brtt. n. eru fram komnar eftir nákvæma athugun, sem n. gerði og fjmrn. féllst á að gerðar yrðu. Verði þær samþykktar, er 20. gr. gerð upp í sambandi við þetta frv. eftir sömu reglum og lagðar voru til grundvallar í fyrra á Alþingi eftir till. fjvn. við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir 1951.

Síðasta brtt., 2.d, er afleiðing hinna, það er breytt samtala vegna breyttra upphæða innan samlagningarinnar.

Um hækkun þá, sem orðið hefur á einstökum greinum frá fjárlögum, sé ég ekki ástæðu til þess að ræða, enda of langt um liðið til þess, að áhugaefni sé, borið saman við það, sem líðandi stund leggur til af umræðuefni.

Samgöngumál á sjó og vegamál og kennslumál, stjórn ríkisins og dýrtíðarráðstafanir eru með hæsta umframtölu á frv. Símann tel ég ekki með, af því að hann meira en bar sig vegna umframtekna.

Af því að útgjöld samkv. 22., 23. og 24. gr. fjárlaganna eru færð inn á hinar ýmsu greinar og hækka þær á frv., þá má síður en svo líta þannig á, að greitt hafi verið í heimildarleysi frá Alþingi allt, sem fjáraukalagafrv. hljóðar um. Sjálfsagt má deila um einhverjar umframgreiðslur og réttmæti þeirra, en það er komið sem komið er, og við að rýna í ríkisreikninginn 1952 hefur mér fundizt, að eftir atvikum væri ekki um að fást það, sem setja hefur þurft á frv. þetta til fjáraukalaga. Og eins og hið prentaða álit fjvn. á þskj. 469 ber með sér, leggur n. ágreiningslaust til, að frv. verði samþ. með þeim leiðréttingum, sem þar eru skráðar og ég hef nú gert grein fyrir.